Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Tökum höndum saman og komum í veg fyrir slys í mannvirkjagerð

8. desember 2025

Tilkynntum vinnuslysum sem verða við mannvirkjagerð hefur fjölgað á síðustu árum. Nokkur fjölgun hefur orðið í greininni en tíðni vinnuslysa er umfram fjölgun starfsfólks. Mikilvægt er að leita allra leiða til að fækka þessum slysum því afleiðingar þeirra geta verið alvarlegar.

Heildarfjöldi slysa í mannvirkjagerð

Tilkynningaskyldum vinnuslysum sem verða við mannvirkjagerð hefur fjölgað á síðustu fjórum árum, eftir að hafa fækkað á árinu 2020 sem má að öllum líkindum rekja til minni umsvifa vegna heimsfaraldurs COVID-19. Slysum hafði fjölgað jafn og þétt til ársins 2019 þegar þau voru samtals 226. Í ársbyrjun 2020 tók Vinnueftirlitið í notkun nýtt rafrænt slysaskráningarkerfi þar sem notuð er ÍSAT flokkun atvinnugreina Hagstofu Íslands (íslensk atvinnugreinaflokkun) en sú flokkun var ekki í eldra kerfi. Tölur á milli kerfa eru því ekki algjörlega sambærilegar, þó að þær séu það að mestu leiti.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 1. Fjöldi vinnuslysa við mannvirkjagerð 2020-2024.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 1. Fjöldi vinnuslysa við mannvirkjagerð 2020-2024.

Tíðni vinnuslysa

Þegar horft er til þróunar tilkynningaskyldra vinnuslysa er mikilvægt að skoða tíðni vinnuslysa, sem er fjöldi slysa fyrir hverja 1.000 sem starfa í tilteknum starfsgreinum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Tíðnin segir oftast meira en beinn fjöldi slysa. Með henni fæst betri samanburður milli misfjölmennra atvinnugreina ásamt því að hún auðveldar samanburð milli ára þar sem fjöldi starfsfólks er breytilegur eins og raunin er í mannvirkjagerð til dæmis.

Á síðustu árum hefur orðið nokkur fjölgun starfsfólks í greininni sem skýrir að ákveðnu leyti fjölgun vinnuslysa. Frá árinu 2022 er tíðni vinnuslysa hins vegar umfram fjölgun starfsfólks, það er slysum fjölgar meira en sem nemur fjölgun starfsfólks í greininni. Slysatíðnin var 10,7 árið 2022 en hækkaði í 13,2 árið 2023. Heldur dró svo úr aukningunni milli áranna 2023 og 2024 þegar tíðnin var 13,7. Þrátt fyrir að tíðni vinnuslysa fari hækkandi er hún þó enn lægri en fyrir heimsfaraldurinn, en árið 2019 var hún 15,1 og hafði þá farið lækkandi ár frá ári á árunum á undan.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins og Hagstofa Íslands
Mynd 2. Tíðni vinnuslysa fyrir hverja 1.000 starfandi í mannvirkjagerð.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins og Hagstofa Íslands
Mynd 2. Tíðni vinnuslysa fyrir hverja 1.000 starfandi í mannvirkjagerð.

Orsakir vinnuslysa

Ef orsakir tilkynntra vinnuslysa í mannvirkjagerð á árunum 2020-2024 eru skoðaðar kemur í ljós að fallslys eru algengust eða nærri 40 prósent tilkynntra slysa í þessari atvinnugrein á umræddu tímabili. Er þar bæði um að ræða fall úr hæð og fall á jafnsléttu. Í mannvirkjagerðinni er fall úr hæð algengasta orsök slysa en undir þetta fellur meðal annars ef starfsfólk fellur úr stiga eða af vinnupalli. Þar sker mannvirkjagerð sig nokkuð úr miðað við aðrar starfsgreinar en í flestum öðrum greinum er fall á jafnsléttu algengasta ástæða vinnuslysa og fall úr hæð sjaldgæfara.

Afleiðingar vinnuslysa þar sem starfsfólk fellur úr hæð eru oft alvarlegar. Má meðal annars rekja orsakir nokkurra banaslysa á síðustu árum til falls úr hæð og þarf hæðin ekki alltaf að vera mikil svo afleiðingarnar verði alvarlegar.

Eins er algengt að starfsfólk missi stjórn á handverkfæri eða einhverri byrði. Sex prósent vinnuslysa má rekja til þess að hlutur falli úr hæð á starfsfólk en mikilvægt er að hafa í huga að ekki þarf alltaf þungan hlut til að valda heilsutjóni ef hlutur fellur úr mikilli hæð. Því er nauðsynlegt að gæta vel að notkun öryggishjálma og tálista á vinnupöllum við mannvirkjagerð.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 3. Helstu orsakir slysa í mannvirkjagerð 2020 – 2024.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 3. Helstu orsakir slysa í mannvirkjagerð 2020 – 2024.

Áverkar eftir vinnuslys

Þó að slysatíðni í mannvirkjagerð sé ekki sérstaklega há miðað við sumar aðrar atvinnugreinar þá eiga afleiðingar slysa í greininni það til að vera alvarlegar. Oft er fjarvera löng eða áverkar eru varanlegir. Sem dæmi eru beinbrot í nærri einu af hverjum fjórum tilkynntum slysum sem verða við mannvirkjagerð. Þar á eftir koma tognun og yfirálag sem tengist gjarnan fallslysum en þessir flokkar áverka eiga við í tæplega helmingi tilvika. Jafnframt hefur rúmlega helmingur banaslysa sem orðið hafa á síðustu fimm árum verið við mannvirkjagerð.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 4. Helstu áverkar vegna slysa í mannvirkjagerð 2020-2024.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 4. Helstu áverkar vegna slysa í mannvirkjagerð 2020-2024.

Kyn, aldur og ríkisfang slasaðra í mannvirkjagerð

Það eru aðallega karlar sem slasast við mannvirkjagerð, en í 97,5% tilvika var slasaði karlmaður, sem skýrist aðallega af kynjasamsetningu starfsfólks í greininni. Á mynd 5 sést aldurs- og kynjadreifing starfsfólks í öllum tilkynntum vinnuslysum í mannvirkjagerð á árunum 2020-2024.

Flestir slasaðra eru á aldrinum 19-24 ára og má mögulega skrifa það að einhverju leiti á reynsluleysi og kannski meiri áhættusækni í yngsta aldurshópnum. Verður þó jafnframt að hafa í huga að yngri aldurshópurinn hlýðir ef til vill frekar fyrirmælum og er mögulega ekki eins líklegur til að koma fram með athugasemdir þegar öryggið er ekki í lagi. Þá gæti skýringin legið í skorti á fræðslu og þjálfun en mikilvægt er að taka vel á móti ungu starfsfólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og fræða það um öryggi og vellíðan í vinnu. Ungt fólk þarf að hafa þekkingu á áhættum í vinnuumhverfinu sem gætu ógnað öryggi þess og vellíðan og þá einnig hvað einkennir góðan vinnustað. Þá er ávallt mikilvægt að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem fólk er óhrætt við að leita stuðnings og leiðsagnar.

Slysum fækkar þegar líður á starfsævina og þá sérstaklega eftir fertugt. Athygli vekur að algengast er að konur á aldrinum 30-34 ára slasist og eins konur á aldrinum 60-64 ára. Þó ber að hafa í huga að hér er um frekar fá slys að ræða og erfitt að lesa of mikið í það. Mannvirkjagerðin virðist eiga það sameiginlegt með flestum öðrum greinum að slysum fjölgar hjá konum á aldrinum 60-64 ára og má líklega rekja það til fallslysa. Þekkt er að konum á þessum aldri er hættara við beinbrotum við fall en þeim sem yngri eru við sambærilegar aðstæður.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins.
Mynd 5. Fjöldi tilkynntra vinnuslysa eftir kyni og aldri í mannvirkjagerð 2020-2024.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins.
Mynd 5. Fjöldi tilkynntra vinnuslysa eftir kyni og aldri í mannvirkjagerð 2020-2024.

Hlutfall starfsfólks af öðru þjóðerni en íslensku sem starfar við mannvirkjagerð er töluvert og hefur farið vaxandi eftir árið 2022 eftir að hafa staðið í stað í heimsfaraldrinum. Var tæplega 40 prósent starfsfólks í mannvirkjagerð af öðru þjóðerni en íslensku á árinu 2024.

Mikilvægt er að skoða þá þróun í samræmi við þróun á þátttöku þeirra almennt á vinnumarkaði og í einstökum atvinnugreinum. Í þeim samanburði eru nýttar tölur frá vef Hagstofu Íslands og úr slysaskrá Vinnueftirlitsins. Sá fyrirvari er þó gerður að þar er ekki með öllu um sambærilegar tölur að ræða en þær þykja þó gefa vísbendingar um hlutfall annars vegar Íslendinga og hins vegar fólks með erlent ríkisfang sem lendir í tilkynntum vinnuslysum miðað við þátttöku þess á vinnumarkaði (fjölda starfandi með innlendan bakgrunn og innflytjenda).

Heimild: Hagstofa Íslands
Mynd 6. Hlutfall starfandi við mannvirkjagerð eftir þjóðerni.

Heimild: Hagstofa Íslands
Mynd 6. Hlutfall starfandi við mannvirkjagerð eftir þjóðerni.

Þegar vinnuslys eru skráð hjá Vinnueftirlitinu er óskað upplýsinga um ríkisfang þess sem lendir í slysinu. Starfsfólk með erlent ríkisfang átti í hlut í nærri helmingi tilkynntra vinnuslysa árið 2024 sem er hærra hlutfall en hlutfall þeirra sem starfa í greininni. Það er ákveðið áhyggjuefni og hvetur Vinnueftirlitið vinnustaði þar sem starfsfólk starfar saman og talar ólík tungumál að gæta sérstaklega að því að öll skilji þær öryggisreglur sem gilda á vinnustaðnum og innleiði heilbrigða vinnutaðamenningu með áherslu á öryggi og vellíðan starfsfólks. Þarf einnig að gæta þess að starfsfólk sem hefur eingöngu starfað erlendis getur verið vant ólíkum aðstæðum og öryggisvenjum en hér gilda.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 7. Hlutfall slysa við mannvirkjagerð eftir þjóðerni.

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 7. Hlutfall slysa við mannvirkjagerð eftir þjóðerni.

Banaslys í mannvirkjagerð

Því miður verða banaslys við vinnu og hefur rúmlega helmingur allra banaslysa á tímabilinu 2020-2024 orðið við mannvirkjagerð og eru þau níu talsins. Fimm hinna látnu voru Íslendingar og fjórir með erlent ríkisfang. Allir voru karlar yfir 30 ára.

Orsakir sjö þessara vinnuslysa voru fall úr hæð og orsakir hinna tveggja má rekja til þess að hlutir falla úr hæð og lenda á starfsmanni.

Í þeim tilvikum þar sem einstaklingur lést við fall úr hæð var oftast um að ræða fall af vinnupalli eða úr stiga (fjögur slys). Undirlag gaf sig í tveimur tilvikum en í einu tilviki var um aðrar ástæður að ræða. Í báðum tilvikum þar sem hlutur féll úr hæð á hinn látna var verið að hífa hluti. Ástand hífibúnaðar var í báðum tilfellum í lagi en ekki var nægjanlega gætt að því hvernig hlutirnir voru hífðir.

Ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys sem þessi eru vel þekktar þannig að mikilvægt er að vinnustaðir gæti vel að forvörnum svo koma megi alfarið í veg fyrir banaslys.

Heimild: Vinnueftirlitið
Mynd 8. Fjöldi banaslysa við mannvirkjagerð eftir þjóðerni og árum.

Heimild: Vinnueftirlitið
Mynd 8. Fjöldi banaslysa við mannvirkjagerð eftir þjóðerni og árum.

Hvernig komum við í veg fyrir slysin?

Byggingavinnustaðir eru yfirleitt síbreytilegir og því er sérstaklega mikilvægt að skoða vel aðstæður á verkstað og meta áður en vinna hefst á hverjum degi. Þess vegna mælir Vinnueftirlitið með að starfsfólk taki fimm áður en vinna hefst og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysin. Einnig er mælt með að halda stutta öryggisfundi á hverjum morgni áður en vinna hefst til að fara yfir aðstæður á verkstað. Sem dæmi má nefna að mikilvægt getur verið að yfirfara handrið daglega, festa stiga tryggilega, afmarka hífingasvæði og tryggja að hífipunktur sé traustur. Mikilvægt er líka að hafa í huga að stigar eru einungis hugsaðir við létta og tímabundna vinnu. Ef vinna þarf lengur en nokkrar mínútur eða með þung verkfæri ætti alltaf að nota hentugan vinnupall.

Það er til mikils að vinna að skoða vel þær ráðstafanir sem þekkar eru svo koma megi í veg fyrir fall við vinnu því þannig mætti fækka slysum í mannvirkjagerð verulega þegar litið er til tíðni slíkra slysa. Þetta eru oft á tíðum ekki flóknar eða kostnaðarsamar ráðstafanir sem grípa þarf til en þær margborga sig, bæði fyrir starfsfólkið sjálft sem og vinnustaðinn.

Ennig þarf að gæta vel að samskiptum á vinnustað og á það sérstaklega við á vinnustöðum þar sem slysahætta er nokkur. Heilbrigð samskipti, skýrar boðleiðir og samvinna á vinnustað auðveldar starfsfólki að vinna úr upplýsingum sem það fær, draga úr óvissu, samræma viðhorf og bæta viðhorf starfsfólk til vinnunnar og vinnustaðarins. Ekki síður er mikilvægt að stuðla að sálfélagslegu öryggi þannig að fólk treysti sér til að koma fram þegar öryggisatriði eru ekki í lagi eða því líður illa á vinnustaðnum. Þegar vinnustaðamenningin einkennist af trausti, virðingu, sanngirni, heiðarleika og þátttöku eykst slíkt öryggi og vellíðan starfsfólks. Sérstaklega þarf að huga að þessum þáttum þegar starfsfólk kemur frá öðrum löndum og talar ekki sama tungumálið. Þá þarf sem dæmi að gæta þess öryggisreglur séu á auðskiljanlegu máli og á því tungumáli sem öll skilja sem eru á vinnustaðnum. Enn fremur þarf að huga vel að því að starfsfólk þekkir ekki alltaf vel þær aðstæður sem eru á verkstað. Þar má nefna erlent starfsfólk sem er óvant að vinna við hálku og snjó eða er vant öðrum vinnuaðferðum.

Hugum vel að öryggi og vellíðan starfsfólks og tryggjum að allir komi heilir heim.