Fara beint í efnið

Beiðni um nauðungarvistun


Ertu í neyð?

Í neyðartilfellum á alltaf að hafa samband við Neyðarlínuna í síma 112.

Hægt er að leita til bráðamóttöku geðsviðs Landsspítala í síma 543-4050.

Með nauðungarvistun er átt við þegar sjálfráða einstaklingur er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar einstaklingi sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum
vilja, er haldið þar nauðugum.

Um er að ræða undantekningu frá þeirri reglu að sjálfráða einstaklingur
verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi.

Ákvörðun læknis um nauðungarvistun í 72 tíma


Læknir getur ákveðið að sjálfráða einstaklingur skuli færður og vistaður
nauðugur í  sjúkrahúsi í allt að 72 klukkustundir ef:

  • hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi

  • verulegar líkur eru taldar á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi

  • ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms

  • ef hann á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna

Nauðungarvistun með samþykki sýslumanns

Sýslumaður getur samþykkt að sjálfráða einstaklingur verði vistaður gegn vilja sínum í sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring ef:

  • uppfyllt eru sömu skilyrði og eru tilgreind hér að ofan

  • nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis

Beiðni um að sýslumaður samþykki nauðungarvistun

Félagsþjónusta sveitarfélags þar sem einstaklingur býr getur lagt fram beiðni til sýslumanns um að einstaklingur verði nauðungarvistaður í sjúkrahúsi ef það er talið réttmætt vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna, læknis eða vina eða vitneskju um hag viðkomandi sem fengist hefur á annan hátt. Með beiðninni skal fylgja læknisvottorð.

Málsmeðferð hjá sýslumanni

Sýslumaður skal taka beiðni til meðferðar um leið og hún berst. Sýslumaður skal afla þeirra gagna sem talið er nauðsynlegt að afla, ef ekki er unnt að afgreiða beiðni á grundvelli erindis
og meðfylgjandi læknisvottorðs.

Á vegum sýslumanns skal starfa trúnaðarlæknir sem sýslumaður getur leitað álits hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til nauðungarvistunar. 

Ákvörðun sýslumanns um hvort nauðungarvistun skuli heimiluð eða ekki er skrifleg og rökstudd og er tilkynnt þeim er beiðni bar fram. 

Ef beiðni er samþykkt skal ákvörðun jafnframt send yfirlækni á hlutaðeigandi sjúkrahúsi þegar í stað með tryggilegum hætti, ásamt ljósriti af læknisvottorðinu sem fylgdi beiðninni. 

Sýslumaður sendir einnig afrit af samþykki sínu til þess sem nauðungarvistaður er þar sem kemur fram að viðkomandi eigi rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðar þar, og enn fremur að honum sé heimilt að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun sýslumanns um vistun.

Nauðungarvistun sem samþykkt hefur verið af sýslumanni má aldrei vara lengur en yfirlæknir telur hennar þörf og ekki lengur en í 21 sólarhring frá dagsetningu ákvörðunar sýslumanns.

Kæra á nauðungarvistun

Einstaklingur sem hefur verið vistaður nauðungur á sjúkrahúsi getur borið ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla.

Framlenging nauðungarvistunar

Heimilt er með úrskurði dómara að framlengja nauðungarvistun einstaklings í eitt skipti í allt að 12 vikur að liðnum 21 sólarhring frá dagsetningu frá ákvörðun sýslumanns.

Einnig er heimilt að framlengja nauðungarvistun einstaklings ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði.

Lög og reglugerðir

Lögræðislög nr. 71/1997