Upplýsingar fyrir sakborninga
Á þessari síðu
Málsmeðferð fyrir héraðsdómi
Ef rannsókn lögreglu leiðir til þess að ákæra er gefin út ber ákærðum einstaklingi skylda til að koma fyrir dóm og svara þar til saka.
Þegar sakamál hefur borist héraðsdómi frá ákæruvaldinu gefur dómari út fyrirkall á hendur ákærða þar sem fram kemur hvar og hvenær málið verði þingfest fyrir dómi.
Þingfesting
Við þingfestingu sakamáls fyrir héraðsdómi er ákæran kynnt fyrir ákærða og hann spurður að því hvort hann játi eða neiti sök samkvæmt því sem í ákærunni segir.
Ákærði getur fengið frest til að kynna sér sakarefnið og taka afstöðu til þess sem hann er sakaður um í ákæru.
Ef ákærður einstaklingur mætir ekki fyrir dómi getur hann átt von á því að lögregla sæki hann og færi fyrir dóminn.
Útivistarmál
Í undantekningartilvikum má leggja dóm á mál þó ákærði hafi ekki mætt fyrir dóminn.
Það er heimilt ef ákærði hefur ekki lögmæt forföll og tekið hefur verið fram í fyrirkalli að málið kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum í tilvikum þar sem brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna og sviptingu réttinda og einnig í tilvikum þar sem ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls og skýlaust játað sök.
Aðalmeðferð
Neiti ákærði sök er í kjölfarið ákveðið hvenær svokölluð aðalmeðferð fer fram. Skylt er að skipa ákærða verjanda ef málið fer í aðalmeðferð nema ákærði óski eftir að flytja mál sitt sjálfur.
Skýrsla sakbornings fyrir dómi
Þegar aðalmeðferð fer fram gefur ákærði fyrst skýrslu. Ákærða er óskylt að svara spurningum varðandi þá refsiverðu hegðun sem honum er gefin að sök og á rétt á að neita því alfarið að gefa skýrslu um sakarefnið.
Skýrslutaka af fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu en það eru þó fleiri viðstaddir í dómsalnum. Í dómsalnum eru viðstaddir dómari, eða dómarar, sækjandi, verjandi og réttargæslumaður í þeim tilvikum þar sem brotaþoli hefur fengið réttargæslumann skipaðan, og stundum enn fleiri þegar um opin þinghöld er að ræða.
Hvernig fer skýrslutakan fram?
Sá sem gefur skýrslu fyrir dómi situr í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum, séð frá þeim sem skýrsluna gefur, sitja sækjandi og mögulega réttargæslumaður, en hægra megin situr verjandi og einnig ákærði þegar hann er ekki að gefa skýrslu.
Það er sækjandi sem spyr spurninga fyrst en eftir að hann hefur spurt ákærða spyr verjandi ákærða spurninga og þá spyr dómari stundum ákærða spurninga einnig.
Ákærði á rétt á því að sitja og hlýða á framburði annarra vitna en í framkvæmd er ákærða oft gert að víkja þegar brotaþolar í kynferðisbrotamálum gefa skýrslu. Á eftir skýrslutöku ákærða er komið að vitnum málsins að gefa skýrslu, sem koma fyrir dóminn eitt í einu. Rétt eins og við skýrslutöku ákærða þá er það ákærandi sem fyrst spyr þau spurninga um atvik málsins.
Undantekning á þessu eru þau vitni sem koma fyrir dóminn sérstaklega af hálfu ákærða en þá byrjar verjandi að spyrja spurninga og ákærandi getur svo spurt spurninga þegar verjandi hefur lokið skýrslutökunni.
Munnlegur málflutningur
Eftir skýrslutökur fer fram munnlegur málflutningur en þá flytur ákærandi ræðu fyrst og svo verjandi.
Í þeim tilvikum þar sem réttargæslumaður er viðstaddur aðalmeðferð fyrir hönd brotaþola þá flytur réttargæslumaður sína ræðu á eftir ákæranda. Eftir málflutninginn er mál dómtekið en dómari hefur fjórar vikur til þess að kveða upp dóm sinn í málinu.
Almenningur má fylgjast með
Almenna reglan er sú að almenningur megi mæta í dómsal hafi fólk áhuga á því að fylgjast með meðferð sakamáls fyrir dómi.
Undantekning á þessari reglu varðar einkum viðkvæm mál svo sem kynferðisbrotamál og mál sem varða ofbeldi í nánum samböndum, en þá er málsmeðferðin lokuð almenningi og fjölmiðlum til verndar hlutaðeigandi.
Játning fyrir dómi
Meðferð mála þar sem ákærði játar sök er aðeins frábrugðin þeirri þegar ákærði neitar sök. Þá er yfirleitt ekki talin þörf á því að taka skýrslur af vitnum og ekki fjallað sérstaklega um sönnunargögn málsins.
Ákærandi og verjandi fjalla í málflutningsræðum sínum þá fyrst og fremst um það hver refsing eigi að vera fyrir það brot sem hefur verið játað. Öll málsmeðferðin er því styttri og í ákveðnum tilvikum er dómur kveðinn upp strax í kjölfarið.
Miðað er við það að játning ákærða hafi áhrif á það hver hin dæmda refsing er í málinu, að ákærður maður njóti þess að játa brot sitt greiðlega fyrir dómi.
Dómur
Dómur er skrifleg niðurstaða dómstóls um efni tiltekins máls sem hefur að geyma forsendur og dómsorð. Dómur er bindandi fyrir ákærða, ákæruvaldið og aðra um þau efnisatriði sem þar eru dæmd.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari