Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Tökum höndum saman og fækkum vinnuslysum hjá ungu fólki

18. desember 2025

Eru ungmenni eða ungt fólk að vinna með þér? Tölur Vinnueftirlitsins yfir tilkynnt vinnuslys sýna að ungu starfsfólki er því miður hættara en eldra við að lenda í óhöppum og vinnuslysum. Tökum höndum saman, verum ungu starfsfólki góðar fyrirmyndir og minnum hvert annað á mikilvægi þess að starfsfólk sé öruggt og að því líði vel í vinnunni.

Hlutfall vinnuslysa á Íslandi er hæst hjá starfsfólki undir 29 ára en fer svo lækkandi með hækkandi aldri. Ungir karlar lenda frekar í vinnuslysum en aðrir hópar. Fjöldi vinnuslysa er einnig töluverður hjá ungmennum, en ungmenni er samheiti yfir einstaklinga undir 18 ára aldri. Þess má geta að börn yngri en 13 ára mega ekki vinna á Íslandi nema með undanþágu frá Vinnueftirlitinu og gildir hún aðeins um ákveðna starfsemi, svo sem tengdri menningu og listum. Tilkynnt vinnuslys í þeim aldurshópi eru sem betur fer afar fátíð.

Eins og sjá má á mynd 1 þá eru tilkynnt vinnuslys að jafnaði í kringum 120 á ári hjá 20 ára og yngri. Þetta er fólkið sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði og því mikilvægt að hlúa vel að því, enda starfsfólk framtíðarinnar.

Fjöldi slysa 20 ára og yngri 2020-2024

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 1. Fjöldi vinnuslysa hjá 20 ára og yngri.

Ef orsakir slysa hjá 20 ára og yngri eru skoðaðar má sjá að 17,4 prósent slysa eru vegna falls á jafnsléttu, en það er algengasta tegund vinnuslysa sem tilkynnt er til Vinnueftirlitsins heilt yfir, eða um 25 prósent. (Sjá nánar um fall við vinnu og forvarnir gegn þeim). Aðrar orsakir vinnuslysa hjá 20 ára og yngri eru meðal annars að missa stjórn á handverkfærum, ósamhæfðar hreyfingar, að missa stjórn á hlut sem haldið er á og fall úr hæð. Þá er vert að benda á að í 5,2 prósent tilvika er um að ræða tilkynningar er varða ofbeldi, árás eða hótun.

Orsakir vinnuslysa 20 ára og yngri 2020-2024

Heimild: Vinnueftirlit ríkisins
Mynd 2.
Orsakir vinnuslysa 20 ára og yngri.

Algengast er að slysin hjá 20 ára og yngri gerist í eftirfarandi atvinnugreinum:

C* - Framleiðsla: 117
O - Opinber stjórnsýsla og varnarmál, almannatryggingar: 95
G - Heild og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum: 94
H - Flutningur og geymsla: 60
Q - Heilbrigðis og félagsþjónusta: 50
F – Mannvirkjagerð: 47
I - Rekstur gististaða og veitingarekstur: 40

*Bókstafirnir standa fyrir tiltekna ISAT bálka Hagstofu Íslands

Þjálfun og fræðsla dregur úr líkum á slysum

Svo koma megi í veg fyrir vinnuslys hjá ungu starfsfólki þarf að gæta þess að ungt fólk á vinnustað, og þá sérstaklega ungmenni, fái viðeigandi þjálfun og fræðslu og að vinnan hæfi alltaf aldri og þroska. Ungt fólk þarf líka að öðlast þekkingu á þeim áhættum sem eru í vinnuumhverfi þess og þekkja hvað einkennir góðan vinnustað þar sem stuðlað er að öryggi og vellíðan starfsfólks.

Mikilvægt er að taka vel á móti nýju starfsfólki og þá sérstaklega ungu fólki. Nauðsynlegt er að vera til staðar fyrir það og finna leiðir til að öllu fólki líði vel í vinnunni og að það sé óhrætt við að leita stuðnings og aðstoðar. Þannig er hægt að byggja upp traust og heilbrigða vinnustaðamenningu sem leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks.

Þá er gott að hafa það í huga að vinnuumhverfið hefur áhrif á starfsfólk frá toppi til táar og því nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina. Frekara fræðsluefni má finna á vefsíðunni hhht.is sem stendur fyrir Hugsum um: höfuð, herðar, hné og tær við vinnu.

Gætum vel að vinnutíma ungmenna

Minnt er á að gæta þarf vel að vinnutíma ungmenna og þá einkum þegar þau eru einnig í skólanum. Gæta þarf sérstaklega að því að ungmenni fái nægilega hvíld því þreyta getur valdið vinnuslysum og öðrum óhöppum. Ungmenni þurfa að geta komið vel upplögð til vinnu og er gott að hafa það í huga að það getur tekið á að vera bæði í námi og vinnu. Af þessum sökum gilda sérstakar vinnutímareglur fyrir ungmenni á skólatíma. Eru atvinnurekendur hvattir til að kynna sér málin nánar á veggspjaldi Vinnueftirlitsins um vinnu barna og unglinga sem er ætlað til upplýsinga fyrir atvinnurekendur sem og ungmennin sjálf og forsjáraðila þeirra. Þar má auk þess sjá hvaða störfum ungmenni mega sinna eftir aldri. Því miður hefur Vinnueftirlitið á undanförnum misserum orðið vart við brot á þessum reglum og eru slík mál litin alvarlegum augum.

Verum góðar fyrirmyndir

Vinnueftirlitið hvetur þau sem eldri eru til að taka vel á móti ungu fólki og þá sérstaklega ungmennum sem eru að feta sig út á vinnumarkaðinn. Verum góðar fyrirmyndir og leggjum okkar af mörkum til að draga úr vinnuslysum hjá ungu starfsfólki.