Sækja um atvinnuleyfi
Á þessari síðu
Fjölskyldusameining
Skilyrði
Nánasti aðstandandi einstaklings sem á að ráða til starfa er íslenskur ríkisborgari eða hefur tiltekin atvinnuleyfi hérlendis.
Einstaklingurinn hefur dvalarleyfi sem nánasti aðstandandi íslensks ríkisborgara.
Viðkomandi er aðstandandi einstaklings sem hefur fengið eitt af eftirtöldum atvinnuleyfum:
ótímabundið dvalarleyfi
tímabundið atvinnuleyfi sem tengist dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða
tímabundið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar
tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk þar sem gildistími atvinnu og dvalarleyfis nemur að minnsta kosti einu ári,
tímabundið atvinnuleyfi vegna náms þegar nám telst framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi, eða útlendingur hafi endurnýjað dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga þar sem viðkomandi útlendingur hefur lokið námi hér á landi.
Útlendingastofnun metur hvort erlendur ríkisborgari uppfylli skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfanna.
Nauðsynleg gögn
Frumrit af umsókn
Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar
Ráðningarsamningur
Ráðningarsamningurinn er gerður milli einstaklingsins og atvinnurekanda. Það er ekki nauðsynlegt að nota staðlað form ráðningarsamnings af vef Vinnumálastofnunar en það þarf að gæta að því að efnislegar kröfur til samnings eru þær sömu. Það sem þarf að koma fram er meðal annars eftirfarandi:
Upplýsingar um fyrirhugað starf einstaklingsins hjá atvinnurekandanum og starfsfyrirkomulag. Þá skal einnig tilgreina starfsstöð.
Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa viðkomandi.
Launakjör þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga. Allar launatölur þurfa að koma fram á samningi.
Undirskriftir
Bæði einstaklingurinn sem á að ráða til starfa og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsókn og ráðningarsamning.
Ábyrgð umsækjenda
Það er á ábyrgð umsækjenda að leggja fram nauðsynleg gögn með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef nauðsynleg gögn vantar getur afgreiðsla umsóknarinnar tafist eða henni verið synjað. Vinnumálastofnun óskar eftir viðbótargögnum ef þörf er talin á þeim.
Skila umsókn
Umsókninni er skilað til:
Útlendingastofnunar
Dalvegi 18
201 Kópavogi
Utan höfuðborgarsvæðis
Umsókn er skilað til viðeigandi skrifstofu sýslumanns.
Framlenging atvinnuleyfis
Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn, það er, umsóknareyðublaði og ráðningarsamningi. Það skal gæta þess að nauðsynlegar upplýsingar komi fram á þeim gögnum.
Sé umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda skilað áður en fyrra leyfi rennur út má starfsmaður halda áfram störfum meðan umsókn um framlengingu er til vinnslu.
Það er á ábyrgð beggja umsækjenda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni eða upplýsingum á þeim er ábótavant leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.
Hvenær má starfsmaður hefja störf?
Starfsmaður má ekki hefja störf fyrr en atvinnuleyfi er veitt.
Öll atvinnuleyfi eru bundin við tiltekinn atvinnurekanda og flytjast ekki með starfsmanni til nýs atvinnurekanda. Einstaklingur sem starfar hjá fleiri en einum atvinnurekanda þarf því að sækja um atvinnuleyfi hjá hverjum og einum atvinnurekanda og er það auðsótt teljist almenn skilyrði fyrir útgáfu atvinnuleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar uppfyllt.
Nýr atvinnurekandi
Með umsókn um nýtt atvinnuleyfi hjá nýjum atvinnurekanda þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn, það er, umsóknareyðublaði og ráðningarsamningi. Gæta þarf að nauðsynlegar upplýsingar komi fram á þeim gögnum og afla umsagnar stéttarfélags áður en umsókn er skilað inn til úrvinnslu.
Starfsmaður lætur af störfum
Láti starfsmaður af störfum áður en atvinnuleyfi rennur út er umsækjendum skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um það. Nægjanlegt er að tilkynna um starfslok með tölvupósti á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is.
Almennar reglur viðeigandi kjarasamnings gilda um uppsögn starfsmanns enda skuli starfsmenn sem starfa á grundvelli atvinnuleyfa njóta sömu réttinda og innlendir starfsmenn.
Lög og reglur
Greinar 11 og 12 úr lögum númer 97 frá árinu 2002 um atvinnuréttindi útlendinga.
Lög númer 80 frá árinu 2016.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun