Fara beint í efnið

Sækja um atvinnuleyfi

Á þessari síðu

Starf sem krefst sérfræðiþekkingar

Skilyrði

  • Að leitað hafi verið aðstoðar Vinnumálastofnunar við að finna starfsmann á Íslandi og innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), EFTA-ríkjanna eða Færeyja.

  • Að einstaklingur sem á að ráða hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda um að gegna tilteknu starfi sem krefst sérfræðiþekkingar samkvæmt lögum eða venju hér á landi.

  • Sérfræðiþekking einstaklingsins er nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki.

  • Sérfræðiþekking einstaklingsins felur í sér háskólamenntun, iðnmenntun, listmenntun eða tæknimenntun sem er viðurkennd á Íslandi. Í undantekningartilfellum er tekið tillit til langrar starfsreynslu sem jafna má við sérfræðiþekkingu.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir að þar til bærir aðilar að mati stofnunarinnar votti um að starfið sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu.

Gildistími

Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar er almennt veitt til eins árs en heimilt er að veita slík leyfi til allt að fjögurra ára í senn.

Nauðsynleg gögn

Frumrit af umsókn

Umsögn stéttarfélags

Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókn) nema stéttarfélagið sé Efling stéttarfélag. Í þeim tilvikum útvegar Vinnumálastofnun umsögnina.

Gátlisti vegna umsóknar

Ráðningarsamningur

Ráðningarsamningurinn er gerður milli einstaklingsins og atvinnurekandans. Í honum þarf meðal annars að koma fram:

  • Upplýsingar um fyrirhugað starf einstaklingsins hjá atvinnurekandanum og starfsheiti.

  • Upplýsingar um starfsstöð.

  • Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa viðkomandi.

  • Launakjör einstaklingsins sem á að ráða til starfa þurfa að vera sambærileg og launakjör annarra sérfræðinga sem starfa í atvinnugreininni.

Umsókn þurfa að fylgja ítarlegar upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum og hvernig útlendingurinn uppfyllir þær kröfur sem starfið gerir. Þessar upplýsingar má einnig veita í samningsviðauka eða fylgiskjali umsóknar.

Undirskriftir

Bæði atvinnurekandi og einstaklingurinn sem á að ráða til starfa þurfa að skrifa undir umsókn og ráðningarsamning.

Önnur fylgiskjöl geta verið:

  • Staðfest afrit af prófskírteini einstaklingsins á íslensku eða ensku.

  • Staðfesting á starfsreynslu. Ef sérfræðiþekking viðkomandi byggist á langri starfsreynslu þarf að fylgja með umsókn staðfesting fyrrum atvinnurekanda á störfum viðkomandi þar sem koma fram ítarlegar upplýsingar um starf hans og starfstíma. Ferilskrá er ekki ígildi slíkrar staðfestingar.

  • Afrit af gildu starfsleyfi. Ef um lögverndað starfsheiti er að ræða eða löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að einstaklingurinn hafi tilskilin réttindi til að sinna því starfi sem óskað er eftir að ráða hann vegna.

Sækja um starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna á vef Embættis landlæknis.

Sérfræðingur eða stjórnandi sem flyst á milli starfsstöðva

Sérfræðingur

Ef atvinnurekandi sendir starfsmann tímabundið til starfa við starfsstöð sína á Íslandi er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrðum. Þá þarf einstaklingurinn að vera starfsmaður atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem sérfræðingur við starfsstöð hans erlendis.

Stjórnandi

Ef um er að ræða starfsmann atvinnurekanda með ótímabundna ráðningu sem stjórnandi við starfsstöð atvinnurekanda erlendis er Vinnumálastofnun heimilt að víkja frá skilyrðum. Vinnumálastofnun óskar eftir rökstuðningi atvinnurekanda varðandi nauðsyn þess að viðkomandi útlendingur komi til starfa við starfsstöð hans á Íslandi telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.

Störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi

Vinnumálastofnun getur veitt tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi og birt hefur verið í reglugerð. Vinnumálastofnun óskar staðfestingar á sérhæfðri þekkingu viðkomandi einstaklings í samræmi við íslenskar reglur telji stofnunin slíkt nauðsynlegt.

Ábyrgð umsækjenda

Það er á ábyrgð umsækjenda að leggja fram nauðsynleg gögn með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef nauðsynleg gögn vantar getur afgreiðsla umsóknarinnar tafist eða henni verið synjað. Vinnumálastofnun óskar eftir viðbótargögnum ef þörf er talin á þeim.


Skila umsókn

Umsókninni er skilað til:

Útlendingastofnunar

Dalvegi 18

201 Kópavogi

Utan höfuðborgarsvæðis

Umsókn er skilað til viðeigandi skrifstofu sýslumanns.


Hefja störf sem fyrst

Útlendingur má almennt ekki hefja störf áður en atvinnuleyfi og dvalarleyfi hefur verið veitt. Atvinnurekandi getur þó óskað eftir því að starfskrafturinn geti hafið störf áður en dvalarleyfi hefur verið veitt.

Skilyrði fyrir því er að atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt. Atvinnurekandi þarf jafnframt að ábyrgjast kostnað við heimför viðkomandi starfsmanns verði umsókn um dvalarleyfi synjað.

Framlenging atvinnuleyfis

Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar er almennt veitt til eins árs en heimilt er að veita slík leyfi til allt að fjögurra ára í senn.

Útlendingi er almennt heimilt að starfa á meðan umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda er í vinnslu. Það er þó skilyrði að umsókn um framlengingu sé lögð inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en að fyrra leyfi rennur út.

Með umsókn um framlengingu á sérfræðileyfi þarf almennt aðeins að skila inn þeim nauðsynlegu gögnum sem eru tilgreind hérna fyrir ofan.

Vinnumálastofnun er þó heimilt að óska eftir frekari upplýsingum vegna umsóknar, þar á meðal að atvinnurekandi leggi fram upplýsingar um það á hvaða hátt sérfræðiþekking einstaklingsins hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna. Enn fremur þarf atvinnurekandi að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa viðkomandi.

Nýr atvinnurekandi

Vilji útlendingur sem hefur fengið útgefið sérfræðileyfi skipta um vinnu þarf hann að sækja um atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda. Þarf að skila inn gögnum líkt og um nýja umsókn sé að ræða, að undanskildum menntunargögnum.

Vinnumálastofnun metur hvort sú sérfræðikunnátta sem viðkomandi býr yfir uppfylli skilyrði sérfræðileyfis með hliðsjón af hinu nýja starfi, óháð fyrra mati stofnunarinnar á sérfræðiþekkingu einstaklingsins. Niðurstaða slíks mats getur verið að eðli hins nýja starfs sé svo ólíkt hinu fyrra starfi sem útlendingur gegndi að hann teljist ekki sérfræðingur á því sviði að mati Vinnumálastofnunar og því sé útgáfu atvinnuleyfisins hafnað.

Réttur til að dveljast hér á landi eftir atvinnumissi

Útlendingur sem missir starf sitt getur sótt um 12 mánaða dvalarleyfi til Útlendingastofnunar til þess að leita sér að öðru starfi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar.

Lög og reglur

Grein 8 úr lögum númer 97 frá árinu 2002 um atvinnuréttindi útlendinga.

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun