Fara beint í efnið

Samgöngur

Á hverjum degi er fólk á faraldsfæti, sum ferðast stuttar vegalengdir, til dæmis milli heimilis og vinnustaðar, á meðan önnur ferðast hringinn í kringum landið eða jafnvel til annarra landa. Ferðamátarnir eru margvíslegir og umferðin töluvert meiri en þegar þarfasti þjónninn var fljótlegasta leiðin milli bæja.

Á tveimur hjólum

Hjólreiðar eru vinsælar bæði meðal ungra sem aldinna þar sem ekkert aldurstakmark er sett á notkun reiðhjóla í ferðalögum á milli staða. Í mörgum bæjarfélögum hafa verði gerðir sérstakir hjólastígar sem auðvelda ferðina og auka öryggi þeirra sem vilja nota þennan umhverfisvæna ferðamáta. Það er þó ýmislegt sem hafa ber í huga þegar hjólað er af stað, til dæmis að öryggisbúnaður eins og ljós og bremsur séu í lagi og að á kolli reiðhjólamannsins sé hjálmur. Á Íslandi er skylda að börn undir 16 ára aldri noti hjálm en að sjálfsögðu eru hjálmar líka mikilvægur öryggisbúnaður fyrir fullorðna.

Síðastliðin ár hafa rafhlaupahjól einnig notið mikilla vinsælda fyrir stuttar ferðir innanbæjar. Eigendum slíkra hjóla hefur fjölgað um allt land en einnig eru starfræktar rafskútuleigur á höfuðborgarsvæðinu og á stærstu þéttbýlisstöðum innanlands. Um rafhlaupahjól gilda að mestu sömu umferðarreglur og um reiðhjól, að því undanskildu að rafhlaupahjólum má ekki aka á akbraut. Börn yngri en 16 ára verða að nota hjálm og þar sem rafhlaupahjólin deila oft svæði með gangandi vegfarendum er brýnt að sýna þeim sem ferðast á tveimur jafnfljótum virðingu í umferðinni, til að mynda með því að skilja hjólin ekki eftir á miðri gangstétt þegar gengið er frá þeim.

Rafhjól - bifhjól

En reiðhjól og rafhlaupahjól eru ekki einu hjólin í umferðinni. Oft má sjá ungt fólk á ferð á léttum bifhjólum sem annars vegar geta náð 25 km/klst. hámarkshraða og hins vegar 45 km/klst. hámarkshraða. Aldurstakmark fyrir akstur léttra bifhjóla í flokki I (25 km/klst.) er 13 ár og ekki er gerð krafa um ökunám eða ökuréttindi til að mega ferðast á þeim milli staða. Að sjálfsögðu er öllum skylt að nota hjálm á slíku hjóli en þeim má aka á gangstétt, hjólastíg eða gangstíg svo framarlega sem það veldur ekki hættu fyrir gangandi vegfarendur. Létt bifhjól í flokki II (45 km/klst.) eru hins vegar ætluð til aksturs á akbrautum og þurfa ökumenn að vera orðnir 15 ára og hafa staðist ökupróf. 
Svo eru það stóru mótorhjólin sem segja má að séu sérstakir boðberar sumarsins en þegar dagarnir lengjast á vorin fjölgar þeim verulega í umferðinni. Bifhjólaréttindi eru veitt í nokkrum flokkum eftir stærð og afli og gerð er ríkari krafa um öryggisbúnað, bæði hjólsins og ökumannsins.

Með flugi

Innanlands er flogið daglega milli Reykjavíkur og Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Reglulegar ferðir eru svo farnar milli annarra flugvalla á landsbyggðinni og Reykjavíkurflugvallar. Frá Akureyrarflugvelli eru farnar áætlunarferðir til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar, auk áfangastaða í Evrópu. Íbúar utan höfuðborgarsvæðisins sem eru með lögheimili fjarri borginni og á eyjum geta nýtt sér Loftbrú, sem bætir aðgengi þeirra að miðlægri þjónustu í höfuðborginni.

Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir (sex flugleggir) til og frá Reykjavík á ári.

Á ferðalagi getur ýmislegt komið upp á. Þannig kemur stundum fyrir að flugi er seinkað eða því aflýst, farþegum er neitað um far eða farangur skemmist. Í þeim aðstæðum er fyrsta skrefið að hafa samband við flugfélagið. Gangi það ekki tekur Samgöngustofa mál til skoðunar sem varða réttindi flugfarþega. Samgöngustofa tekur þá við kvörtun farþega og gefur út úrskurð þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir.

Á fjórum hjólum

Á höfuðborgarsvæðinu nær leiðakerfi Strætó yfir öll sveitarfélög á svæðinu þar sem ferðir eru á 10 til 30 mínútna fresti frá kl. 6:30 á morgnana til miðnættis alla daga. Strætó annast einnig áætlunarferðir á landsbyggðina þar sem ferðir eru farnar á þéttbýlisstaði hringinn í kringum landið. Miða í Strætó er hægt að kaupa á klappid.is. Í Reykjanesbæ ganga strætisvagnar einnig innanbæjar og sömu sögu er að segja á Akureyri og í sveitarfélaginu Árborg þar sem Árborgarstrætó gengur milli Selfoss, Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Á Íslandi ferðast þó flestir á einkabílum milli staða. Yngstu ökumennirnir eru orðnir 16 ára og þá á ferðinni með ökukennara eða í æfingaakstri með leiðbeinendum. Ökunám má hefja eftir 16 ára afmælisdaginn en fyrstu skrefin í náminu eru að finna ökukennara og sækja um námsheimild. Eftir nám í ökuskóla 1, ökuskóla 2 og ökuskóla 3 auk ökutíma má ökunemi svo þreyta bóklegt og verklegt próf áður en bráðabirgðaskírteini er veitt. Eftir 1–3 ár er svo hægt að sækja um fullnaðarskírteini. Við 70 ára aldur þarf svo að endurnýja ökuréttindi reglulega, fyrst til fimm ára í senn og á árs fresti eftir 80 ára aldur. 

Þegar við höfum fengið ökuskírteinið í hendurnar getur verið að við viljum kaupa okkur bíl til að fara á milli staða. Við kaup á notuðum bíl þarf að tilkynna eigendaskipti til Samgöngustofu. Það gerir seljandi rafrænt hér á Ísland.is, svo undirritar kaupandi rafrænt sömuleiðis og um leið eru eigendaskiptin skráð í ökutækjaskrá. Þegar eigendaskipti hafa verið skráð tekur nýi eigandinn við öllum skyldum sem tengjast því að eiga bíl, s.s. að láta skoða hann á tilætluðum tíma, tryggingum og greiðslu bifreiðagjalda.

Þegar ferðast er um Ísland á bíl, og þá sérstaklega á haustin og veturna, er mikilvægt að ganga úr skugga um að bíllinn sé vel útbúinn áður en lagt er af stað. Þá er einnig mikilvægt að skoða vel veðurspá og kanna færð á vegum. Slíkar upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofu Íslands, vef Vegagerðarinnar og í upplýsingasímanum 1777.

Bílar eru af ólíkum gerðum – og stærðum. Á hverjum einasta degi leggja flutningabílstjórar af stað í ferðir með vörur og varning milli landshluta og rútubílstjórar fara með ferðamenn í gullna demantshringi í leit að norðurljósum. Þessir atvinnubílstjórar eru auðvitað með meirapróf og ýmis önnur réttindi í atvinnuskyni, til dæmis til farþegaflutninga eða til flutninga á hættulegum farmi. Athugið að ferðamenn flokkast alls ekki sem hættulegur farmur.

Á sjó

Ferjusiglingar eru reglulegar milli lands og þeirra eyja sem búið er á í kringum Ísland. Herjólfur siglir frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja, sjö sinnum á dag alla daga. Baldur fer daglega frá Stykkishólmi í Flatey og yfir Breiðafjörð til Brjánslækjar yfir sumartímann en á veturna sunnudaga til föstudaga. Sæfari siglir frá Dalvík til Grímseyjar og Hríseyjar en til Hríseyjar siglir einnig ferjan Sævar frá Árskógssandi, sjö til níu sinnum á dag allt árið.

Fyrir utan þessar áætlunarferðir er einnig að finna ýmsar skoðunarferðir fyrir ferðamenn, til dæmis um Faxaflóa, Breiðafjörð, Ísafjarðardjúp, Eyjafjörð og Skjálfandaflóa.

Rétt eins og þegar uppákomur verða í flugi fer Samgöngustofa einnig með mál sem varða réttindi farþega í siglingum. Sé sigling felld niður eða henni frestað og ásættanleg niðurstaða næst ekki við flutningsaðila geta farþegar sent inn kvörtun til Samgöngustofu.