Styrkir til skólaþróunar
Efnisyfirlit
Mennta- og barnamálaráðuneytið veitti styrki til nýsköpunar og skólaþróunarverkefna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi um allt land. Styrkirnir styðja við markmið menntastefnu til 2030 og miða að því að efla skólastarf með fjölbreyttum og skapandi verkefnum sem byggja á samstarfi fagfólks, nemenda og skólasamfélagsins.
Lögð er áhersla á verkefni sem:
fela í sér nýja nálgun í námi og kennslu,
stuðla að jöfnum tækifærum nemenda,
miðla niðurstöðum á landsvísu án endurgjalds,
byggja á skýrum verk- og tímaáætlunum með gagnsærri fjárhagsáætlun.
Sérstakt vægi var lagt á samstarf skóla, fjölbreyttan menningarbakgrunn nemenda og faglegt mótframlag. Verkefnin sem hlutu styrk endurspegla framtíðarsýn menntastefnunnar – þar sem nýsköpun, samvinna og jafnrétti eru í forgrunni.
Verkefni á leikskólastigi
Leikskólaverkefnið er samstarf leik- og tónlistarskóla að þróun kennsluhátta þar sem sönglög sótt í tónlistararf okkar nýtast til að efla tónlistarþátttöku fimm ára barna í gegnum söng og hljóðfæraleik. Tónlist og söngur sameinar börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, eykur samkennd, örvar máltöku og eykur orðaforða en verkefninu er jafnframt ætlað að auka sjálfstraust barnanna og þjálfa þau í að koma fram og miðla á skapandi hátt. Börnin taka virkan þátt í nærsamfélagi með framkomu á bókasöfnum og dvalarheimilum og setja í lokin upp sýningu í menningarhúsi. Útbúnir verða verkferlar sem geta nýst leik- og tónlistarskólum um allt land.
Stilla - hæglátt leikskólastarf. Verkefnið sem er til þriggja ára snýst um að þróa hæglæti í leikskólastarfi. Það byggir á samstarfi fjögurra leikskóla í samvinnu við Kennaradeild HA, Menntavísindasvið HÍ og tvo rannsakendur við Sud-øst háskólann í Noregi. Hver leikskóli valdi sér verkþátt til að þróa og ræða og ígrunda í gegnum starfendarannsóknir og uppeldisfræðilegar skráningar. Stefnt er að ráðstefnu um verkefnið í maí 2026 og samhliða opna vefsíðu fyrir verkefnið sem er ætluð fyrir leikskóla sem vilja feta í sömu spor. Jafnframt verður verkefnið kynnt á innlendum og erlendum ráðstefnum.
Verkefnið snýr að gerð YAP fræðsluefnis fyrir leikskóla sem byggir á snemmtækri íhlutun í hreyfifærni en YAP (Young Athlete Project) er alþjóðlegt verkefni sem hefur það markmið að stuðla að aukinni hreyfiþjálfun ungra barna. Sérstakur markhópur YAP er börn með sérþarfir en efnið hentar þó öllum börnum. Gerður verður fræðslubæklingur á íslensku, myndbönd um átta meginþætti YAP og markmið þess og myndband um YAP prófið. Þá verður einnig búið til myndrænt efni fyrir leikskólakennara.
Heimasíða YAP á síðu Special Olympics International
Verkefni á grunnskólastigi
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur að því að þýða og stílfæra efni um Nurture School af ensku yfir á íslensku fyrir grunnskóla. Verkefninu er ætlað að þjálfa starfsfólk og kennara í að þekkja betur taugafræðilega hegðun barna og hvaða aðferðum er hægt að beita til að draga úr vanlíðan og óæskilegri hegðun. Verkefnið er prófað í Stapaskóla og er öllu starfsfólki boðið á námskeið sem haldið er af kennurum frá Nurture International.
Verkefnið Græna framtíðin er samstarfsverkefni milli Grunnskólans í Hveragerði og Landbúnaðarháskóla Íslands (áður Garðyrkjuskóli ríkisins), sem hefur verið í gangi í nokkur ár. Skólinn heyrir nú undir Fjölbrautaskóla Suðurlands. Verkefnið felur í sér að nemendur yngsta stigs heimsækja garðyrkjuskólann á vorin þar sem þeir sá sumarblómum, kryddjurtum og öðrum plöntum. Þeir læra að vökva, prikla og gróðursetja, og fylgjast með vexti plantnanna. Að lokum fá nemendur plöntur með sér heim í skólalok.
Ávinningur af verkefninu
Verkefnið hefur margvíslegan ávinning:
Umhverfisfræðsla: Nemendur læra um náttúruna og umhverfisvernd í gegnum hagnýta reynslu.
Samstarf og samfélag: Verkefnið styrkir tengsl milli skóla og samfélagsins, auk þess að efla samstarf milli nemenda og kennara.
Sköpun og ábyrgð: Nemendur upplifa gleði og ábyrgð við að rækta plöntur og sjá árangur vinnu sinnar.
Þetta verkefni er einnig hluti af víðtækari umhverfisstefnu skólans, sem hefur hlotið Grænfánann fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum.
Í heildina stuðlar Græna framtíðin að aukinni umhverfismennt, ábyrgð og samfélagsvitund meðal nemenda, sem er mikilvægt í nútíma samfélagi.
Lítil skref á leið til læsis er samstarfsverkefni Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík og Miðstöðvar skólaþróunar við HA. Tilgangur þess er að efla samvinnu kennara á ólíkum skólastigum svo að kennsluaðferðir í skólunum speglist og kennarar þekki nám- og starfsaðferðir hver annarra til að tryggja samfellu í námi barna. Þema verkefnisins er læsi og verður samstarf og stuðningur við foreldra aukinn. Foreldrum er boðin fræðsla þrisvar á ári og gefst þá tækifæri til að prófa verkefni barnanna, að koma með ábendingar, fá stuðning og eiga samtal við kennara um nám barna sinna.
Verkefnið snýst um að þýða og staðfæra námsefni um Valdeflandi menntun (Empowering Education). Inntak hennar snýst um að kenna börnum sjálfsstjórn, sjálfsvitund, samfélagsvitund, sjálfsábyrgð og lausnamiðaða hugsun ásamt því að mynda sambönd við aðra. Námsefnið verður prófað í kennslu í lífsleikni fyrir nemendur í 5. bekk í tveimur grunnskólum í Árnesþingi í samstarfi við Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og verður kynnt fyrir öðrum skólum á svæðinu sem og á landsvísu.
Verkefnið snýst um að innleiða See the Good, aðferðafræði sem var þróuð í Finnlandi og hjálpar nemendum að átta sig á hvar styrkleikar þeirra liggja. See the Good byggir á hagnýtum verkfærum fyrir kennara og starfsfólk skóla þar sem unnið er með 26 skilgreinda styrkleika nemenda á markvissan hátt sem eflir nemendur bæði í námi og daglegu lífi. Þessi aðferðafræði byggir á jákvæðri sálfræði og er nú þegar notuð í yfir fimmtán löndum með góðum árangri.
Fræðsluverkefnið Sjónarafl snýst um að efla myndlæsi nemenda á þremur skólastigum ásamt því að þróa fjarkennslu í myndlæsi og auka þannig þjónustu við skóla á landsbyggðinni. Verkefnið hefur meðal annars það markmið að efla gagnrýna hugsun, sköpun og skilning nemenda og byggist á fjögurra ára rannsóknarvinnu og þróun námsefnis í myndlæsi innan Listasafns Íslands. Listasafn Íslands hlaut tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2024 í A-flokki fyrir framúrskarandi fræðslustarf og verkefnið Sjónarafl.
Vefsíða verkefnisins
Verkefnið snýst um framleiðslu á ellefu stuttum jafningjamyndböndum ætluðum mið- og unglingastig grunnskóla. Þau tengjast kennslustundum í stafrænni borgaravitund (CSE) og fjalla um afmarkaða efnisþætti sem snúa að því að fóta sig í samskiptum í netheimum.
Vinátta og takmörk
Hver ert þú á netinu?
Þrýstingurinn að vera sítengdur
Sextaskilaboð, sambönd og áhætta
Ofdeiling og stafræn fótspor
Hatursorðræða á netinu
Sjálfsmynd mín á netinu
Hvernig kynni ég mig?
Tekist á við stafræn átök
Vinátta og samfélagsmiðlar
Við hvern talar þú á netinu?
Verkefnið snýst um að þróa og endurrita viðurkennd íslensk smáforrit, Lærum og leikum með hljóðin og Froskaleikur - Skólameistarinn, yfir í nýja veflausn.
Hingað til hefur notkun þeirra takmarkast við iOs kerfið en í nýju veflausninni verður aðgengi ótakmarkað í tölvum og snjalltæki og opið öllum.
Málhljóðavaktin er ætluð öllum nemendum á leik- grunnskólaaldri, eftir eðli máls, auk þess sem verkefnið er ætlað barnafjölskyldum með íslenskan og erlendan bakgrunn. Um er að ræða stafrænt efni með stigvaxandi þyngd sem kennarar/for. laga að getustigi og áhuga barnsins. Yngri börnin læra að bera fram íslensku málhljóðin um leið og þau læra bókstafina, þjálfa hljóðavitund, umskráningu, læra orð og hugtök. Eldri nem sem ekki hafa réttan framburð málhljóðanna nýta efnið í framburðarþjálfun. Málhljóðavaktin er markviss grunnur að íslensku málhljóðunum og framburði fyrir einstaklinga af erlendum uppruna
Tengill á síðu með leiknum.
Opni skólinn er ný námsleið með lýðskólaáherslum sem er ætlað að mæta betur fjölbreyttum nemendahópi með ólíkar þarfir með það að markmiði að byggja á styrkleikum nemenda, áhuga þeirra á ólíkum viðfangsefnum og skapandi lausnum. Ætlunin er að móta ólíkar námsleiðir en um er að ræða samstarfsverkefni skólafólks í Grundaskóla, kennara á eftirlaunum, fólks úr atvinnulífinu, fagaðila og foreldra.
Verkefnið var lokaverkefni í meistaranámi í faggreinakennslu við Háskóla Íslands og snýst um innleiðingu á notkun sýndarveruleika í kennslustofum. Gerð var starfsendarannsókn og viðtalsrannsókn, útbúið námsefni og innleiðingaráætlun við notkun tækni í sjónlistakennslu og öðrum greinum í Lundaskóla.
Þverfaglegur starfshópur af fjölskyldusviði Árborgar hefur unnið að endurskoðun mennta- og læsisstefnu Árborgar. Í læsisstefnunni er annars vegar unnið með málþroska, lestur, ritun og fjöltyngi og hins vegar læsi í víðum skilningi þar sem notast er við eftirfarandi flokkun: félags- og samfélagslæsi, heilsulæsi, umhverfislæsi og sjálfbærni, vísinda- og talnalæsi, lista og menningalæsi og upplýsinga- og miðlalæsi. Verkfærakistan byggir á þeim markmiðum og leiðum sem sett eru fram í læsisstefnunni og er ætlað að vera einfalt verkfæri sem styður við þau markmið.
Í 18 mánaða verkefni vinna þrír þróunarskólar, þrjár stoðdeildir skóla- og frístundaþjónustu og nýsköpunar- og símenntunardeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands saman að því að skoða tækifæri og áskoranir sem fylgja markvissri, ábyrgri og framsækinni notkun gervigreindar í menntun. Áhersla verður á að greina, prófa, meta og kynna lausnir og leiðir sem styðja við nám og kennslu, mynda lærdómssamfélag, safna efni í hugmyndabanka og móta fræðslutilboð. Í þróunarvinnu skóla verður lögð áhersla á að kynna gervigreind og vekja kennara til umhugsunar um möguleg áhrif, tækifæri og áskoranir.
Verkefnið snýst um að jafna tækifæri barna til hjólareiða með því að innleiða kennslu í hjólafærni og hjólaöryggi inn í skólakerfi. Verið er að þróa aðferðir, námsefni og leiðbeiningar til að styðja við innleiðingu hjólamenningar í skólasamfélagið og festa hjólakennslu í sessi sem hluta af skólaíþróttum.
Með því að gera næstu kynslóðir hjólafærar og nægjanlega öruggar til að nota hjól sér til ánægju og sem samgöngutæki styðjum við aðgerðir hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar og búum til verulegan lýðheilsulegan og umhverfislegan ávinning fyrir samfélagið allt.
Markmið verkefnisins er að endurskoða og finna nýjar leiðir til að efla læsiskennslu á eldra stigi. Að auki er íslenskunám endurskoðað með það fyrir augum að nemendur geti farið fjölbreyttar leiðir þar sem styrkleikar þeirra fá að njóta sín. Verkefnið er unnið af kennurum í íslensku, ÍSAT2 og list- og verkgreinum á eldra stigi ásamt verkefnisstjórum og verður miðlað til annarra með hugmynda- og verkefnabanka á heimasíðu Fellaskóla. Áætlað er að vera einnig með kynningar og heimsóknir í skóla.
Kveikjum neistann hófst haustið 2021. Markmið verkefnisins er að bæta líðan og árangur nemenda og efla áhugahvöt þeirra en grunnþáttur í því er að allir nemendur nái færni í lestri. Nemendur fá áskoranir miðað við færni til að kveikja áhuga á náminu. Verkefnið er langtíma rannsóknarverkefni en stefnt er að því að fylgja einum árgangi eftir í tíu ár og meta árangurinn sem gerir þetta að stærstu menntarannsókn sem gerð hefur verið hér á landi.
Verkefnið snýst um að þróa áfram og samþætta þróunarverkefni sem skólinn hefur unnið með. Um er að ræða verkefni um Grænfána, heilsueflingu, Leiðtogann í mér og Réttindaskóla Unicef. Ætlunin er að samþætta markmið þeirra og efla forvarnarstarf, velferðarkennslu og kennslu um almennt heilbrigði.
Íslenskubrú snýst um að leiða saman grunnskólana í Breiðholti til að útbúa heildstæða og faglega umgjörð um íslenskunám nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, þróa fjölmenningarlega kennsluhætti og tryggja gott flæði í íslenskunámi nemenda frá fyrstu móttöku að sjálfstæðri þátttöku þeirra í öllu skólastarfi. Kennarar allra námssviða taka þátt í verkefninu og verður samstarf við heimili nemenda aukið. Í lok verkefnis verða til afurðir sem verður miðlað á landsvísu í gegnum heimasíðuna Íslenskubrú Breiðholts og námstefnu sem heitir Íslenskubrú Breiðholts: mótun og miðlun íslensku sem annars máls.
Verkefnið byggir á hugmyndavinnu nemendaráðs Brekkubæjarskóla og felst í því að allir nemendur kynnist og hafi aðgang að svokölluðum spjallara sem þeir treysta og geta leitað til. Starfsfólk félagsmiðstöðvar verða spjallarar fyrir unglinga og unglingar verða spjallarar fyrir yngri nemendur. Tilgangurinn er að grípa þau börn sem upplifa vanlíðan, vinaleysi eða finnst þau ekki tilheyra skólasamfélaginu. Með þessu verður meðal annars til þekking hvernig hægt er að efla eldri nemendur í leiðtogafærni og þá verður unnið að gerð handbókar sem nýst getur fleirum. Hér má sjá nánari upplýsingar um spjallaraverkefnið.
Verkefnið er ný nálgun fyrir kennara og stjórnendur til að móta umbótamiðað skólastarf og beita jafningjastuðningi og rannsóknum á eigin starfi. Rýnt verður í gæði kennslunnar og munu kennarar á mið- og unglingastigi í öllum grunnskólum sveitarfélagsins vinna starfendarannsókn á eigin kennsluháttum og rýna í niðurstöður með jafningja. Þeim verður svo miðlað áfram til annarra kennara innan og milli skóla. Markmiðið er að kennarar öðlist aukna hæfni og sjálfstraust sem leiði til betra náms nemenda.
Selásskóli hefur unnið markvisst að því að festa í sessi hugmyndafræði sköpunarsmiðja og STEM verkefna og hyggur á samstarf við Brekkubæjarskóla til að dýpka vinnuna enn frekar og þá með tilliti til þess að efla læsi. Ætlunin er ða tengja saman sköpunarsmiðjur og bókmenntir. Með tengingu STEM, lista og lesturs kynnast nemendur nýjum hugarheimum, útvíkka hugmyndir sínar og námið verður merkingarbærara.
Draumagerðarsmiðju er ætlað að gefa nemendum færi á að vinna út frá eigin áhugasviði og að þeir geti nýtt til þess fjölbreyttan námsgagna- og tækjakost ásamt sérþekkingu kennara. Ætlunin er að smiðjan búi yfir hljóð- og upptökuveri sem og búnaði sem hentar vel til nýsköpunar. Nemendur geti þannig sjálfir þróað verkefni sín undir handleiðslu kennara og læra að þróa með sér seiglu og þrautseigju og að skapa þekkingu í samvinnu við aðra.
Vitundin – Stafræn tilvera leggur grunn að heildstæðri námskrá í stafrænni borgaravitund og gerir íslenskum grunnskólum kleift að kenna börnum og ungmennum ábyrga og gagnrýna netnotkun með aðgengilegu og staðfærðu námsefni. Með vefnum Vitundin.is fá kennarar, foreldrar og skólastjórnendur verkfæri til að efla stafræna ábyrgð nemenda og styðja þá í að verða virkir og meðvitaðir þátttakendur í stafrænu samfélagi framtíðarinnar.
Verkefnið, „Saman komumst við lengra“ er samstarfsverkefni 15 grunnskóla í Reykjavík ásamt fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Verkefninu er ætlað að skapa lærdómssamfélag um innra mat og gæði í skólastarfi ásamt umbótum. Horft er til þess að fá fagaðila meðal annars úr háskólasamfélaginu til að styrkja og fræða starfsfólk skólanna, byggt á nýjustu rannsóknum um nám, kennslu og mat á skólastarfi.
Verkefnið snýst að setja upp aðstöðu þar sem tækifæri gefst til að flétta aðferðir listþerapíu inn í skólastarfið. Lagt er upp með að þar ríki öryggi og ró og að í boði verði bæði hóp- og einstaklingstímar. Í hóptímum fá nemendur næði og rými til að vinna út frá sjálfum sér en í einstaklingstímum gefst færi á að vinna með þeim sem eiga í dýpri tilfinningalegum, félagslegum og/eða geðrænum erfiðleikum. Þá verður kennurum í grunnskóladeildum á svæðinu boðið að kynnast starfinu og fá stuðning til að koma því á í sínum skóla sé áhugi fyrir því.
Starfendarannsóknir eru hluti starfshátta í Dalskóla en til að auka árangur þeirra verður stofnað þróunarteymi skipað reynslumiklum rannsakendum og tæknilega sterkum kennurum til að hanna rafrænt gagnvirkt kerfi til að formgera aðferðirnar og bæta utanumhald. Þetta teymi, í samvinnu við stjórnendur, styður kennara í að nálgast starfendarannsóknir á endurnýjaðan hátt með jafningjasamtali og handleiðslu.
Verkefni á framhaldsskólastigi
Verkefnið er starfendarannsókn í MA sem snýst um að auka gæði kennslu og náms og verður sjónum beint að samræðum í kennslustundum, tilgangi náms og endurgjöf til nemenda. Kennarar vinna í teymum og verða niðurstöðurnar nýttar til starfsþróunar. Þriðjungur kennarar tekur þátt og hittist hópurinn aðra hverja viku, í skipulagðri starfsþróun. Niðurstöður nýtast í kennararnámi HA og verða gögn kynnt í Netlu, á Skólaþráðum, á Menntakviku og málstofum. Verkefnið er í samstarfi við HA og MSHA.
Mannkostamenntun miðar að því að þroska með nemendum þá mannkosti sem leiða til farsældar í lífinu. Jákvæður skólabragur er í öndvegi í FMOS og í verkefninu var unnið að því að efla skólabraginn enn frekar með hugmyndafræði mannkostamenntunar að leiðarljósi. Sérstök áhersla var lögð á fjóra mannkosti/dygðir: Siðferðisdygðina hugrekki, framkvæmdadygðina seiglu, borgaralegu dygðina kurteisi og vitsmunalegu dygðina forvitni. Dygðirnar voru gerðar sýnilegar með veggspjöldum. Kennarar í fjórum greinum fléttuðu mannkostamenntun inn í námsefni annarinnar og framkvæmdu starfendarannsókn samhliða kennslunni. Í lok annar var hugur nemenda til námsins kannaður. Vefsíða var sett upp þar sem fræðast má um mannkostamenntun.
Verkefnið snýst um að auka skilning nemenda á endurnýjanlegri orkuframleiðslu og þekkingu á hvernig nýta megi endurnýjanlega orkugjafa til að draga úr losun, umhverfisáhrifum og kostnaði. Nemendur fá að kynnast nýstárlegri tækni, setja upp og sinna viðhaldi á sólarsellum og safna og miðla upplýsingum um raforkuframleiðslu í skólanum. Þá munu nemendur miðla reynslu til nærsamfélagsins og taka þátt í uppbyggingu þekkingar um sólarorku á Vestfjörðum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Bláma og Orkubú Vestfjarða.
Markmið verkefnisins er að bæta móttöku nýnema í framhaldsskóla en líka að heyra raddir nemenda varðandi kröfur háskólanna. Haldin verða tvö skólaþing með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem samtal á sér stað í blönduðum hópum. Annað skólaþingið sitja nemendur á fyrsta ári VÍ sem valdir eru með slembiúrtaki ásamt kennurum. Hópi 10. bekkjarnemum er boðið á þingið ásamt kennurum og foreldrum þar sem rætt verður meðal annars um væntingar, undirbúning og samstarf heimilis og skóla. Hitt skólaþingið sitja lokaársnemar sem valdir eru með slembiúrtaki ásamt kennurum. Hópi háskólanema á fyrsta ári er boðið auk kennarar á háskólastigi og samtal átt um þær breytingar sem fylgja því að fara á milli skólastiga.
Verkefni - frístundastarf
Verkefnið snýst um að samþætta sumarfrístund og íþróttastarf fyrir börn á miðstigi og er stefnt að því að hafa dagskrána samfellda og yfir stóran hluta dagsins til að koma til móts við þarfir ólíkra nemenda í þéttbýli og dreifbýli. Sett er upp vikuleg þematengd dagskrá þar sem fléttað er saman dagskrá íþróttafélaga, stofnana og félagasamtaka úr samfélaginu.
Vaxandi er verkefni sem gengur út á að valdefla börn og unglinga með innleiðingu á hæfniþáttum nýrrar menntastefnu með fræðslu og og ráðgjöf frá Menntavísindasviði HÍ. Markmiðið er að auka fagmennsku í frístundastarfi, minnka streitu hjá börnum, unglingum og starfsfólki og auka samstarf fagaðila. Áhersla er lögð á félags- og tilfinningahæfni barna og unglinga, að þjálfa þrautseigju þeirra og aðstoða þau við að takast á við kvíða og álag.
Verkefnið snýst um að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, sér í lagi þeirra sem eru af erlendu bergi brotin, og hjálpa þeim að mynda vinasambönd og fá þau til að taka þátt í frístundastarfi. Markmiðið er að styrkja börnin félagslega, valdefla þau og auka vellíðan þeirra. Starfsmaður félagsmiðstöðvar hittir barn einu sinni til tvisvar í viku, til að mynda í félagsmiðstöðinni, til að spila, baka, leika borðtennis og þess háttar.
Verkefnið gengur út á að þróa hópastarf til að aðstoða börn með margþættan vanda, aðlögun flóttabarna og félagslega einangraða einstaklinga. Markmiðið er að auka félagsfærni þeirra, ábyrgð og samskiptahæfni barnanna sem hefur jákvæð áhrif á sjálfsmyndina, eykur farsæld og dregur úr áhættuhegðun. Í sértæku hópastarfi er unnið með áskoranir einstaka hópa sem hefur bæði jákvæð áhrif á einstaklingana í hópnum sem og nærsamfélag þeirra.
Önnur verkefni
Táknmálseyjan er málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri og miðar að því að útbúa táknmálsumhverfi fyrir börnin þar sem þau læra íslenskt táknmál í gegnum leik og starf. Ætlunin er að stækka verkefnið og kynna meðal annars táknmálsbörnin fyrir barnasáttmálanum og vinna sáttmálann með þeim á þeirra forsendum, á ÍTM. Börnin koma með sínum kennurum og hitta táknmálstalandi starfsfólk SHH og læra samskiptavenjur í menningu heyrnarlausra, að bera virðingu fyrir málinu og öðlast málfyrirmyndir.
Velkomin er samfélagsverkefni fyrir börn í Kópavogi á aldrinum 10-18 ára sem hafa annað móðurmál en íslensku. Markmiðið er að hjálpa börnunum að aðlagast skólanum og samfélaginu í gegnum íþrótta- og frístundastarf þeim að kostnaðarlausu en þátttaka á þeim vettvangi þroskar félagsfærni, vinnur gegn félagslegri einangrun og þjálfar lýðræðisvitund. Verkefnið hjálpar þannig börnunum að upplifa sig sem hluta af heild, að ná betri árangri í námi og að taka þátt í samfélaginu. Velkomin er samstarfsverkefni á milli skóla, félagsmiðstöðva og annarra stofnana í Kópavogi.
Léttir er leiklistarsmiðja á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins fyrir 7-9 ára og 10-12 ára börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi. Smiðjan er í samstarfi við móttökudeild Seljaskóla og fer fram í deildinni sem er skólaúrræði fyrir börn þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd. Um er að ræða námskeið þar sem áhersla er lögð á sköpun, frumkvæði, leikgleði og leiklist með lágmarks áherslu á tungumálið. Jafnframt fær Seljaskóli bækling frá leiklistarskólanum sem hægt er að nýta í æfingar, leiki og námskeið í skólanum.
Verkefnið snýst um að efla skapandi hugsun og félagsfærni hjá hópi fjöltyngdra barna í gegnum leik með það að markmiði að börnin upplifi sig sem hluta af samfélaginu. Gert er ráð fyrir að öll börn á aldrinum 5-12 ára verði þátttakendur og að afraksturinn verði brú á milli skólastiga og tengsl barnanna við samfélag sitt. Verkefnið er þverfaglegt samstarf leik- og grunnskóla, frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar í nærumhverfi Borgaskóla, með ráðgjöf frá Bókasafninu í Spöng, Þjóðminjasafninu og Miðju máls og læsis.