Fara beint í efnið

Sækja um atvinnuleyfi

Á þessari síðu

Einstaklingar sem eru ríkisborgarar landa utan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, EFTA og Færeyja þurfa almennt atvinnuleyfi til að mega vinna á Íslandi. Í sumum tilvikum eru einstaklingar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

Almennt um atvinnuleyfi

  • Atvinnuleyfi eru alltaf tímabundin. Gildistími þeirra fer eftir tegund atvinnuleyfis og dvalarleyfis.

  • Ef dvalarleyfi er ekki til staðar er það á ábyrgð atvinnurekanda að sækja um atvinnuleyfi.  

  • Ef dvalarleyfi er til staðar er það sameiginleg ábyrgð starfsmanns og atvinnurekanda að sækja um atvinnuleyfi. Það gildir líka um framlengingu atvinnuleyfis.  

  • Starfsmaður má ekki hefja störf fyrr en atvinnuleyfi er veitt.

  • Atvinnuleyfi er gefið út sameiginlega til starfsmanns og atvinnurekanda.   

  • Einstaklingurinn má bara vinna hjá þeim atvinnurekanda sem atvinnuleyfið er veitt til. Atvinnuleyfið er líka bundið við þann einstakling sem sótt er um leyfi fyrir.

  • Ráðningarsamningur getur gilt til lengri eða skemmri tíma. 

Nauðsynleg gögn

Með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi þarf að skila inn eftirfarandi gögnum: 

  1. Frumriti af umsóknareyðublaði. Umsóknareyðublöð fyrir tímabundin atvinnuleyfi má finna undir hverjum leyfaflokki fyrir sig, í listanum hér fyrir neðan.

  2. Ráðningarsamningur. Hægt er að nota staðlaðan ráðningarsamning Vinnumálastofnunar.

  3. Í mörgum tilvikum þarf einnig að setja umsögn viðeigandi stéttarfélags í umsóknina. Stéttarfélög fara meðal annars yfir ráðningarsamninginn og meta hvort launakjör séu að minnsta kosti í samræmi við lágmarkskjör viðeigandi kjarasamnings. Þegar Efling er viðeigandi stéttarfélag leitar Vinnumálastofnun til þeirra til að afla umsagnar.  

Ráðningarsamningur og umsókn um atvinnuleyfi þurfa að vera undirrituð af atvinnurekanda og starfsmanni.

Gátlistar vegna umsókna

Tegundir tímabundinna atvinnuleyfa

Hver tegund af tímabundnu atvinnuleyfi hefur sérstök skilyrði sem þarf að uppfylla.

Umsóknarferli

  1. Atvinnurekandi skilar inn umsókn um atvinnuleyfi, ásamt umsókn um dvalarleyfi, til Útlendingastofnunar. Hægt er að leggja fram slíkar umsóknir hjá sýslumanni á landsbyggðinni.

  2. Útlendingastofnun framsendir umsókn um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar til frekari vinnslu þegar skilyrði dvalarleyfis hafa verið uppfyllt. 

  3. Atvinnuleyfi er gefið út til atvinnurekanda og einstaklings.

  4. Starfsmaður má hefja störf þegar atvinnuleyfi hefur verið veitt. 

Nánar um atvinnuleyfi

Aðrar aðstæður þar sem þörf er á atvinnuleyfi

Skilnaður

Ef makar eða sambúðarmakar ríkisborgara EES-lands skilja gætu þeir einstaklingar þurft að sækja um atvinnuleyfi.

Ekki með dvalarleyfi

Einstaklingar sem eru ekki með ótímabundið dvalarleyfi gætu þurft að sækja um atvinnuleyfi þegar þeir verða 18 ára, þrátt fyrir að hafa alist upp á Íslandi.

Starfsfólk í ferðaþjónustu

Leiðsögumenn og aðrir starfsmenn í ferðaþjónustu sem eru með ríkisfang utan EES þurfa að sækja um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa hér á landi.

Hverjir þurfa ekki atvinnuleyfi?

Ástæður fyrir því að einstaklingur þarf ekki tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi geta verið upprunaland viðkomandi, aðstæður eða tegund vinnu sem á að sinna.

Sjálfstætt starfandi einstaklingar

Einstaklingar sem eru ríkisborgarar ríkja utan EES mega ekki starfa á Íslandi sem sjálfstætt starfandi einstaklingar.

Lög og reglur

Hafðu samband

Netfang: atvinnuleyfi@vmst.is

Símatími vegna atvinnuleyfa: Þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 9-11.

Upplýsingar um innflytjendamál og áritanir

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun