Hjónaband
Stafræn umsókn um könnunarvottorð
Hér að neðan geta hjónaefni sem eru með íslenska kennitölu, rafræn skilríki og fædd á Íslandi sótt um könnunarvottorð með stafrænum hætti. Í stafrænu umsóknarferli er aflað allra fylgigagna og gengið frá greiðslu fyrir bæði fylgigögn og útgáfu könnunarvottorðs. Athugið að:
Hjúskaparstöðuvottorð gildir einungis í 12 vikur frá útgáfu þess.
Skrá þarf netföng og símanúmer hjónaefna og tveggja svaramanna í umsóknarferlinu.
Eftir að lokið er við umsóknarferlið verður hjónaefnum og svaramönnum send umsóknin til rafrænnar undirritunar.
Umsókn hlýtur ekki málsmeðferð fyrr en rafræn undirritun beggja hjónaefna og tveggja svaramanna hefur borist.
Því er mikilvægt að hjónaefni og svaramenn fylgist með tölvupósti.
Útgefin könnunarvottorð verða senda hjónaefnum í pósthólf þeirra á Ísland.is. Það er á ábyrgð hjónaefna að afhenda vígslumanni könnunarvottorðið fyrir hjónavígsluna.
Ef viðkomandi er ekki með lögheimili á Íslandi þarf að skila inn hjúskapastöðuvottorði frá því landi sem lögheimili er skráð
Upplýsingar sem veittar eru um áætlaðan vígsludag eru ekki tímabókanir fyrir hjónavígslu. Hjónaefni skulu snúa sér beint til vígsluaðila til að ákveða stað og stund fyrir hjónavígslu.
Könnun hjónavígsluskilyrða (útgáfa könnunarvottorðs)
Áður en tveir einstaklingar eru gefnir saman í hjónaband þarf að fara fram könnun á því hvort skilyrði til hjónavígslu séu uppfyllt. Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum annast könnun hjónavígsluskilyrða á landsvísu.
Sé hjónavígsla fyrirhuguð á næstunni er ráðlagt að óska könnunar á hjónavígsluskilyrðum með góðum fyrirvara. Útgáfa könnunarvottorðs sýslumanns er forsenda þess að hjónavígsla megi fara fram.
Skilyrði fyrir því að ganga í hjónaband
Skilyrði fyrir hjónavígslu eru:
Hjónaefni þurfa að hafa náð 18 ára aldri.
Hjónaefni þurfa að vera lögráða
Fjárskiptum og lögskilnaði eða skiptum á dánarbúi þarf að hafa verið lokið með formlegum hætti hafi hjónaefni verið áður í hjúskap.
Að annað hjónaefna sé ekki afkomandi hins og hjónaefni mega ekki vera systkin. Það sama á við um kjörforeldri og kjörbarn nema ættleiðing hafi verið felld niður.
Þjónustuaðili
Sýslumenn