Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Leghálsskimun - nauðsynleg og fyrirbyggjandi

12. ágúst 2024

Pantaðu tíma - við tökum vel á móti þér 😊

HuldaP

Leghálsskimanir fluttust til Heilsugæslunnar á landsvísu frá Krabbameinsfélaginu áramótin 2020/2021 og um leið var tekin upp skimun fyrir HPV veirunni (Human Papillomavirus) sem er orsök yfir 90% leghálskrabbameina. Markmið skimunar er að greina frumubreytingar á forstigi og meðhöndla þær ef þörf er á og þar með lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins.  

Allir einstaklingar sem eru með legháls og hafa stundað kynlíf, óháð kyni og kyni rekkjunauts ættu að mæta reglulega í skimun fyrir leghálskrabbameini samkvæmt skimunarleiðbeiningum landlæknis. Mælt er með reglulegri sýnatöku frá leghálsi hjá einkennalausum einstaklingum frá 23 ára aldri. 

Fékkstu boð í skimun eða viltu komast í skimun?  

Ef þú fékkst boðsbréf nýlega eða kaust að nýta ekki síðasta boð sem þú fékkst, mælum við með að þú pantir tíma á þinni heilsugæslustöð annað hvort á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is eða með símtali til heilsugæslustöðvarinnar.  Á starfsstöðvum HSN á Sauðárkróki, Dalvík, Fjallabyggð, Akureyri og á Húsavík taka sérþjálfaðar ljósmæður og hjúkrunarfræðingar á móti þér allan ársins hring.   

"Mæting í leghálsskimun hér á Norðurlandinu hefur verið nokkuð góð undanfarin ár, en við getum gert enn betur. Við hvetjum til reglulegrar skimunar sem fyrirbyggjandi aðgerð - ekki bíða með að panta tíma" segir Hulda Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur/ljósmóðir og verkefnastjóri yfir leghálsskimunum hjá HSN.

Hvenær er æskilegt að ég komi í skimun og hvernig veit ég hvenær ég fór síðast? 

Ef þú ert ekki viss hvenær þú fórst síðast í skimun þá getur þú leitað að upplýsingum á „Mínum síðum“ á Heilsuvera.is undir sjúkraskrá - skimunarsaga.

Miðað er við að konum á aldursbilinu 23-29 ára sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti og konum á á aldursbilinu 30-64 ára á fimm ára fresti, í samræmi við skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis. Kvár og transfólk með legháls er einnig hvatt til að panta tíma ef ekki hefur borist boð.    

Hvað ef ég er ekki með legháls en fékk samt boðsbréf? 

Ef legháls hefur verið fjarlægður þá er best að setja sig í samband við Samhæfingarstöð Krabbameinsskimana og athuga hvort þörf sé á áframhaldandi skimun. Sérfræðingar þar meta út frá sjúkrasögu einstaklings og ástæðu þess að legháls var fjarlægður, hvort halda þurfi áfram skimunum.   

Hvað  er HPV? 

HPV er veira sem á sér margar undirgerðir. Einungis fáeinar eru krabbameinsvaldandi en aðrar geta t.d. valdið kynfæravörtum. HPV sýking er oftast einkennalaus og smitast með kynmökum óháð kyni bólfélaga og er mjög algeng sýking sérstaklega hjá ungu fólki. Það er eingöngu í þeim tilfellum sem sýkingin er langvarandi eða ónæmiskerfið ekki nægilega sterkt sem hún getur farið að valda usla og valda frumubreytingum. Frumubreytingar geta svo með tímanum breyst í krabbamein ef ekkert er að gert, en ferlið frá smiti að krabbameini tekur oftast um 10-15 ár.  Langoftast losar líkaminn sig þó við veiruna eins og við hvert annað veirusmit en það tekur mislangan tíma (allt að 2 ár), en bólusetning við HPV getur flýtt þessu ferli.  

Vægar frumubreytingar geta gengið til baka ef líkaminn nær að losa sig við HPV veiruna. Ef þú greinist með HPV í skimun þá ferð þú strax inn í eftirlit og færð innköllun á 6-12 mánaða fresti þar til annað hvort þú losnar við veiruna eða ferð að fá frumubreytingar og þá er þá gripið strax til nánari rannsókna og meðferða ef þörf er á.   

Frá haustinu 2023 hefur öllum börnum í 7. bekk grunnskóla verið boðin bólusetning við HPV veirunni óháð kyni að kostnaðarlausu. Aðrir sem kjósa að fá þessa bólusetningu geta borið það undir heimilislækni á sinni heilsugæslustöð en þurfa þá að greiða fyrir bóluefnið sjálf.  

Kostar að koma í skimun?  

Frá því að heilsugæslan tók við leghálsskimunum þá hefur það einungis kostað 500 krónur að koma, öryrkjar og þau sem hafa náð greiðsluþaki greiða hvorki fyrir komuna né sýnið.  

Hvernig fer leghálsskimun fram og hvað verður um sýnið? 

Á Heilsugæslustöðvum HSN taka sérþjálfaðar ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sýni frá leghálsi en sýnatakan tekur bara stutta stund. Þegar því er lokið eru sýnin send á Samhæfingarstöð Krabbameinsskimana sem hefur yfirumsjón með skimunum og þar eru sýnin skráð og yfirfarin. Rannsóknarstofa Landspítalans sér svo um að skoða og greina sýnin. Þegar því er lokið yfirfer Samhæfingarstöðin allar niðurstöður og sendir svörin út til skjólstæðinga í gegnum Heilsuveru og Ísland.is Tekur þetta ferli oftast um 2-4 vikur frá sýnatöku.  

Hver fylgir eftir niðurstöðum úr rannsókninni? 

Samhæfingarstöð Krabbameinsskimana fylgir eftir öllum sýnum og kallar skjólstæðinga inn eftir því sem þurfa þykir og verkferlar segja til um.  Samhæfingastöðin tekur einnig við fyrirspurnum frá skjólstæðingum varðandi sýnin og niðurstöðurnar ef einhverjar eru. Hún fylgir einnig eftir og sinnir einstaklingum sem þurfa nánari greiningu og eftirlit vegna ákveðinna frumubreytinga í leghálsi í samvinnu við Kvennadeild Landspítala og Kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri.   

Nánari upplýsingar um leghálsskimanir má nálgast hér:  

Bæklingur Landlæknisebættisins um leghálsskimanir 

Skimun fyrir leghálskrabbameini | Heilsuvera 

Heimildir fengnar frá Landlæknisembættinu, Samhæfingastöð krabbameinsskimana og Sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna