Fara beint í efnið

Bifreiðakaup

Við kaup á bifreið er ráðlegt að kynna sér feril bílsins, eigendasögu, tjón og áhvílandi gjöld og veð hjá eiganda hans, sem hefur aðgang að þeim í ökutækjaskrá.

Bifreiðakaup og -sala

Bifreiðasalar bera ábyrgð á að viðskipti með ökutæki fari rétt fram og á að ganga frá öllum skjölum sem þeim viðkoma.

Þeir sem kaupa eða selja bifreiðar án milligöngu bifreiðasala hafa ekki jafn örugga réttarstöðu og þurfa að gæta þess að rétt sé staðið að samningsgerð og frágangi skjala.

Sölugögn

Kaupsamning og afsal á að gera á fullnægjandi eyðublöðum.

Eigendaskipti bifreiða verður að tilkynna Samgöngustofu. Tilkynninguna má einnig afhenda á skoðunarstofu. Nýr eigandi er þá skráður í ökutækjaskrá og fær sent nýtt skráningarskírteini.

Gæta verður þess að tilgreina tryggingafélag kaupanda á eigendaskiptatilkynningu. Seljandi verður jafnframt að segja upp gildandi tryggingu og gera upp við sitt tryggingafélag.

Við sölu bifreiðar hjá bifreiðasala verða eftirfarandi gögn að liggja fyrir en þeir sem kaupa eða selja án milligöngu bifreiðasala ættu eindregið að kynna sér þau:

  • Vottorð sem sannar að seljandi sé eigandi þess ökutækis sem selt er eða hafi umboð til sölunnar.

  • Skrá yfir fyrri eigendur.

  • Upplýsingar um tjón og viðgerðir.

  • Upplýsingar um veðbönd sem hvíla á ökutækinu.

Allar upplýsingar um skráningu og feril eigin ökutækja er hægt að sækja í ökutækjaskrá Samgöngustofu. Vissar upplýsingar um önnur ökutæki má fá gegn gjaldi hjá söluaðilum ökutækjaskrár.

Eigendaskráning
Eyðublöð á vef Samgöngustofu
Ökutækjaskrá á vef Samgöngustofu

Eigendur

Hægt er að skrá fleiri en einn eiganda að bifreið.

Þeir sem eru yngri en 18 ára mega ekki selja eða kaupa bifreið eða vera meðeigandi að bifreið nema með leyfi sýslumanns. Leyfið verður að fylgja tilkynningu um eigendaskipti til Samgöngustofu, ella eru eigendaskiptin ekki skráð.
Sýslumenn

Notuð ökutæki

Kaupendur notaðra ökutækja eiga rétt á að láta ástandsskoða ökutækið á eigin kostnað hjá óháðum aðila, án skuldbindinga um kaup. Ástandsskoðanir fara fram hjá faggiltum skoðunarstofum.

Notaða bíla, sem keyptir eru erlendis frá, þarf að nýskrá.

Skoðun ökutækja á vef Samgöngustofu

Til minnis

Kynna sér hvaða gagna á að afla og frágang skjala við kaup eða sölu á bifreið án milligöngu bifreiðasala.

Gæta sérstaklega að formlegum kaupsamningi, áhvílandi lánum, tilkynningum um eigendaskipti, tryggingum og þinglýsingu afsals.

Gott er að láta óháðan aðila ástandsskoða bílinn áður en af kaupum verður.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa