Fara beint í efnið

Bifreiðatryggingar og -gjöld

Bifreiðagjöld og iðgjöld skyldutrygginga eru fastur kostnaður sem fylgir því að reka bifreið.

Bifreiðatryggingar

Skylt er að tryggja allar bifreiðar hjá tryggingafélagi með ábyrgðar- og slysatryggingu.

Aðrar bifreiðatryggingar er frjálst að kaupa, til að mynda bílrúðu- og kaskótryggingar sem bæta tjón á eigin bifreið.

Ábyrgðartrygging bætir allt tjón sem aðrir verða fyrir af völdum ökutækis.

Slysatrygging greiðir ökumanni bifreiðar bætur ef hann slasast og eiganda hennar sé hann farþegi í eigin bíl.

Við eigendaskipti bifreiða getur kaupandi tilgreint hjá hvaða tryggingafélagi hann vill tryggja bílinn og er það tilkynnt viðkomandi félagi.

Bifreiðagjöld

Bifreiðagjald er skattur sem leggst á öll ökutæki sem skráð eru hér á landi. Upphæð gjaldsins fer eftir þyngd ökutækis.
Reiknivél og umfjöllun um bifreiðagjald á vef rsk.is.

Bifreiðagjald er greitt tvisvar á ári og annast ríkisskattstjóri innheimtu þess.

Séu bifreiðagjöld ekki greidd á tilskildum tíma mega lögregla og skoðunaraðilar klippa skráningarmerki af bifreið og er þá óheimilt að nota hana.

Þeir sem njóta örorku- eða umönnunarbóta geta átt rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds. Einnig ellilífeyrisþegar sem fá uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Um bifreiðagjald á vef rsk.is.
Bifreiðamál á vef tr.is.

Önnur gjöld

Úrvinnslugjald er lagt á öll ökutæki og innheimt árlega jafnhliða bifreiðagjaldi.
Úrvinnslugjald á vef rsk.is.

Kílómetragjald er innheimt vegna ökutækja og eftirvagna yfir vissri þyngd.
Kílómetragjald á vef rsk.is.

Umferðaröryggisgjald er greitt við hverja skoðun eða skráningu ökutækis og rennur til Samgöngustofu.

Bifreið má flytja tollfrjálst til landsins tímabundið að uppfylltum vissum skilyrðum.
Um undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda á vef Tollstjóra.

Til minnis

Gæta þess að tryggingu á seldum bíl sé sagt upp og að nýr bíll sé strax tryggður, til dæmis með því að tiltaka það á eigendaskiptatilkynningu.

Hætta er á að númer ökutækis sé klippt af séu bifreiðagjöld ekki greidd á tilskildum tíma.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir