Heillaspor
Efnisyfirlit
Heillaspor (e. Nurture) er heildræn nálgun sem styður við velferð, öryggi og virka þátttöku barna í inngildandi skóla- og frístundastarfi. Með tengslamiðuðum leiðum er skapað öruggt umhverfi þar sem börn fá tækifæri til að þroskast og ná árangri í námi.
Hafa samband: heillaspor@midstodmenntunar.is
Hvað er Heillaspor?
Heillaspor (e.Nurture) er heildræn nálgun til að styðja við farsæla þátttöku barna í inngildandi skóla- og frístundastarfi. Umgjörð Heillaspora byggir á leiðum til að skapa tengslamiðað og öruggt skólasamfélag þar sem börn njóta velferðar, taka virkan þátt, þroska sína innri hæfileika og styrkja stöðu sína í námi. Þegar börn upplifa öryggi og tengsl í skólanum verða þau líklegri til að tjá sig og segja frá því sem þau raunverulega þurfa á að halda, sérstaklega þau sem búa við félagslegar eða efnahagslegar áskoranir.
Leiðandi vörður Heillaspora eru styðjandi vegvísar að samþættum vinnubrögðum. Þær hvetja starfsfólk til að ígrunda eigin starfshætti, umhverfi, samskipti og viðhorf á dýptina. Vörðurnar leiða starfsfólk áfram í átt að dýpri þekkingu og skilningi á eigin viðbrögðum og á fjölbreyttum þörfum bæði barna og samstarfsfólks. Með sameiginlegri sýn á mikilvægu hlutverki og ábyrgð starfsfólks í að skapa fyrirsjáanleg og nærandi tengsl er stuðlað að þróun félags- og tilfinningaþroska barna.
Í gegnum markvissa innleiðingarvinnu er stutt við áræðni starfsfólks til að leita nýrra leiða svo betur sé hægt að mæta þörfum barna og tryggja þeim tilfinningalegt öryggi. Markmið Heillaspora er að:
Byggja upp heildstæða, inngildandi og styðjandi menningu í skóla- og frístundastarfi.
Efla tengsl og öryggi í skóla- og frístundastarfi.
Styðja við faglegt samtal, ígrundun og vellíðan starfsfólks.
Skapa rými fyrir rödd barna og efla virka þátttöku þeirra í skóla- og frístundastarfi.
Styðja við sjálfsmynd, tilfinningalegt jafnvægi og farsæld barna leik og starfi.
Fyrir hvað standa vörður Heillaspora?
Vörður Heillaspora eru leiðarvísar sem mynda fræðilegan og verklegan grunn. Þær tengja saman þekkingu úr tengsla-, þroska- og áfallafræðum og styðja starfsfólk í að skapa tengslaríkt, öruggt og inngildandi skóla- og frístundastarf. Leiðandi vörður Heillaspora veita sameiginlegt tungumál til að ræða um líðan, hegðun og nám, og beina sjónum að því hvernig við getum byggt upp umhverfi sem nærir skólasamfélagið.

Hvers vegna Heillaspor?
Heillaspor styður skóla- og frístundastarf í að móta umhverfið, samskipti, menningu og brag, út frá forsendum og þörfum barna í samræmi við stigskipta farsældarþjónustu.
Börn sem fara á mis við það að upplifa jákvæð tengsl og er ekki mætt af skilningi í sínu nærumhverfi, upplifa sig misskilin og finna daglega fyrir auknum streituviðbrögðum (Perry, 2017). Rannsóknir sýna að mikil streita virkjar viðbragðskerfið í heilanum sem kallar fram ósjálfráð varnarviðbrögð sem birtast í ákveðnum hegðunarmynstrum t.d. að draga sig í hlé, forðast aðstæður og/eða sýna ógnandi tilburði (Bomber, 2007). Einnig benda niðurstöður úr Íslensku æskulýðsrannsókninni (2023) og nýjustu skýrslum OECD (2024) til þess að börn í viðkvæmri stöðu t.d. börn sem eru með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, börn sem upplifi heimilisofbeldi og börn úr tekjulægri fjölskyldum, upplifi minni tengsl og öryggi í skólanum. Rannsóknir sýna að nálgun Heillaspora dregur úr streitu í umhverfinu með því að setja áherslu á styðjandi tengsl, öryggi og upplifun um að tilheyra. Heillaspor er brú milli fræða, stefnumörkunar, lagasetningar og starfshátta í skóla- og frístundastarfi.
Einnig hafa rannsóknir og greiningar stjórnvalda og fræðafólks m.a. Evrópumiðstöðvarinnar (2017), Hrundar Logadóttur (2021), Sigþórssonar & Svanbjörnsdóttur o.fl. (2022) og Þorsteinssonar & Kristjánssonar (2024) varpað ljósi á að þrátt fyrir mikinn vilja, þekkingu og fagmennsku innan skóla og skólaþjónustu um skóla án aðgreiningar, standi kerfin frammi fyrir áskorunum sem kalla á nýjar leiðir og skýrari verkferla. Það er þess vegna mikil þörf á skipulögðu og markvissu verklagi sem styður við mótun á inngildandi menningu þar sem börnum er mætt óháð atgervi og samfélagslegum bakgrunni.