Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sækja um atvinnuleyfi

Á þessari síðu

Skortur á starfsfólki

Skilyrði

  • Að leitað hafi verið aðstoðar Vinnumálastofnunar við að finna starfskraft á Íslandi, innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), EFTA eða Færeyja.

  • Atvinnurekandi færir fram sérstök rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að ráða starfsfólk frá ríkjum utan EES, EFTA-ríkjunum eða Færeyja. Til dæmis þarf að færa rök fyrir því á hvaða hátt það sé þýðingarmikið fyrir rekstur atvinnurekanda.

  • Einstaklingur sem á að ráða til starfa hefur gert ráðningarsamning við atvinnurekanda.

  • Aflað hefur verið umsagnar viðeigandi stéttarfélags.

Tímabundin atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki eru einungis veitt í undantekningartilfellum og þá í þeim tilgangi að mæta tímabundnum sveiflum á íslenskum vinnumarkaði.

Atvinnurekandi þarf að leita að starfsmanni sem nú þegar hefur aðgang að íslenskum vinnumarkaði áður en sótt er um slíkt leyfi sem og þegar sótt er um framlengingu þess.

Gildistími

Heimilt er, þegar um fyrsta skipti leyfisveitingar ræðir, að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki til allt að eins árs í senn.  

Sé fallist á að um sé að ræða skort á starfsfólki vegna árstíðabundinna sveiflna á innlendum vinnumarkaði eða vegna árstíðabundinna verkefna eins, og sláturtíð, eru slík leyfi veitt til samræmis við það tímabil.

Atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki er hægt að endurnýja til allt að tveggja ára.

Nauðsynleg gögn

1. Frumrit af umsókn

Bæði einstaklingurinn sem á að ráða til starfa og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsóknina.

Umsögn stéttarfélags

Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókn), nema stéttarfélagið sé Efling. Í þeim tilvikum aflar stofnunin þeirrar umsagnar.

2. Ráðningarsamningur

Ráðningarsamningurinn er gerður milli einstaklingsins og atvinnurekandans. Í honum þarf meðal annars að koma fram:

  • Upplýsingar um fyrirhugað starf einstaklingsins hjá atvinnurekandanum og starfsheiti.

  • Starfsstöð.

  • Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa viðkomandi.

  • Launakjör einstaklingsins þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga. Allar launatölur þurfa að koma fram á samningi, þar með talið yfirvinnukaup og vaktaálög, eða vísa með nákvæmum hætti til viðeigandi launaflokks samkvæmt kjarasamningi.

3. Upplýsingar um tilraunir atvinnurekanda

Atvinnurekandi þarf að veita upplýsingar um tilraunir við að leita að starfsfólki sem nú þegar hefur aðgang að íslenskum vinnumarkaði áður en leitað var utan Evrópska efnahagssvæðisins að starfsfólki. 

Hafi atvinnurekandi ekki auglýst starfið í gegnum EURES vinnumiðlun Vinnumálastofnunar þegar umsókn berst stofnuninni, kann stofnunin að fresta afgreiðslu umsóknarinnar til að veita atvinnurekanda tækifæri til að auglýsa starfið.

4. Rök er styðja við umsókn atvinnurekanda 

Atvinnurekandi þarf að skila inn röksemdafærslu um ástæður þess að það sé þýðingarmikið fyrir atvinnurekstur viðkomandi að ráða tiltekinn einstakling til starfa.  

Hér er ekki átt við ástæður sem lúta að útlendingnum sjálfum eða aðstæðum hans heldur einungis ástæðum er lúta að atvinnurekandanum og aðstæðum á innlendum vinnumarkaði.

Leiðbeiningar og gátlistar

Hér má nálgast gátlista yfir þau gögn og upplýsingar sem leggja þarf fram þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki. Umsækjendur þurfa að kynna sér gátlistann áður en umsókn er skilað til inn til Útlendingastofnunar.

Undirskriftir

Bæði einstaklingurinn sem á að ráða til starfa og fulltrúi hlutaðeigandi vinnuveitanda þurfa að skrifa undir umsókn og ráðningarsamning.

Ábyrgð umsækjenda

Það er á ábyrgð umsækjenda að leggja fram nauðsynleg gögn með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef nauðsynleg gögn vantar getur afgreiðsla umsóknarinnar tafist eða henni verið synjað. Vinnumálastofnun óskar eftir viðbótargögnum ef þörf er talin á þeim.


Skila umsókn

Umsókninni er skilað til:

Útlendingastofnunar

Dalvegi 18

201 Kópavogi

Utan höfuðborgarsvæðis

Umsókn er skilað til viðeigandi skrifstofu sýslumanns.


Lögverndaðar starfsgreinar

Iðngreinar

Í þeim tilvikum þegar starf sem sótt er um tímabundið atvinnuleyfi vegna telst til lögverndaðrar starfgreinar þá þarf að afla staðfestingar á starfsleyfi viðkomandi útlendings til að gegna starfinu. Skv. reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar, sbr. iðnaðarlög nr. 42/1978, mega þeir einir starfa við slík störf á Íslandi sem hafa til þess starfsleyfi, sbr. 2. gr. iðnaðarlaga.

Liggi slík staðfesting fyrir þarf hún að berast Vinnumálastofnun ellegar þarf að afla slíkrar staðfestingar. Frekari upplýsingar um öflun viðurkenningar á starfsréttindum og útgáfu á starfsleyfi er hægt að afla hjá ENIC/NARIC.

Þegar formlegt mat á starfsréttindum til iðnréttinda liggur fyrir þarf að skila afriti af starfsleyfi útgefnu af sýslumanninum á Austurlandi og matsbréfi útgefnu af ENIC/NARIC til Vinnumálastofnunar.

Heilbrigðisstéttir

Í þeim tilvikum þegar starf sem sótt er um tímabundið atvinnuleyfi vegna telst til löggildrar heilbrigðisstéttar þá þarf að afla staðfestingar á starfsleyfi viðkomandi útlendings til að gegna starfinu. Samkvæmt lögum um heilbrigðistarfsmenn nr. 34/2012 mega þeir einir starfa við slík störf á Íslandi sem hafa hlotið til þess leyfi landlæknis, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Liggi slík staðfesting fyrir þarf hún að berast Vinnumálastofnun ellegar þarf að afla slíkrar staðfestingar. Frekari upplýsingar um öflun viðurkenningar á starfsréttindum og útgáfu á leyfa er hægt að nálgast afla hjá embætti landlæknis.

Aðrar löggildar starfsgreinar

Ekki er hægt að gefa tæmandi upplýsingar um allar starfsstéttir sem teljast vera löggildar hér á landi eða hvar skal afla starfsleyfa vegna þeirra en yfirlit má nálgast á vef Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Auglýsing starfs hjá Vinnumálastofnun

Við afgreiðslu umsóknar um tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki þá getur stofnunin talið nauðsynlegt að auglýsa starf hjá Vinnumálastofnun og í gegnum Eures vinnumiðlun stofnunarinnar.

Í þeim tilvikum er umsækjendum sent erindi þar sem veittur er frestur til að skrá auglýsingu og leiðbeiningar um hvernig það er gert á Mínum síðum atvinnurekenda. Æskilegt er að auglýsing sem sett er inn í tengslum við umsókn um atvinnuleyfi sé í virkri auglýsingu í að minnsta kosti þrjár vikur.

Kröfur til starfs mega ekki vera sérsniðnar að þeim einstaklingi sem sótt er um atvinnuleyfi vegna heldur taka mið af því hvaða kröfur megi almennt gera til einstaklinga sem sinna sambærilegum störfum.

Auglýsing starfs í tengslum við umsókn atvinnuleyfis er hluti af heildstæðu mati stofnunarinnar á framboði starfsfólks á innlendum vinnumarkaði og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Skiptir því máli að atvinnurekandi sinni auglýsingu og umsýslu hennar af heilindum.

Hvenær má starfsmaður hefja störf

Starfsmaður má ekki hefja störf fyrr en atvinnuleyfi er veitt. Öll atvinnuleyfi eru bundin við tiltekinn atvinnurekanda og flytjast ekki með útlendingi til nýs atvinnurekanda. Útlendingur sem starfar hjá fleiri en einum atvinnurekanda þarf því að sækja um atvinnuleyfi hjá hverjum og einum atvinnurekanda.

Framlenging atvinnuleyfis

Með umsókn um framlengingu á leyfi þurfa öll sömu skilyrði að vera uppfyllt og þegar leyfið var veitt í fyrsta sinn. Kann fyrirtæki því meðal annars að þurfa að auglýsa umrætt starf aftur nema að Vinnumálastofnun veiti undanþágu frá því. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofan.

Enn fremur þarf atvinnurekandi að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Útlendingi er almennt heimilt að starfa meðan að umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda er í vinnslu. Það er þó skilyrði að umsókn um framlengingu sé lögð inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en að fyrra leyfi rennur út.

Nýr atvinnurekandi

Vilji einstaklingur, sem hefur fengið útgefið tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki, skipta um starf þarf viðkomandi að sækja um atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda.

Útlendingi er óheimilt að hefja störf hjá hinum nýja atvinnurekanda fyrr en atvinnuleyfið hefur verið veitt. Að öðru leyti er farið með umsókn líkt og þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki í fyrsta sinn. Þarf atvinnurekandi því meðal annars að auglýsa umrætt starf nema að Vinnumálastofnun veiti undanþágu frá því. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofan.

Starfsmaður lætur af störfum

Útlendingur með atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki sem missir starf sitt getur sótt um 6 mánaða dvalarleyfi til Útlendingastofnunar til þess að leita sér að öðru starfi. Sjá nánar á vef Útlendingastofnunar.

Láti starfsmaður af störfum áður en atvinnuleyfi rennur út er umsækjendum skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um það. Nægjanlegt er að tilkynna um starfslok með tölvupósti á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is.

Almennar reglur viðeigandi kjarasamnings gilda um uppsögn starfsmanns enda skuli starfsmenn sem starfa á grundvelli atvinnuleyfa njóta sömu réttinda og innlendir starfsmenn.

Lög og reglur

Grein 9 í lögum númer 97 frá árinu 2002 um atvinnuréttindi útlendinga.

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun