Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Í hjúskaparlögum kemur meðal annars fram að hjón eru jafnrétthá í hjónabandi og bera jafnar skyldur gagnvart hvort öðru og börnum sínum. Hvort hjóna ber ábyrgð á eignum sínum og skuldum en eignir hjóna geta skipst í hjúskapareignir og séreignir.

Könnun hjónavígsluskilyrða (útgáfa könnunarvottorðs)

Áður en tveir einstaklingar eru gefnir saman í hjónaband þarf að fara fram könnun á því hvort skilyrði til hjónavígslu séu uppfyllt. Könnun hjónavígsluskilyrða annast meðal annars sýslumenn í því umdæmi þar sem annað eða bæði hjónaefna eiga lögheimili. Sýslumenn sjá alfarið um könnun hjónavígsluskilyrða þegar annað eða bæði hjónaefna eiga lögheimili erlendis.

Athugið að rétt er að benda á að skila þarf inn nauðsynlegum gögnum í tíma áður en hjónavígslan fer fram og misjafnt er eftir embættum hve langur sá tími er. Ráðlagt er að hafa samband við viðkomandi embætti til að afla upplýsinga um það.

Skilyrði fyrir því að ganga í hjónaband

Skilyrði fyrir hjónavígslu eru:

  • Að annað hjónaefna sé ekki afkomandi hins og hjónaefni mega ekki vera systkin. Það sama á við um kjörforeldri og kjörbarn nema ættleiðing hafi verið felld niður.

  • Meginregla er að hjónaefni þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

  • Hjónaefni þurfa að vera lögráða

  • Fyrri hjúskap þarf að hafa verið lokið með formlegum hætti, með lögskilnaði hafi hjónaefni verið gift áður. Þau sem eru skilin að borði og sæng geta ekki gengið í hjónaband að nýju.

Gögn sem framvísa þarf fyrir athöfn

Fylla skal út eyðublaðið Tilkynning um hjónavígslu og leggja fram hjá sýslumanni.

Hjónavígsluskýrslan þarf að vera vottuð af tveimur svaramönnum sem ábyrgjast að ekkert sé því til fyrirstöðu að viðkomandi aðilar gangi í hjónaband. Svaramenn sem árita hjónavígsluskýrsluna þurfa ekki að vera viðstaddir hjónavígsluna.

Fylgigögn

Með eyðublaðinu skal leggja fram

Vottorð um hjúskaparstöðu má ekki vera eldra en 8 vikna þegar það er lagt fram.

Hafi hjónaefni verið gift áður skal þar að auki leggja fram leyfi sýslumanns til lögskilnaðar eða dóm þar að lútandi. Hafi fyrri hjúskap lokið með andláti maka skal leggja fram gögn sem staðfesta lok skipta á dánarbúi.

Ef hjónaefni á lögheimili erlendis skal leggja fram sambærileg gögn frá erlendu yfirvaldi.

Uppfylli hjónaefni skilyrði til að giftast er gefið út svokallað könnunarvottorð með áritun á hjónavígsluskýrsluna.

Helstu réttindi og skyldur í hjónabandi

  • Meginregla er að hjón skuli eiga lögheimili á sama stað.

  • Börn fædd í hjúskap foreldra njóta forsjár þeirra beggja við fæðingu og hjón bera jafnar skyldur gagnvart hvort öðru og gagnvart börnum sínum. 

  • Meginregla er að eignir og skuldir hjóna séu hjúskapareignir eða sameiginlegar eignir sem skiptast til helminga ef hjúskapi lýkur með skilnaði

  • Öðru hjóna er óheimilt að selja eða veðsetja tilteknar eignir án samþykkis hins.

  • Tilteknar eignir geta talist verið séreign annars hjóna og koma ekki til skipta við lok hjúskapar. Séreign getur komið til vegna ákvæða laga eða vegna þess að gerður er um þær samningur sem kallast kaupmáli. 

  • Hjón teljast til lögerfingja hvers annars. Eftirlifandi maki í hjónabandi getur sótt um leyfi til setu í óskiptu búi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Lok hjónabands

Hjúskap getur lokið með ógildingu, lögskilnaði eða andláti.

Ógilding

Annað hjóna getur krafist ógildingar hjúskapar fyrir dómi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

Skilnaður

Sjá umfjöllun um skilnað að borði og sæng og lögskilnað.

Andlát

Hjúskap lýkur við andlát maka. Eftirlifandi maki má ekki gifta sig að nýju nema gengið hafi verið frá skiptum á dánarbúi með formlegum hætti.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn