Hér eru nokkrar dæmigerðar spurningar varðandi tilkynningu um aðstæður barns.
Tilkynnt er til barnaverndarþjónustu þar sem barnið býr.
Sjá yfirlit yfir barnaverndarþjónustur eftir sveitarfélögum.
Á dagvinnutíma veitir starfsfólk barnaverndarþjónustu upplýsingar og tekur við tilkynningum. Utan dagvinnutíma, um helgar og á helgidögum er hægt að ná í bakvakt vegna bráðatilvika í barnaverndarmálum í síma 112.
Ef þú hefur áhyggjur af barni og telur að það fái ekki góða umönnun, ættir þú að tilkynna til barnaverndar.
Samkvæmt lögum er öllum skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Sama á við um heilsu og líf ófædds barn. Til dæmis ef því er stefnt í hættu vegna neyslu eða hegðunar þungaðrar konu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi.
Ef þú ert í vafa skaltu hafa samband við barnavernd.
Ef þú hefur áhyggjur, ættir þú að tilkynna málið. Þín tilkynning getur verið mjög mikilvæg fyrir barnið eða börnin sem um ræðir.
Sumir hafa áhyggjur af því að aðstæður séu ekki nægilega alvarlegar eða að tilkynning geti búið til óþarfa vandamál, en það er verkefni barnaverndarinnar að meta áhyggjur og hvort þörf sé á aðstoð.
Þú verður alltaf að gefa upp nafn við starfsmenn barnaverndar, svo hægt sé að hafa samband við þig ef þörf er á frekari upplýsingum, en þú getur óskað eftir að nafnleynd sé á tilkynningunni gagnvart öllum öðrum. Ef þú ert óviss um hvort þú ættir að segja frá áhyggjum þínum, getur þú hringt og haft samráð við starfsfólk barnaverndarþjónustu þar sem þú býrð.
Ef tilkynnt er undir nafni verður vinnsla málsins oft auðveldari vegna þess að upphaf málsins liggur ljóst fyrir.
Já, barnaverndarlög leggja ríka áherslu á skyldu þeirra sem vinna með börnum til að fylgjast með og gera barnavernd viðvart ef þörf er á. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
Sjá verklagsreglur varðandi tilkynningar skóla- og heilbrigðisstarfsfólks.
Nei. Barnaverndaryfirvöld hafa þagnarskyldu um samskipti sín við einstaklinga eða fjölskyldur, og geta þess vegna ekki gefið upp neinar persónulegar upplýsingar um einstök mál nema við þá sem eru aðilar málsins – oftast barnið og foreldrar þess.
Já, þú ættir að gera það. Það að hafa einu sinni tilkynnt mál á ekki að hindra að tilkynnt sé aftur. Málin geta tekið tíma, geta breyst og stundum er erfitt að fá samvinnu við foreldra og þess vegna getur verið gott að fá sem mestar upplýsingar í málið.
Vegna trúnaðar við fjölskyldur sem fá hjálp frá barnaverndaryfirvöldum færð þú ekki að vita hvað barnavernd hefur gert síðan þú tilkynntir síðast. Engu að síður er mikilvægt að þú hafir samband ef þú hefur áhyggjur, og útskýrir hvers vegna.
Þú verður ekki málsaðili ef þú tilkynnir. Málsaðilar eru einungis þeir sem málið hefur bein áhrif á, sem eru yfirleitt foreldrar og barn.
Tilkynning til barnaverndaryfirvalda er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn/fjölskyldu, sem tilkynnandi telur hjálparþurfi. Foreldrum eða þeim sem barn dvelst hjá er skylt að liðsinna barnavernd við könnun máls.
Sjálfsagt er að spyrja starfsmenn um rétt foreldra og hvernig könnun fer fram, enda ber þeim að leiðbeina foreldrum og barni um rétt þeirra.
Þjónustuaðili
Barna- og fjölskyldustofa