Fara beint í efnið

Fréttatilkynning vegna nýrra laga um skipta búsetu barns

18. maí 2021

Um næstu áramót munu taka gildi breytingar á barnalögum sem samþykktar voru á Alþingi þann 15. apríl 2021.

LE - Baby - S3

Um næstu áramót munu taka gildi breytingar á barnalögum sem samþykktar voru á Alþingi
þann 15. apríl 2021
. Helstu nýmæli og breytingar á barnalögum eru eftirfarandi:

  • Ný heimild til að semja um skipta búsetu barns.

  • Kveðið er á um með skýrari hætti til hvaða sjónarmiða skuli líta við gerð samninga foreldra um forsjá, búsetu og umgengni.

  • Nýtt ákvæði er sett um að barn geti haft frumkvæði að því að sýslumaður boði foreldra til viðtals.

  • Skýrari ákvæði koma fram um rétt barns til að tjá sig.

  • Breyting er gerð á ákvæðum um framfærslu og meðlag með áherslu á aukið samningsfrelsi foreldra.

Samkvæmt lögunum verður barn ekki skráð með tvö lögheimili þegar samið er um skipta búsetu. Barn verður með lögheimili hjá öðru foreldri sínu en búsetuheimili hjá hinu.

Markmið með nýjum ákvæðum sem heimila skipta búsetu barns er að stuðla að jafnari stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Fyrirkomulagið gerir ráð fyrir að foreldrar geti unnið saman í málum er varða barnið. Samningur um skipta búsetu barns gerir því ríkar kröfur til foreldra um samstarf og samvinnu. Þá er gerð krafa um nálægð heimila til að tryggja samfellu í daglegu lífi barns. Í lögunum er ekki gerð krafa um að búseta barns verði að vera nákvæmlega jöfn á báðum heimilum til að foreldrar geti samið um skipta búsetu.