Fara beint í efnið

Tilkynna um aðstæður barns til barnaverndar

Öll börn eiga rétt á öryggi og ef þú hefur áhyggjur af aðstæðum barns, að barn eða ófætt barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu eða það sé að stofna heilsu sinni eða þroska í hættu áttu samkvæmt lögum að tilkynna það til barnaverndar í viðkomandi sveitarfélagi 

Þú getur einnig haft samband við 112 í síma eða í gegnum netspjall., Ef að barn er í hættu skaltu hringja strax í 112.

Hvað á ég að tilkynna?

Það er á ábyrgð okkar allra að tryggja velferð barna og samkvæmt lögum ber almenningi og fólki sem að vinnur með börnum skylda til að tilkynna til barnaverndar viðkomandi sveitarfélags ef að grunur er um ofbeldi eða óæskilegar aðstæður sem hafa á einhvern hátt neikvæð áhrif á heilsu þeirra, þroska eða líðan.

Hver tilkynning getur skipt sköpum og það er mikilvægt að tilkynna ef að grunur leikur á eftirfarandi þáttum:

  • Vanrækslu, t.d. vegna vanhæfni foreldra, neyslu, veikinda eða annara aðstæðna.

  • Ofbeldi gegn barni

  • Áhættuhegðun barns,

Það er mikilvægt að hafa samband ef grunur er um að velferð barnsins sé í hættu, það er ekki þörf á vissu og í höndum barnaverndar að skera úr um það. Ef þú telur að barn sé í hættu skaltu hringja strax í 112

Hvað gerist eftir tilkynningu?

Barnaverndir sveitarfélaga taka á móti tilkynningum, meta upplýsingar þeirra og taka ákvörðun hvort málið verði kannað nánar.

Þeir sem tilkynna þurfa að gefa upp nafn svo barnavernd geti haft samband ef þörf er á meiri upplýsingum. Athugið að almenningur getur óskað eftir nafnleynd sem gildir gagnvart öllum öðrum en starfsmönnum barnaverndar. Barnaverndir hafa 7 daga til vinna úr tilkynningu. Foreldrar eru alltaf látnir vita að tilkynning hafi borist. Vegna trúnaðar við fjölskyldur fá þeir sem tilkynna til barnaverndar ekki að fylgjast með stöðu mála.

Könnun og meðferðaráætlun

Sé talin þörf á frekari athugun fer fram könnun þar sem upplýsinga er aflað um aðstæður barnsins og fjölskyldunnar, slíkt ferli getur tekið 3-4 mánuði áður en niðurstöður liggja fyrir.

Í kjölfarið er máli annað hvort lokað með formlegu bréfi til foreldra, eða ef þörf er á frekari aðkomu barnaverndar er málið unnið áfram. Þá er gerð meðferðaráætlun um þær áherslur og úrræði sem talin eru mikilvæg til þess að ná þeim markmiðum sem talin er þörf við könnun. Áætlunina skal móta í samráði i við foreldra. Börn eru höfð í ráðum við að móta áætlunina eftir aldri þeirra, þroska og aðstæðum og börn sem eru 15 ára og eldri taka þátt í að móta vissa þætti í áætlun.

Mikilvægt er að hafa í huga að starfsfólk barnaverndar býr yfir þekkingu á að leggja mat á aðstæður og leggja til úrbætur en það þarf að fá upplýsingar um þær aðstæður til að geta að hafst  í málunum. Barnið þarf ávallt að njóta vafans og betra er að leggja fram tilkynningu sem reynist óþörf en að enginn tilkynni því að engum fannst aðstæðurnar nægilega alvarlegar.