Ársskýrsla 2021
Vinnuvernd í 40 ár
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á sviði vinnuverndar frá því að stofnunin tók formlega til starfa 1. janúar 1981. Þegar litið er í baksýnisspegilinn sjáum við að áherslur hafa breyst þar sem vinnustaðir hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að vellíðan og heilsu starfsfólks en ekki eingöngu að líkamlegu öryggi þess. Þessi þróun var hæg framan af en á síðastliðnum árum hefur hún tekið hröðum framförum með aukinni þekkingu á áhættuþáttum í vinnuumhverfi tengdum vinnustaðamenningu, streitu, samskiptum og stjórnun ásamt hreyfi- og stoðkerfi.
Reyndi mjög á þessa þætti á vinnustöðum landsins á árinu þegar áhrifa heimsfaraldurs hélt áfram að gæta. Verkefnin voru ærin og margt starfsfólk að mæta stórum áskorunum í störfum sínum á þessum tíma. Reyndi því mjög á þrautseigju og seiglu vinnandi fólks. Góð félagsleg tengsl eru lykillinn að vellíðan okkar í leik og starfi og því mikilvægt að hlúa vel að þeim á tímum sem þessum. Mikilvægt er að huga vel að áhrifum vinnustaðamenningar á líðan fólks og þá ekki síst samskiptanna, bæði milli samstarfsfólks og milli starfsfólks og þeirra sem njóta þjónustunnar. Hver vinnustaður þarf að finna sína leið en markmiðið er ávallt að stuðla að sálfélaglegu öryggi meðal starfsfólks svo tryggja megi vellíðan og góða heilsu.
Vinnueftirlitið fylgdist vel með þeim áskorunum sem vinnustaðir landsins stóðu frammi fyrir og tileinkaði alþjóðlegum degi vinnuverndar 28. apríl fjarvinnu. Leiðbeiningar í tengslum við fjarvinnu urðu aðgengilegar á vefsíðu stofnunarinnar og haldin var morgunfundur um efnið. Einnig var lögð sérstök áhersla á sálfélagslega áhættuþætti í störfum stofnunarinnar og var meðal annars sérstöku tveggja ára verkefni tileinkað samskiptum á vinnustöðum ýtt úr vör í upphafi ársins.
Afmælisárinu var fagnað með opnun nýrrar vefsíðu og samhliða var ný ásýnd kynnt. Stofnunin setti sér upplýsingastefnu sem endurspeglar sýn hennar og rödd sem er mannleg og hvetjandi um leið og hún er skýr og fræðandi. Jafnframt setti stofnunin sér þjónustustefnu þar sem stofnunin einsetti sér að veita framúrskarandi þjónustu til að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu. Vegleg afmælisráðstefna var haldin undir lok árs í skugga heimsfaraldurs. Góðir fyrirlesarar leiddu okkur fyrir sjónir mikilvægi forvarna á ólíkum sviðum vinnuverndar og forystufólk hjá samtökum aðila vinnumarkaðarins deildu framtíðarsýn sinni á vinnuvernd í pallborði. Þá voru haldnar fjórar vinnustofur í tengslum við afmælisráðstefnuna. Ein fjallaði um félagslega vinnuumhverfið og menningu vinnustaða, önnur um forvarnir gegn stoðkerfisvanda, þriðja um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð og fjórða áhrif rakaskemmda og innilofts á vinnustöðum.
Vinnueftirlitið hlakkar til að vera vinnustöðum landsins innan handar við að innleiða og viðhalda öflugu vinnuverndarstarfi sem byggist á samvinnu með það að leiðarljósi að öll komi heil heim starfsævina á enda.
Kær kveðja,
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir,
forstjóri
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu.
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi.
Gildi vinnueftirlitsins
Frumkvæði
Felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.
Forvarnir
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.
Fagmennska
Felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins. Sömuleiðis fyrirtækjaeftirlit þar sem haft er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og gefin fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf.
Vinnueftirlitið hefur einnig það hlutverk að halda skrá um vinnuslys sem atvinnurekendum ber að tilkynna til stofnunarinnar. Tilgangurinn er að afla þekkingar um tíðni og orsakir vinnuslysa svo efla megi forvarnarstarf á vinnustöðum og koma í veg fyrir að slys endurtaki sig á sama eða sambærilegum vinnustöðum.
Áhrifa COVID-19 hélt áfram að gæta í vinnuvéla- og fyrirtækjaeftirliti á árinu þar sem áfram voru takmarkanir í samfélaginu, settar af sóttvarnaryfirvöldum sem hömluðu að nokkru leyti eftirlitsskoðunum.
Vinnuvélaeftirlit
18.002 vinnuvélar og tæki voru skoðuð á árinu eða 67.6% af skráðum vinnuvélum og tækjum til skoðunar. Skoðunum fjölgaði um 1.700 eða 10,2 % á milli áranna 2020 og 2021 þrátt fyrir styttingu vinnuvikunnar um samtals 170 klukkustundir. Helstu ástæður eru Véla-app sem fór í loftið í október 2020 og markviss vinna starfsfólks um að ná betri árangri.
29345 vélar og tæki á skrá í lok árs
26543 vélar og tæki til skoðunar
4271 verkleg próf framkvæmd sem er 51,5% aukning frá 2020
82.4 % hlutfall lyfta skoðaðar
1297 nýskráningar tækja og fært af forskrá frá fyrra ári
1413 vinnuvélar og tæki afskráð
Fyrirtækjaeftirlit
Við heimsóttum 700 vinnustaði á árinu.
Vinnuslys
Tilkynntum vinnuslysum til Vinnueftirlitsins fjölgaði ár frá ári á tímabilinu 2009 til 2019 samhliða því að þátttakendum á innlendum vinnumarkaði fjölgaði. Árið 2020 fækkaði tilkynntum vinnuslysum og líklegt er að óvenjulegar aðstæður á innlendum vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 hafi skýrt hluta hennar. Tilkynntum vinnuslysum fjölgaði heldur 2021 en eru þó færri en árið 2019. Enn gætti áhrifa frá heimsfaraldri en heldur fleiri voru starfandi árið 2021 en árið 2020.
3 Banaslys við vinnu
1880 Fjöldi tilkynntra vinnuslysa: þar af 1185 karlmenn og 695 konur
133 Slys í opinberri þjónustu
433 Slys í opinberri stjórnsýslu
123 Slys í mannvirkjagerð
141 Slys í flutningastarfsemi
Fjöldi á vinnumarkaði og vinnuslys
Ár | Fjöldi á vinnumarkaði* | Fjöldi skráðra vinnuslysa | Tíðni vinnuslysa af fjölda starfandi (%) |
---|---|---|---|
2016 | 188.455 | 2117 | 1,12 |
2017 | 197.081 | 2137 | 1,08 |
2018 | 202.942 | 2204 | 1,09 |
2019 | 201.326 | 2234 | 1,11 |
2020 | 191.486 | 1810 | 0,95 |
2021 | 195.029 | 1880 | 0,96 |
*Gögn frá Hagstofu Íslands
Áhugavert er að hlutfall tilkynntra vinnuslysa af fjölda starfandi lækkar árið 2020 og er nokkuð óbreytt árið 2021.
Fjöldi vinnuslysa eftir kyni
Ár | Fjöldi skráðra vinnuslysa | Konur | Konur % | Karlar | Karlar % |
---|---|---|---|---|---|
2016 | 2117 | 752 | 35,5 | 1365 | 64,5 |
2017 | 2137 | 742 | 34,7 | 1395 | 65,3 |
2018 | 2204 | 765 | 34,7 | 1439 | 65,3 |
2019 | 2234 | 854 | 38,2 | 1380 | 61,8 |
2020 | 1810 | 665 | 36,7 | 1145 | 63,3 |
2021 | 1880 | 695 | 37,3 | 1185 | 62,7 |
Ef fjöldi vinnuslysa er skoðaður eftir kyni má sjá að fleiri karlar slasast en konur, en karlar eru nær 2/3 hluti slasaðra. Það skýrist að mestu leyti af eðli starfa en fleiri karlar en konur sinna störfum sem teljast hættumeiri þegar litið er til líkamlegs öryggis. Hlutfall kvenna af slösuðum virðist hækka 2019 og helst hærra á árunum 2020 og 2021 miðað við það sem var fyrir árið 2019. Munurinn er hins vegar lítill og óvarlegt að draga miklar ályktanir af því.
Fjöldi vinnuslysa hjá körlum eftir aldri árið 2021
Fjöldi vinnuslysa hjá konum eftir aldri árið 2021
Flestir sem slasast eru ungir karlar en slysum karla fækkar eftir því sem þeir eldast og er þetta í samræmi við tölur undanfarinna ára. Hins vegar virðist slysum í yngsta aldurshópi karla fara fækkandi, sem mögulega má rekja til minni atvinnuþáttöku í þessum aldurshópi. Ef konur eru skoðaðar þá skiptir aldur minna máli þegar kemur að slysum en hjá þeim eykst fjöldi slysa með aldri eftir að lágmarki er náð um miðja starfsævina. Af einhverjum ástæðum skera árin 2018 og 2019 sig nokkuð úr þegar kemur að fjölda slysa meðal yngstu kvennanna.
Fjöldi vinnuslysa eftir atvinnugreinum
Í byrjun árs 2020 var tekið í notkun nýtt rafrænt slysaskráningakerfi Vinnueftirlitsins. Í nýju kerfi eru starfsgreinar flokkaðar eftir svokallaðri ÍSAT flokkun sem gerir meðal annars samanburð við gögn frá Hagstofu um fjölda starfandi eftir atvinnugreinum auðveldari.
2020 | 2021 | |
---|---|---|
Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar | 70 | 59 |
Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu | 15 | 23 |
Framleiðsla | 410 | 468 |
Rafmagns-, gas- og hitaveitur | 40 | 41 |
Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð | 123 | 123 |
Heild og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum | 141 | 163 |
Flutningur og geymsla | 181 | 141 |
Rekstur gististaða og veitingarekstur | 35 | 52 |
Upplýsingar og fjarskipti | 11 | 7 |
Fjármála og vátryggingastarfsemi | 15 | 19 |
Fasteignaviðskipti | 7 | 6 |
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi | 28 | 20 |
Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta | 78 | 76 |
Opinber stjórnsýsla, varnarmál og almannatryggingar | 404 | 433 |
Fræðslustarfsemi | 60 | 61 |
Heilbrigðis- og félagsþjónusta | 151 | 133 |
Menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi | 13 | 18 |
Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi | 23 | 20 |
Atvinnurekstur innan heimilis, þjónustustarfs, vöruframleiðsla | 0 | 0 |
Starfsemi stofnana og samtaka með úrlendisrétt | 0 | 0 |
Óþekkt starfsemi | 5 | 13 |
Fjöldi tilkynntra slysa er mestur í framleiðslu, en hér undir er matvælaframleiðsla, fiskvinnsla og stóriðja. Næst kemur opinber stjórnsýsla en undir hana fellur meðal annars löggæsla. Í báðum þessum flokkum fjölgar tilkynntum slysum.
Tíðni slysa miðað við hverja 1000 starfandi í atvinnugreinum
Þegar þróun vinnuslysa er skoðuð er gott að skoða hlutfall slysa í atvinnugreinum á móti fjölda starfandi í greininni.
Vinnuslysum fækkar heldur hlutfallslega í flestum atvinnugreinum, nema framleiðslu og rafmagns-, gas- og hitaveitum. Þess ber þó að gæta að tiltölulega fáir eru starfandi hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum og því er greinin næmari fyrir sveiflum en fjölmennari atvinnugreinar.
Regluleg námskeið Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2021 sátu samtals 2.098 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu.
Samtals sátu 494 nemendur vinnuverndarnámskeið, þar af 315 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 179 önnur vinnuverndarnámskeið.
Samtals sátu 1.317 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Þar af 957 frumnámskeið á íslensku, 182 frumnámskeið á ensku og 136 frumnámskeið á pólsku og 42 byggingakrananámskeið.
Samtals sátu 202 ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti.
64 sátu námskeið um meðhöndlun á asbesti á íslensku og 21 námskeið um meðhöndlun á asbesti á ensku.
Ýmis verkefni
Símtöl:
Það hringdu 14.270 í okkur og við svöruðum 96,1 % hringingum sem vörðu lengur en í 5 sekúndur.
Tölvubréf:
Við fengum 7.300 tölvubréf á aðalnetfangið okkar vinnueftirlit@ver.is.
Komur:
Það komu að meðaltali 5 viðskiptavinir á starfsstöðvar okkar á dag.
Netspjall:
Við svöruðum rúmlega 500 netspjöllum
Útgáfa skírteina:
Við gáfum út 2.398 vinnuvélaskírteini. Endurútgefin skírteini voru 625. Ný og endurútgefin ADR skírteini voru 173.
Skjalavarsla:
2.715 mál voru skráð í GoPro skjalakerfið okkar. Það af voru 95 mál vegna markaðseftirlits, sem er sambærilegur fjöldi og árið áður.
Umsagnir vegna veitingaleyfa:
Við fengum 503 beiðnir um umsagnir vegna veitingaleyfa, sem er 27% fækkun frá 2020.
Mannauður
72 störfuðu hjá Vinnueftirlitinu í lok árs 2021, 44 karlar og 28 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar. Fjöldi stöðugilda (ársverk) voru hins vegar 65,35 á árinu.
Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land. Árið 2021 var 71% starfsfólks starfandi í Reykjavík en 29% á öðrum starfsstöðvum.
Janúar
Beiðni um vinnuvélaskoðun á vefnum
Vinnueftirlitið hélt áfram að taka skref í átt að aukinni stafvæðingu. Liður í því var að gera eigendum og umráðamönnum vinnuvéla og tækja kleift að óska eftir vinnuvélaskoðun á vefnum.
Ný þjónustustefna
Vinnueftirlitið setti fram þjónustustefnu í upphafi árs og í kjölfarið voru gerð þjónustuviðmið. Stefnan er að veita framúrskarandi þjónustu til að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu.
Innleiðing á fyrirtækjaappi
Fyrirtækja-app Vinnueftirlitsins var tekið í notkun í janúar en tilgangurinn með hönnun þess og innleiðingu er að auðvelda starfsfólki vinnu sína.
Stytting vinnuvikunnar innleidd
Vinnueftirlitið stytti vinnutíma starfsfólks um fjóra tíma á viku í samráði við starfsfólkið.
Febrúar
Líðan starfsfólks og leiðir til velsældar
Vinnueftirlitið, VIRK og Embætti landlæknis héldu morgunfund undir yfirskriftinni líðan starfsfólks og leiðir til velsældar 25. febrúar en hann var sá sjöundi í fundarröð stofnannna þriggja um heilsueflingu á vinnustöðum.
Mars
Bæklingurinn Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi uppfærður
Uppfærð útgáfa af leiðbeiningarbæklingnum „Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi“ var gerð aðgengileg á vefsíðu Vinnueftirlitsins. Bæklingurinn er hugsaður fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa, vinnuverndarfulltrúa og aðra sem vilja kynna sér efnið. Honum er einkum ætlað að leiðbeina og styðja stjórnendur í að fyrirbyggja hvers kyns óviðeigandi hegðun á vinnustað en auk þess eru gefnar leiðbeiningar um hvernig skuli bregðast við eigi hún sér stað.
Afrit af slysatilkynningum í pósthólf á Ísland.is
Atvinnurekanda er skylt að tilkynna vinnuslys til Vinnueftirlitsins. Sú nýjung var innleidd í mars að hinn slasaði mun framvegis fá afrit af slysatilkynningu er varðar hann inn á pósthólf sitt á Ísland.is. Tilgangurinn er að hinn slasaði sé upplýstur um að slysið hafi verið skráð í Slysaskrá Vinnueftirlitsins.Jafnframt getur hinn slasaði nú fengið afrit af eldri slysatilkynningum er hann varðar í pósthólf sitt á Ísland.is. Hægt er að óska eftir því í gegnum netfangið vinnueftirlit@ver.is.
Mannauðsstjóri ráðinn til starfa
Mannauðsstjóri tók til starfa og nýtt svið fólks og upplýsinga stofnað til að endurspegla áherslur í mannauðsmálum. Áður hafði stofnuninn haft utanaðkomandi mannauðsstjóra til leigu.
Könnun um innra starfsumhverfi
Könnun um líðan starfsfólks var endurtekin frá árinu 2019 en tilgangurinn er að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks Vinnueftirlitsins.
Apríl
Er fjarvinna framtíðin?
Vinnueftirlitið efndi til morgunfundar undir yfirskriftinni „Er fjarvinna framtíðin?“ í tilefni af alþjóðlega vinnuverndardeginum 28. apríl. Samhliða voru ítarlegar leiðbeiningar um fjarvinnu gerðar aðgengilegar á vefnum.
Upplýsingastefna
Vinnueftirlitið setti fram upplýsingastefnu í apríl. Stefnan er að miðla traustum, skýrum og áreiðanlegum upplýsingum um málefni sem undir stofnunina heyra í því skyni að greiða fyrir þekkingaröflun og stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi.
Maí – Ágúst
Eftirlitsskýrslur sendar rafrænt
Vinnueftirlitið hóf að senda eftirlitsskýrslur rafrænt. Það er liður í þeirri vegferð stofnunarinnar að nýta upplýsingatæknina til að bjóða upp á markvissa og skilvirka þjónustu. Rafrænar sendingar leiða til betri rekjanleika og eru umhverfisvænar þar sem þær draga úr pappírsnotkun.
Átak í uppfærslu í skráningu vinnuvéla framhaldið
Átaki til að finna vinnuvélar sem höfðu ekki verið skoðaðar lengi og grunur lék á að væru ekki lengur í notkun var ýtt úr vör vorið 2020. Því var síðan framhaldið með sérstöku sex mánaða átaksverkefni á árinu 2021. Árangur þessa átaks var að samtals voru 3.510 vélar og tæki afskráð, þar af 2.097 á árinu 2020 og 1.413 á árinu 2021.
Átaksverkefni í skjalavörslu
Vinnueftirlitið tók þátt í sumarátaki fyrir námsfólk þar sem gengið var frá elstu skjölum stofnunarinnar og þau afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varanlegrar varðveislu. Um er að ræða skjöl sem eru þrjátíu ára og eldri, en öllum ríkisstofnunum ber að varðveita afhendingarskyld skjöl og afhenda þau síðan Þjóðskjalasafni þegar þau hafa náð þrjátíu ára aldri.
September
Ný ásýnd og vefsíða
Í tilefni af fertugasta afmælisári Vinnueftirlitsins var ný ásýnd stofnunarinnar kynnt og ný vefsíða opnuð. Markmið vinnunnar var að færa ásýndina að nútímanum en um leið að halda í kjarna starfseminnar sem er að öll komi heil heim úr vinnu. Samkvæmt nýrri mörkun er lögð áhersla á að stofnunin sé mannleg, hvetjandi, skýr og fræðandi í allri upplýsingagjöf.
Kynning á viðmiðum fyrir heilsueflandi vinnustað
Viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði voru kynnt og nýtt vefsvæði opnað. Vinnueftirlitið, VIRK starfsendurhæfingarsjóður og Embætti landlæknis unnu viðmiðin í sameiningu en þeim er ætlað að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi.
Október
Ný mannauðsstefna
Hjá Vinnueftirlitinu starfar metnaðarfullur og samheldinn hópur sem leggur áherslu á starfsgleði og skilvirkni til að ná markmiði stofnunarinnar um að öll komi heil heim úr vinnu.
Ný fjarvinnu- og viðverustefna
Markmið Vinnueftirlitsins er að vera eftirsóttur vinnustaður sem er til fyrirmyndar og vill koma til móts við starfsfólk sem kýs sjálft að vinna að hluta fjarri vinnustað.
Nóvember
Götuskráning vinnuvéla
Götuskráning vinnuvéla hófst 1. nóvember 2021. Vinnuvélar sem ætlaðar eru til aksturs í umferð, það er að segja á opinberum vegum þarf í samræmi við ný umferðalög að skrá í ökutækjaskrá. Eins þarf að setja á þær skráningarmerki til auðkenningar. Ökutækjaskrá er í umsjón Samgöngustofu en til hagræðingar fyrir eigendur vinnuvéla annast Vinnueftirlitið allar skráningar og eigendaskipti á þeim. Sótt er um skráningu vinnuvéla til aksturs í umferð á Mínum síðum Vinnueftirlitsins.
Fjölsótt afmælisráðstefna í streymi
Um tvö hundruð manns fylgdust með beinu streymi frá afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem haldin var föstudaginn 19. nóvember í tilefni þess að stofnunin fagnaði 40 ára afmæli á árinu. Í mörgum erindanna var áberandi umfjöllun um mikilvægi sjálfbærni í vinnuvernd sem meðal annars felur í sér að hanna og skipuleggja vinnustaði þannig að þeir henti starfsfólki, byggi það upp og stuðli að vellíðan þess út starfsævina.
Málstofa um félaglegt vinnuumhverfi
Vinnueftirlitið sendi út beint streymi frá málstofu um félagslegt vinnuumhverfi 25. nóvember. Upphaflega var um að ræða vinnustofu sem halda átti í tengslum við afmælisráðstefnuna Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram í streymi þann 19. nóvember, en vegna hertra samkomutakmarkana þurfti að fella vinnustofuna niður og breyta í málstofu í streymi. Nánari upplýsingar um afmælisráðstefnu.
Mannauðshugsandi vinnustaður 2021
Vinnueftirlitið uppfyllti skilyrði að vera á meðal leiðandi íslenskra vinnustaða sem uppfylla ströng skilyrði HR Monitor til að verða útnefndur Mannauðshugsandi vinnustaður árið 2021. Skilyrði er meðal annars að hafa á tólf mánaða tímabili keyrt mannauðsmælingar meðal alls starfsfólks vinnustaðarins í hverjum ársfjórðungi eða frá fjórum til tólf sinnum á líðandi ári. Enn fremur að upplýsa starfsfólkið um niðurstöður mannauðsmælinga og árangur vinnustaðarins. Heildarárangur Vinnueftirlitsins í HR monitor hækkaði um 10,2 % á milli áranna 2020 og 2021.
Desember
Málstofa um forvarnir gegn stoðkerfisvanda
Vinnueftirlitið sendi út beint streymi frá málstofu um forvarnir gegn stoðkerfisvanda á vinnustöðum 2. desember. Upphaflega var um að ræða vinnustofu sem halda átti í tengslum við afmælisráðstefnuna Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram í streymi þann 19. nóvember, en vegna hertra samkomutakmarkana þurfti að fella vinnustofuna niður og breyta í málstofu í streymi. Nánari upplýsingar um málstofu um forvarnir gegn stoðkerfisvanda.
Aukin áhersla á forvarnir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
Vinnueftirlitið gekk undir lok árs frá ráðningu verkefnastjóra sem ætlað er að efla fræðslu um félagslegt vinnuumhverfi og leiða þróun á nýju fræðsluefni með áherslu á forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Verkefnið er liður í því að fylgja eftir tillögum aðgerðarhóps félags- og barnamálaráðherra í kjölfar #MeToo-hreyfingarinnar sem hófst árið 2017.
Annað
Mannauðsmælingar
Reglulegar mannauðsmælingar eru gerðar um líðan starfsfólks. Þá hlaut stofnunin viðurkenningu HR Monitor sem mannauðshugsandi vinnustaður 2021