Fara beint í efnið

Barnavernd og þjónusta við börn og foreldra

  • Hefur þú áhyggjur af barni eða ert þú barn með áhyggjur?

  • Grunar þig að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu?

  • Veist þú til þess að barn sé að stofna heilsu sinni í hættu?

  • Hefur þú áhyggjur af líkamlegri eða andlegri heilsu barns?

  • Grunar þig að barn fái ekki tækifæri til eðlilegs þroska?

Þetta eru dæmi um mál sem að kalla á aðkomu barnaverndar, sem þarf þá að meta hvort að barn sæti vanrækslu, ofbeldi eða sýni af sér áhættuhegðun. Starfsfólks hjá barnaverndarþjónustum sveitarfélaga byggja sitt mat á á Skilgreiningar- og flokkunarkerfi barnaverndartilkynninga, sem oftast er talað um sem SOF-kerfið.

Hlutverk barnaverndar er aðstoða börn og foreldra í alvarlegum vanda til að tryggja velferð og öryggi barna. Barnaverndarþjónustur starfa innan sveitarfélaga og þeirra verkefni er að veita stuðning og ráðgjöf með fjölbreyttum, faglegum lausnum með það að markmiði að tryggja hag barns.

Það er skylda okkar að tilkynna til barnaverndar ef grunur er um að barn búi við aðstæður sem eru óæskilegar og hafa neikvæð áhrif á heilsu þess, líðan eða þroska. Við það er málið sett í ferli og metið. Barnaverndarmál geta komið til að frumkvæði aðila sem hafa áhyggjur af barni, til dæmis frá almenningi, nágranna, skóla, foreldri eða aðstandanda barns.

Dæmi um faglegar lausnir barnavernda

  • Regluleg viðtöl og stuðningur barnaverndarstarfsmanns

  • Stuðningur við uppeldi og umönnun

  • Stuðningsfjölskyldur

  • Samvinna við fagaðila, t.d. lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk

    Meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni, t.d. dvöl barna utan heimilis, aðkoma Barnahúss, greining og meðferð

Hjá barnavernd starfar fagfólk sem hefur velferð barna alltaf í forgangi. Ef þú hefur ástæður til þess að hafa samband við barnavernd þá getur þú fundið tengilið í þínu sveitarfélagi á lista yfir barnaverndarþjónustur sveitarfélaga

Ef þú hefur áhyggjur af aðstæðum barns, að barn eða ófætt barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu eða það sé að stofna heilsu sinni eða þroska í hættu áttu samkvæmt lögum að tilkynna það til barnaverndar eða hafa samband við 112 í síma eða í gegnum netspjall.

Stuðningur við börn og fjölskyldur

Ef þörf er á aðkomu barnaverndar er málið kannað. Ef niðurstaða þeirrar könnunar er sú að fjölskyldan þarf á stuðningi að halda er gerð meðferðaráætlun í kjölfarið.

Áætlunin er mótuð í samráði við foreldra og eru börn höfð með í ráðum eftir aldri, þroska og aðstæðum. Algengt er að börn 15 ára og eldri undirriti áætlunina sem málsaðilar ásamt foreldrum sínum.

Stuðningur getur verið með ýmsum hætti og það er sjaldnast sýnilegt öðrum en fjölskyldunni þegar barnavernd liðsinnir fjölskyldum.