Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) starfrækir stuðnings- og ráðgjafarteymi, Landsteymi, sem hefur það hlutverk að styðja við börn, foreldra og starfsfólk á öllum skólastigum sem hafa þörf fyrir aukinn stuðning í skólaumhverfinu. Börn, foreldrar og starfsfólk sem starfar að farsæld barna geta þannig á einum stað fengið stuðning og ráðgjöf um úrræði, leiðir og lausnir þvert á kerfi.
Lögð er áhersla á að veita ráðgjöf og virkja þjónustu í nærumhverfi barns í samvinnu við viðeigandi þjónustuveitendur.
Þegar sótt er um ráðgjöf hjá Landsteymi er gert ráð fyrir að þegar hafi verið virkjuð þau úrræði og lausnir sem þegar eru til staðar, svo sem lausnateymi, nemendaverndarráð, samþætting þjónustu í þágu farsældar barns og skólaþjónusta sveitarfélagsins.
Landsteymið leggur áherslu á að setja barnið í miðjuna, hugsa í lausnum og leita leiða til að tryggja öllum börnum farsæla skólagöngu.
Teymið starfar á grundvelli laga nr. 91/2023 um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu en farsældarlögin eru jafnframt í lykilhlutverki. Teymið starfar einnig á grunni laga um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Lögð er áhersla á einföld og skilvirk samskipti við skólasamfélagið og skýrt verklag er varðar móttöku og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga í samræmi við heimildir í persónuverndarlögum nr. 90/2018 og lögum um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu nr. 91/2023.
Landsteymið byggir á grunni farsældarlaga og þeirri sýn að kerfin eigi að sameinast um að barn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni. Í samstarfi við Barna- og fjölskyldustofu er hvatt til og veittur stuðningur til þess að mál barns sé unnið á grundvelli þeirra laga og þjónusta sé samþætt þvert á kerfi.
Teymið starfar samkvæmt barnvænum, áfallamiðuðum og skynvænum áherslum þar sem réttindi og rödd barna er í forgrunni. Lögð er áhersla á gagnreyndar aðferðir og þverfaglega þekkingu.
Mál berst til teymis og ráðgjafi er tengdur við málið.
Ráðgjafi aflar upplýsinga um það sem hefur verið gert, kortleggur áherslur og næstu skref.
Út frá kortlagningu er tekin ákvörðun um hvort mál fari í vinnslu hjá Landsteymi. Ef ekki eru veittar leiðbeiningar um hvert annað sé hægt að leita.
Við vinnslu máls er ráðgjöf veitt jafnt og þétt. Miða skal við að Landsteymi stígi til hliðar þegar mál eru komin í farveg og frekari vinnsla verði t.d. í höndum málstjóra eða tengiliðar farsældar.