Kaup og sala á ökutæki
Seljanda er skylt að upplýsa kaupanda um allt sem máli skiptir viðkomandi ökutækinu og kaupanda ber að kynna sér allt varðandi ökutækið. Eigendaskipti á ökutæki þarf að tilkynna til Samgöngustofu.
Gott að hafa í huga við kaup og sölu á bifreið
Að seljandi sé eigandi ökutækisins eða hafi umboð til sölu.
Fá upplýsingar um fyrri eigendur.
Fá upplýsingar um tjón og viðgerðir.
Láta ástandsskoða ökutækið hjá skoðunarstöð.
Fá upplýsingar um veðbönd sem hvíla á ökutækinu.
Upplýsingar um skráningu og feril eigin ökutækja er hægt að sækja á Mínum síðum á Ísland.is.
Kaupsamningur og afsal
Kaupandi og seljandi gera oft kaupsamning og afsal (oft sama skjalið). Samningurinn er eingöngu staðfesting þeirra á milli á viðskiptunum sem áttu sér stað (skjalið þarf ekki að berast Samgöngustofu eða annarri opinberri stofnun).
Eigendaskipti
Það er seljanda í hag að tilkynna um eigandaskipti sem fyrst, þar sem seljandi ber ábyrgð á bifreiðagjöldum, tryggingum og hugsanlegu tjóni og stöðugjöldum þar til tilkynningin hefur verið móttekin og skráð hjá Samgöngustofu.
Við skráningu eigendaskipta færist lögboðin ábyrgðartrygging ökutækis sjálfvirkt yfir til nýs eiganda og fellur niður hjá þeim gamla.
Skilyrði fyrir eigendaskiptum eru að
Bifreiðagjöld og önnur áhvílandi gjöld hafi verið greidd.
Eigendaskiptagjaldið að upphæð krónum 2.872 krónur sé greitt.
Uppgjör og afhending á ökutæki
Gott er að hafa í huga að
afhenda ekki ökutækið fyrr en kaupverð hefur verið greitt
ekki er skynsamlegt að semja um afborganir
Hafa eigendaskiptin gengið í gegn?
Ef eigendaskiptin eru tilkynnt rafrænt, samþykkir Samgöngustofa þau sjálfkrafa og uppfærir ökutækjaskrá.
Ef eigendaskiptin eru tilkynnt á pappír, getur úrvinnsla tekið nokkra daga.
Einstaklingar undir 18 ára
Einstaklingar yngri en 18 ára mega ekki selja, kaupa, né vera meðeigendur ökutækis nema með leyfi Sýslumanns. Sé einstaklingur undir 18 ára verður að skila tilkynningu um skráningu eiganda/meðeiganda á pappírsformi og leyfi Sýslumanns þarf að fylgja með.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa