Einstaklingar sem eru ríkisborgarar landa utan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, EFTA og Færeyja þurfa almennt atvinnuleyfi til að mega vinna á Íslandi. Í sumum tilvikum eru einstaklingar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.
Almennt um atvinnuleyfi
Atvinnuleyfi eru alltaf tímabundin. Gildistími þeirra fer eftir tegund atvinnuleyfis og dvalarleyfis.
Ef dvalarleyfi er ekki til staðar er það á ábyrgð atvinnurekanda að sækja um atvinnuleyfi.
Ef dvalarleyfi er til staðar er það sameiginleg ábyrgð starfsmanns og atvinnurekanda að sækja um atvinnuleyfi. Það gildir líka um framlengingu atvinnuleyfis.
Starfsmaður má ekki hefja störf fyrr en atvinnuleyfi er veitt.
Atvinnuleyfi er gefið út sameiginlega til starfsmanns og atvinnurekanda.
Einstaklingurinn má bara vinna hjá þeim atvinnurekanda sem atvinnuleyfið er veitt til. Atvinnuleyfið er líka bundið við þann einstakling sem sótt er um leyfi fyrir.
Ráðningarsamningur getur gilt til lengri eða skemmri tíma.
Nauðsynleg gögn
Með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi þarf að skila inn eftirfarandi gögnum:
Frumriti af umsóknareyðublaði. Umsóknareyðublöð fyrir tímabundin atvinnuleyfi má finna undir hverjum leyfaflokki fyrir sig, í listanum hér fyrir neðan.
Í mörgum tilvikum þarf einnig að setja umsögn viðeigandi stéttarfélags í umsóknina. Stéttarfélög fara meðal annars yfir ráðningarsamninginn og meta hvort launakjör séu að minnsta kosti í samræmi við lágmarkskjör viðeigandi kjarasamnings. Þegar Efling er viðeigandi stéttarfélag leitar Vinnumálastofnun til þeirra til að afla umsagnar.
Ráðningarsamningur og umsókn um atvinnuleyfi þurfa að vera undirrituð af atvinnurekanda og starfsmanni.
Atvinnurekandi skilar inn umsókn um atvinnuleyfi, ásamt umsókn um dvalarleyfi, til Útlendingastofnunar. Hægt er að leggja fram slíkar umsóknir hjá sýslumanni á landsbyggðinni.
Útlendingastofnun framsendir umsókn um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar til frekari vinnslu þegar skilyrði dvalarleyfis hafa verið uppfyllt.
Atvinnuleyfi er gefið út til atvinnurekanda og einstaklings.
Starfsmaður má hefja störf þegar atvinnuleyfi hefur verið veitt.
Nánar um atvinnuleyfi
Það þarf að skila inn umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi áður en fyrra leyfi rennur út.
Umsókn um framlengingu þarf að uppfylla öll skilyrði hins tímabundna atvinnuleyfis og atvinnurekandi þarf að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi vegna starfa einstaklingsins.
Umsókn um framlengt atvinnuleyfi þarf að leggja fram hjá Útlendingastofnun.
Vilji einstaklingur með tímabundið atvinnuleyfi skipta um vinnustað þarf viðkomandi að skila inn umsókn um atvinnuleyfi til Útlendingastofnunar frá hinum nýja atvinnurekanda.
Það leyfi þarf að vera veitt áður en viðkomandi má hefja störf hjá nýjum atvinnurekanda.
Hefji starfsmaður með takmörkuð atvinnuréttindi störf áður en leyfi er veitt getur það leitt til þess að umsókn verði synjað.
Brot gegn lögunum geta varðað sektum eða fangelsi í allt að tvö ár. Það á við um bæði atvinnurekanda og einstaklinginn sem í hlut á.
Á þetta við óháð því hvort áætlað sé að viðkomandi muni starfa hér á landi í skemmri eða lengri tíma.
Atvinnurekendur bera ábyrgð á því að starfsmenn séu með tilskilin leyfi.
Aðrar aðstæður þar sem þörf er á atvinnuleyfi
Skilnaður
Ef makar eða sambúðarmakar ríkisborgara EES-lands skilja gætu þeir einstaklingar þurft að sækja um atvinnuleyfi.
Ekki með dvalarleyfi
Einstaklingar sem eru ekki með ótímabundið dvalarleyfi gætu þurft að sækja um atvinnuleyfi þegar þeir verða 18 ára, þrátt fyrir að hafa alist upp á Íslandi.
Starfsfólk í ferðaþjónustu
Leiðsögumenn og aðrir starfsmenn í ferðaþjónustu sem eru með ríkisfang utan EES þurfa að sækja um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa hér á landi.
Hverjir þurfa ekki atvinnuleyfi?
Ástæður fyrir því að einstaklingur þarf ekki tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi geta verið upprunaland viðkomandi, aðstæður eða tegund vinnu sem á að sinna.
Danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar.
Ríkisborgarar landa sem eru hluti af EFTA, EES og samningi Íslands, Danmerkur og Færeyja.
Ríkisborgarar þessara ríkja eru undanþegnir atvinnuleyfi:
Austurríki
Belgía
Búlgaría
Danmörk
Eistland
Finnland
Frakkland
Færeyjar
Grikkland
Holland
Írland
Ítalía
Króatía
Kýpur
Lettland
Liechtenstein
Litháen
Lúxemborg
Malta
Noregur
Pólland
Portúgal
Rúmenía
Slóvakía
Slóvenía
Spánn
Sviss
Svíþjóð
Tékkland
Ungverjaland
Þýskaland
Aðstandendur þurfa þó að fá útgefið dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun til að dvelja löglega hér á landi.
Með ótímabundið dvalarleyfi.
Erlendir makar og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara og börn þeirra að átjan ára aldri.
Hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar.
Eru í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.
Hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli vinnudvalar ungs fólks.
Einstaklingar sem voru íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt sinn.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.
Erlendir makar og sambúðarmakar þeirra sem veitt hefur verið tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar og börn þeirra að átján ára aldri.
Í vissum tilvikum geta störf útlendinga fallið undir undanþágu í lögum ef starfstímabil fer ekki yfir 90 daga á ári. Fari starfstímabil hins vegar yfir 90 daga þarf að sækja um og fá útgefið atvinnuleyfi.
Ef tilkynning hefur ekki verið send til Vinnumálastofnunar telst einstaklingur ekki undanþeginn atvinnuleyfi þar sem ákvæði greinar 23 í lögunum teljast ekki uppfyllt. Getur það leitt til þess að viðkomandi starfsmaður verði stöðvaður og vísað frá á landamærum.
Almennt teljast öll störf og atvinnugreinar á Íslandi falla undir kjarasamninga. Sjá nánar á vefsíðu ASÍ.
Sjálfboðavinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði í hagnaðarskyni, oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, stenst hvorki kjarasamninga né lög.
Atvinnurekendum er því óheimilt að láta sjálfboðaliða sinna störfum sem almennt er greitt fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Á Íslandi telst eingöngu heimilt að sinna sjálfboðaliðastörfum ef um er að ræða frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðarstarfsemi, menningarstarfsemi eða mannúðarstarfsemi sem ekki er rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu samkvæmt grein 4 í lögum um tekjuskatt.
Ráðningarsamningar sem kveða á um óhagstæðari kjör en samkvæmt kjarasamningum, teljast ógildir. Fyrir frekari upplýsingar og aðstoð skal hafa samband við viðeigandi stéttarfélag.
Auk framangreinds þurfa sjálfboðaliðar með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkjanna og Færeyja að sækja um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun, óháð lengd dvalar á Íslandi. Þetta er í samræmi við grein 67 í lögum um útlendinga.