Fara beint í efnið

Heimahjúkrun

Til að sækja um heimahjúkrun fylla inn eyðublað og senda rafrænt í gegnum gagnagátt HSU.

Heimahjúkrun er fyrir einstaklinga á öllum aldri sem búa í heimahúsum og eru í þörf fyrir einstaklingshæfða og markvissa hjúkrun til að geta lifað sem eðlilegustu lífi.

Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða, markvissa, árangursríka og faglega heimahjúkrun, með það að markmiði að gera þeim, sem þjónustunnar njóta, kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi, heilsubrest eða öldrun.
Við heimahjúkrun starfa hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eftir því hver þörfin er í samvinnu við heimilslækna. Mikið samstarf er einnig við félagsþjónustu og veitendur annarrar stoðþjónustu.
Beiðni um heimahjúkrun getur komið frá sjúklingi sjálfum, aðstandendum, sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.

Eftir að óskað hefur verið eftir heimahjúkrun, kemur hjúkrunarfræðingur í vitjun, metur hjúkrunarþörf og skipuleggur þjónustuna í samvinnu við einstaklinginn, heimilislækni og aðstandendur.

Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á mati hjúkrunarfræðings sem byggt er á upplýsingasöfnun. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun mun bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.