Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Hlutverk og skipulag barnaverndarstarfs

Sveitarfélög bera ábyrgð á barnaverndarstarfi og starfa eftir Barnaverndarlögum.

Barnaverndarþjónustur starfa í sveitarfélögum um land allt og hafa það hlutverk að aðstoða börn og foreldra í alvarlegum vanda til að tryggja velferð og öryggi barna. Hér má lesa almennt um þjónustu barnavernda. 

Barnaverndarstarf er sérhæft og starfsmenn barnavernda hafa að jafnaði fagmenntun á borð við félagsráðgjöf, sálfræði og uppeldis- og menntunarfræði. Það er í höndum sveitarfélaga að ráða fagfólk í störf hjá barnaverndarþjónustu, til stuðnings hafa starfsmenn barnavernda aðgang að ráðgjöf sérfræðinga hjá Barna- og fjölskyldustofu við meðferð mála ef þörf krefur. Umdæmisráð fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum.

Fagleg meðferð mála 

Sveitarstjórnir marka sér stefnu í barnaverndarmálum og til að tryggja faglega meðferð mála og eftirlit er framkvæmdaáætlun send á mennta- og barnamálaráðuneytið Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Þó að sveitarstjórn beri ábyrgð á framkvæmd barnaverndarstarfs innan sveitarfélags er þeim ekki heimilt að fá nokkrar upplýsingar um þau mál sem borist hafa barnavernd eða gefa barnaverndarþjónustu fyrirmæli um meðferð einstakra mála.

Til þess að tryggja faglegt starf í barnaverndarmálum er miðað við að umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar hafi í það minnsta 6000 íbúa. Viðmiðið miðast við það hve mörgum málum barnaverndarþjónusta sinni að jafnaði til að geta haldið úti nægilega faglegu starfi, samkvæmt lögum eru dæmi um undanþágur frá íbúalágmarki á bakvið hverja barnaverndarþjónustu ef að næg fagþekking er til staðar innan barnaverndarþjónustu. 

Barnaverndarþjónustur sveitarfélaga

Ef íbúafjöldi sveitarfélags nær ekki 6.000 manns þarf barnaverndarþjónustan að gera samning við önnur sveitarfélög um sameiginlega barnaverndarþjónustu eða sækja um undanþágu t.d. á grundvelli landfræðilegra ástæðna. Í dag eru starfandi nokkrar barnaverndarþjónustur þvert á sveitarfélög, t.d. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum.

Umdæmisráð barnaverndar

Umdæmisráð eru sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum á vettvangi sveitarfélaga, m.a. ef að þvingunarúræði koma til í málum.