Prentað þann 3. des. 2024
339/2005
Reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Umsókn og veiting atvinnuleyfis.
- III. KAFLI Tímabundið atvinnuleyfi.
- 9. gr. Tímabundið atvinnuleyfi.
- 10. gr. Sjúkratrygging.
- 11. gr. Fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
- 12. gr. Lögverndaðar starfsgreinar.
- 13. gr. Starfstengd réttindi.
- 14. gr. Atvinnuleyfi fyrir nánustu aðstandendur útlendings.
- 15. gr. Atvinnuleyfi fyrir hælisleitendur og þá sem hefur verið vísað úr landi.
- 16. gr. Gildistími tímabundins atvinnuleyfis.
- 17. gr. Framlenging á tímabundnu atvinnuleyfi.
- 18. gr. Nýr atvinnurekandi.
- 19. gr. Atvinnuleyfi til sérhæfðs starfsmanns.
- IV. KAFLI Óbundið atvinnuleyfi.
- V. KAFLI Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.
- VI. KAFLI Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.
- VII. KAFLI Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.
- VIII. KAFLI Málsmeðferð.
- IX. KAFLI Ýmis ákvæði.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi. Um undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi gilda ákvæði III. kafla laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga og 3. gr. reglugerðar þessarar.
2. gr. Orðskýringar.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
- Atvinnuleyfi. Leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til að starfa hér á landi eða atvinnurekanda til að ráða útlending í starf.
- Tímabundið atvinnuleyfi. Tímabundið leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.
- Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna. Tímabundið leyfi veitt útlendingi vegna sérhæfðra verkefna.
- Óbundið atvinnuleyfi. Ótímabundið leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.
- Atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar. Atvinnuleyfi erlendra námsmanna í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða vegna samninga um vistráðningu á heimili.
- Fullt nám. 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
- Atvinnurekandi. Einstaklingur eða fyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
- Búsetuleyfi. Leyfi sem felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar skv. 15. gr. laga um útlendinga.
- Útlendingur. Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
-
Nánustu aðstandendur:
- Maki.
- Samvistarmaki.
- Sambúðarmaki, þegar aðilar geta sýnt fram á að hafa búið saman í skráðri sambúð eða sambúð sem er staðfest með öðrum hætti í að minnsta kosti tvö ár og hyggjast búa áfram saman.
- Niðjar yngri en 18 ára.
- Ættmenni útlendings eða maka hans að feðgatali sem er á framfæri þeirra.
3. gr. Útlendingar sem undanþegnir eru kröfu um atvinnuleyfi.
Eftirtaldir eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi:
- Ríkisborgarar í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
- Maki launamanns sem er ríkisborgari í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu ásamt börnum þeirra sem eru yngri en 21 árs eða eru á þeirra framfæri, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. einnig lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Ættmenni launamanns sem er ríkisborgari í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og maka hans sem skyldir eru að feðgatali, sbr. b-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. einnig lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Útlendingur sem hefur verið íslenskur ríkisborgari frá fæðingu en hefur misst íslenskan ríkisborgararétt.
- Erlendur maki íslensks ríkisborgara og börn hans að 18 ára aldri.
- Útlendingur í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.
4. gr. Útlendingar sem undanþegnir eru kröfu um atvinnuleyfi vegna skammrar dvalar.
Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
- Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
- Listamenn, að undanskildum hljóðfæraleikurum, sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. Undanþága samkvæmt þessum lið tekur ekki til dansara sem koma fram á næturklúbbum, sbr. i-lið 9. gr. laga um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, með síðari breytingum.
- Íþróttaþjálfarar.
- Fulltrúar í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis.
- Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki, enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
- Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
- Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja. Aðallega er hér átt við tilvik þegar tæki eru með ábyrgð seljanda á hinu selda og ábyrgðin háð því skilyrði að uppsetning, prófanir og tímabundið eftirlit sé í höndum sérhæfðra starfsmanna seljanda eða annarra sem hann viðurkennir í þessu skyni.
5. gr. Tilkynningar.
Atvinnurekandi, sem fær útlending í þjónustu sína, sendir útlending á sínum vegum hingað til starfa eða ræður útlending til starfa hér á landi skal tilkynna um það skriflega til Útlendingastofnunar skv. 110. gr. reglugerðar nr. 53/2003, um útlendinga, sbr. 54. gr. laga um útlendinga.
II. KAFLI Umsókn og veiting atvinnuleyfis.
6. gr. Almennt.
Vinnumálastofnun annast veitingu atvinnuleyfa í umboði félagsmálaráðherra.
Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
Atvinnuleyfið skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Frá þessu má þó víkja ef sá sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir er samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara eða ríkisborgara aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Hið sama á við þegar um er að ræða maka, samvistarmaka, sambúðarmaka eða barn, yngra en 18 ára, útlendings sem fengið hefur búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum samkvæmt lögum um útlendinga. Enn fremur er heimilt að veita undanþágu þegar aðrar ríkar sanngirniskröfur en þær sem tilgreindar eru í ákvæði þessu eru fyrir hendi.
7. gr. Umsókn um atvinnuleyfi.
Atvinnurekandi sem óskar eftir tímabundnu atvinnuleyfi til að ráða útlending til starfa skal sækja um leyfið á þar til gerðum eyðublöðum Vinnumálastofnunar. Umsókn skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Vinnumálastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem lög um atvinnuréttindi útlendinga og reglugerð þessi kveða á um. Hið sama gildir er útlendingur sækir um óbundið atvinnuleyfi eða atvinnuleyfi skv. 10. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.
Útlendingastofnun veitir umsókn um atvinnuleyfi viðtöku og áframsendir til Vinnumálastofnunar.
8. gr. Staðfesting á veittu atvinnuleyfi.
Vinnumálastofnun skal tilkynna ákvarðanir sínar um veitingu atvinnuleyfa og synjanir til Útlendingastofnunar.
Þegar Vinnumálastofnun ákveður að veita atvinnuleyfi á grundvelli umsóknar að uppfylltum skilyrðum laga um atvinnuréttindi útlendinga og reglugerðar þessarar skal stofnunin tilkynna atvinnurekanda og Útlendingastofnun um ákvörðun sína. Við móttöku tilkynningar gefur Útlendingastofnun formlega út skilríki um atvinnuleyfið.
Þegar Vinnumálastofnun synjar um veitingu atvinnuleyfis á grundvelli umsóknar skal Vinnumálastofnun tilkynna atvinnurekanda um þá ákvörðun skriflega. Í tilkynningu stofnunarinnar skal meðal annars leiðbeina atvinnurekanda um kæruheimild skv. 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Vinnumálastofnun skal senda Útlendingastofnun afrit af tilkynningunni.
III. KAFLI Tímabundið atvinnuleyfi.
9. gr. Tímabundið atvinnuleyfi.
Heimilt er að veita atvinnurekanda tímabundið atvinnuleyfi til að ráða útlending til starfa að uppfylltum skilyrðum a–f-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, III. kafla reglugerðar þessarar og í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.
Við mat á því hvort skilyrðum a-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna sé fullnægt skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til:
- aðstæðna á innlendum vinnumarkaði,
- skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
- langtímaáhrifa útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa á innlendan vinnumarkað,
- hæfni starfsmannsins sem sótt er um leyfi fyrir þegar hæfnisskilyrði eru sett fyrir ráðningu í starfið,
- annarra atriða sem geta haft þýðingu um veitingu atvinnuleyfis.
Umsögn stéttarfélags skv. b-lið 1. mgr. 7. gr. laganna er ekki bindandi fyrir Vinnumálastofnun við ákvörðun um veitingu atvinnuleyfis. Stéttarfélagið eða landssambandið er veitir umsögn vegna atvinnuleyfis skal jafnframt sérstaklega rökstyðja neikvæða umsögn.
10. gr. Sjúkratrygging.
Þegar sótt er um tímabundið atvinnuleyfi skal atvinnurekandi sýna fram á að starfsmaður sé sjúkratryggður með því að leggja fram tryggingaskírteini um sjúkratryggingu að lágmarki 2.000.000 kr. frá vátryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi.
11. gr. Fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
Fullnægjandi heilbrigðisvottorð varðandi starfsmann sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir skal fylgja með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Þegar um erlent vottorð er að ræða skal jafnframt fylgja með þýðing á vottorðinu á íslensku eða ensku frá löggiltum skjalaþýðanda. Heilbrigðisvottorðið skal byggjast á læknisrannsókn á hlutaðeigandi starfsmanni og skal koma fram hvort starfsmaðurinn er haldinn smitsjúkdómi. Vinnumálastofnun skal senda sóttvarnalækni vottorðið sem metur það með tilliti til sóttvarna, sbr. sóttvarnalög og verklagsreglur sóttvarnalæknis. Heilbrigðisvottorðið skal ekki vera eldra en þriggja mánaða þegar umsókn berst Vinnumálastofnun.
Sóttvarnalæknir tilkynnir Vinnumálastofnun um niðurstöðu matsins skv. 1. mgr. innan tveggja vikna frá móttöku vottorðsins. Þegar þörf er á frekari læknisrannsókn hér á landi að mati sóttvarnalæknis skal Vinnumálastofnun gera það að skilyrði við leyfisveitinguna að útlendingur gangist undir læknisrannsókn innan fjögurra vikna frá komu hans til landsins. Gerðar eru sérstakar kröfur til læknisrannsóknar þegar útlendingurinn hefur dvalið lengur en þrjá mánuði samfellt á síðastliðnum 10 árum á landsvæðum þar sem alvarlegir smitsjúkdómar eru landlægir, sbr. verklagsreglur sóttvarnalæknis.
Ákvæði þetta hefur engin áhrif á skyldu starfsmannsins til að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis er hann kann að gefa á grundvelli sóttvarnalaga, svo sem um opinberar sóttvarnaráðstafanir.
Kostnaður vegna heilbrigðisvottorðs greiðist af umsækjanda um atvinnuleyfi.
12. gr. Lögverndaðar starfsgreinar.
Þegar atvinnurekandi sækir um leyfi til að ráða erlendan starfsmann í starf sem krefst formlegra starfsréttinda eða starfsleyfis lögum samkvæmt skal fylgja umsókninni viðurkenning hlutaðeigandi íslensks stjórnvalds um að starfsmaðurinn fullnægi þeim reglum er gilda um starfsréttindin eða starfsleyfið fyrir hlutaðeigandi starf.
Heimili lög eða reglugerðir um tiltekin starfsréttindi að starfsmönnum sé heimilt að sinna ákveðnum störfum án tilskilinna starfsréttinda á skilyrði 1. mgr. ekki við, enda megi ráða af gögnum málsins að undanþáguákvæði laganna eða reglugerðarinnar eigi við um það starf sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir.
13. gr. Starfstengd réttindi.
Þegar atvinnurekandi sækir um leyfi til að ráða erlendan starfsmann í starf þar sem tilteknir þættir starfsins krefjast þess að starfsmaður hafi ákveðin starfstengd réttindi, svo sem aukin ökuréttindi eða vinnuvélaréttindi, skal Vinnumálastofnun gera það að skilyrði við leyfisveitinguna að útlendingur sannreyni hæfni sína og/eða fái viðurkennd réttindi sín hér á landi í samræmi við þær reglur sem um réttindin gilda. Skal atvinnurekandinn sjá til þess að starfsmaður hans leiti til hlutaðeigandi stjórnvalds er annast veitingu réttindanna innan viku frá komu starfsmannsins til landsins. Að öðru leyti skal fara að þeim reglum sem um réttindin gilda, þar á meðal hvenær starfsmanni er heimilt að hefja störf við þá þætti starfsins er krefjast starfstengdra réttinda.
Enn fremur skal Vinnumálastofnun tilkynna hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi um veitingu atvinnuleyfisins.
Ákvæði þetta á ekki við um störf innan lögverndaðra starfsgreina.
14. gr. Atvinnuleyfi fyrir nánustu aðstandendur útlendings.
Heimilt er að víkja frá skilyrðum a- og e-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þegar sótt er um tímabundið atvinnuleyfi fyrir nánustu aðstandendur útlendings sem hefur fengið búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi. Skilyrði er að áður hafi jafnframt verið veitt dvalarleyfi fyrir þá útlendinga sem í hlut eiga samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga er eiga við um dvalarleyfi fyrir aðstandendur.
15. gr. Atvinnuleyfi fyrir hælisleitendur og þá sem hefur verið vísað úr landi.
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna ráðningar útlendings sem sótt hefur um hæli, þar til ákvörðun hefur verið tekin um hælisumsóknina, svo og vegna útlendings sem fengið hefur endanlega synjun um hæli eða dvalarleyfi, þar til brottvísun kemur til framkvæmda, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess. Skilyrði er að útlendingi hafi áður verið veitt bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Við veitingu atvinnuleyfis skv. ákvæði þessu er heimilt að víkja frá skilyrðum a-, b- og e-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.
Vinnumálastofnun skal tilkynna samstarfsnefnd um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, um atvinnuleyfi sem veitt eru skv. 1. mgr.
16. gr. Gildistími tímabundins atvinnuleyfis.
Atvinnuleyfi sem veitt er í fyrsta skipti skal eigi veitt til lengri tíma en til eins árs en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi.
Tímabundið atvinnuleyfi til að starfa sem heimilishjálp skal að jafnaði ekki vera veitt til lengri tíma en til sex mánaða í senn. Umsækjandi um leyfi fyrir heimilishjálp skal sýna fram á getu til að standa straum af greiðslu launa og launatengdra gjalda vegna ráðningarinnar.
17. gr. Framlenging á tímabundnu atvinnuleyfi.
Heimilt er að framlengja gildistíma atvinnuleyfis að uppfylltum skilyrðum a–c-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga um allt að tvö ár í senn en þó aldrei til lengri tíma en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi.
Við umsókn um framlengingu getur Vinnumálastofnun krafist þess að atvinnurekandi leggi fram gögn um launagreiðslur og greiðslu lögboðinna gjalda vegna útlendingsins.
18. gr. Nýr atvinnurekandi.
Heimilt er að uppfylltum skilyrðum laga um atvinnuréttindi útlendinga og reglugerðar þessarar að veita atvinnurekanda leyfi til að ráða útlending sem komið hefur til landsins til starfa hjá öðrum atvinnurekanda. Sækja skal um tímabundið atvinnuleyfi skv. 7. gr. laganna áður en útlendingurinn hefur störf hjá hinum nýja atvinnurekanda og skal yfirlýsing frá fyrri atvinnurekanda um að ráðningarslit hafi átt sér stað og ástæður þeirra fylgja umsókninni. Vinnumálastofnun er heimilt þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi að víkja frá skilyrðinu um að yfirlýsing frá fyrri atvinnurekanda skuli fylgja umsókn.
19. gr. Atvinnuleyfi til sérhæfðs starfsmanns.
Heimilt er við sérstakar aðstæður að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi þegar skilyrði g-liðar 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og g-liðar 4. gr. reglugerðar þessarar eiga ekki við.
Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis skv. 1. mgr. eru:
- Að fyrir liggi undirritaður ráðningarsamningur milli erlenda fyrirtækisins og starfsmannsins þar sem honum eru tryggð laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
- Að hinn erlendi starfsmaður sé sjúkratryggður hér á landi og hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga, sbr. 10. gr. reglugerðar þessarar.
- Að lagðar séu fram tryggingar fyrir greiðslu á heimflutningi starfsmanns að starfstíma loknum.
- Að lagt hafi verið fram fullnægjandi heilbrigðisvottorð, sbr. 11. gr. reglugerðar þessarar.
Þjónustusamningur við fyrirtæki hér á landi skal liggja fyrir. Í samningnum skal meðal annars koma fram að skilyrði viðskiptanna sé að starfsmaður hins erlenda fyrirtækis annist þjónustuna. Í þjónustusamningi eða umsókn um atvinnuleyfi á grundvelli hans skal gera grein fyrir ástæðum þess að gerð er krafa um að hlutaðeigandi útlendingur vinni hið umsamda verk.
Þegar um er að ræða starf sem krefst formlegra starfsréttinda eða starfsleyfis lögum samkvæmt skal fylgja umsókninni viðurkenning hlutaðeigandi innlends stjórnvalds um að starfsmaðurinn fullnægi þeim reglum er gilda um starfsréttindin eða starfsleyfið fyrir hlutaðeigandi starf, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar.
Atvinnuleyfi skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða á grundvelli sama þjónustusamnings. Atvinnuleyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur til landsins.
Vinnumálastofnun skal tilkynna samstarfsnefnd um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 25. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, um atvinnuleyfi sem veitt eru samkvæmt þessu ákvæði.
IV. KAFLI Óbundið atvinnuleyfi.
20. gr. Almennt.
Útlendingi, sem hefur átt lögheimili og dvalið samfellt á Íslandi í þrjú ár, má veita óbundið atvinnuleyfi hafi hann áður fengið búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga og áður verið veitt tímabundið atvinnuleyfi skv. 7. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Óbundið atvinnuleyfi felur í sér rétt til ótímabundins leyfis til að starfa hér á landi. Leyfið gildir meðan útlendingur hefur lögheimili hérlendis.
21. gr. Undanþágur vegna maka Íslendings eða útlendings sem hefur óbundið atvinnuleyfi.
Heimilt er að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og 20. gr. reglugerðar þessarar fái íslenskur ríkisborgari lögskilnað eða slíti sambúð eða samvist við erlendan maka sinn. Skilyrði er að hjúskapur, staðfest samvist eða skráð sambúð hafi varað í a.m.k. tvö ár og erlendi makinn hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. sama tíma.
Enn fremur er heimilt að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og 20. gr. reglugerðar þessarar vegna erlends maka ef um andlát íslensks maka er að ræða eða í hlut á maki útlendings sem hefur óbundið atvinnuleyfi eða börn hans 18 ára og eldri.
22. gr. Undanþága vegna námsmanna.
Heimilt er að veita útlendingi, sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið náminu, óbundið atvinnuleyfi að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og 20. gr. reglugerðar þessarar að undanskildu því að honum hafi áður verið veitt tímabundið atvinnuleyfi skv. 7. gr. laganna.
23. gr. Flóttamenn.
Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi sem fengið hefur landvist hér á landi sem flóttamaður.
V. KAFLI Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.
24. gr. Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.
Heimilt er að veita útlendingi sem stundar fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu sem hluta af námi, með námi eða í námsleyfum, enda sé námsframvinda eðlileg að mati hlutaðeigandi skóla.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis er framvísun innritunarvottorðs hlutaðeigandi skóla. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða í senn. Heimilt er að framlengja atvinnuleyfi vegna námsdvalar gegn innritunarvottorði og vottorði um námsframvindu.
25. gr. Hámarksfjöldi vinnustunda.
Miðað skal við að vinnustundafjöldi útlendings sem fengið hefur atvinnuleyfi vegna námsdvalar sé að jafnaði ekki umfram 15 stundir á viku nema þegar um er að ræða vinnu í námsleyfi eða í verknámi.
VI. KAFLI Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.
26. gr.
Heimilt er að veita leyfi til að ráða útlending á aldrinum 18–26 ára í vist á íslenskt heimili.
Atvinnuleyfið er takmarkað við vinnu á heimili vistfjölskyldu.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur milli aðila þar sem fram komi meðal annars gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími, réttur til að stunda nám og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar. Fæði og húsnæði skal vera án endurgjalds og skal hinn vistráðni hafa sérherbergi til afnota. Virkur vinnutími skal ekki vera lengri en 5 tímar á dag eða 30 vinnustundir á viku.
Vistfjölskylda skal tryggja að hinn vistráðni fái nægjanlegan tíma til íslenskunáms og til að geta sinnt menningarlegum og faglegum áhugamálum.
Óheimilt er að veita leyfi til ráðningar sama einstaklings í vist til lengri tíma en eins árs.
Vinnumálastofnun skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Einnig ákveður stofnunin lágmarksfjárhæð vasapeninga fyrir hinn vistráðna og skal það gert fyrir 1. febrúar ár hvert. Skal fjárhæðin auglýst í Lögbirtingablaði.
Vinnumálastofnun er heimilt að fela stofnun eða fyrirtæki alla milligöngu og eftirlit með vistráðningum.
Verði slit á vistráðningu áður en vistráðningartíma samkvæmt samningi aðila er lokið skulu bæði hinn vistráðni og vistfjölskyldan tilkynna það til þess aðila sem hafði milligöngu um ráðninguna og til Útlendingastofnunar.
VII. KAFLI Afturköllun atvinnuleyfis og viðurlög.
27. gr. Afturköllun.
Vinnumálastofnun er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi ef útlendingur eða atvinnurekandi hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki er lengur fullnægt skilyrðum fyrir veitingu atvinnuleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.
Skal Vinnumálastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst og þess gætt að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun um afturköllun er tekin enda liggi ekki fyrir afstaða hans til gagna málsins. Að öðru leyti fer um málsmeðferð stofnunarinnar samkvæmt stjórnsýslulögum.
28. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað viðurlögum skv. 17. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.
29. gr. Heimflutningur.
Um heimflutning vegna brota á reglugerð þessari fer skv. 18. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
VIII. KAFLI Málsmeðferð.
30. gr. Almennar reglur um málsmeðferð.
Stjórnsýslulögin gilda um meðferð mála nema annað leiði af lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
31. gr. Málshraði.
Vinnumálastofnun skal taka ákvörðun um veitingu atvinnuleyfa svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsókn berst stofnuninni.
Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýst um ástæðu tafarinnar og hvenær ákvörðunar er að vænta.
32. gr. Leiðbeiningarskylda.
Í máli er varðar synjun eða afturköllun atvinnuleyfis skal stjórnvald leiðbeina útlendingi um kæruheimild skv. 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga.
33. gr. Kæruheimild.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfis má kæra til félagsmálaráðuneytis, sbr. 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga. Kærufrestur er fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga.
IX. KAFLI Ýmis ákvæði.
34. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 4. gr., 5. gr., 4. mgr. 7. gr., 4. mgr. 12. gr., 8. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að því er varðar þátt sóttvarnalæknis í tengslum við fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði a–c-liðar 3. gr. taka þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands til að starfa hér á landi fyrr en 1. maí 2006, sbr. þó lög nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.
Félagsmálaráðuneytinu, 23. mars 2005.
Árni Magnússon.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.