Kvartanir, athugasemdir og almenn erindi vegna heilbrigðisþjónustu
Kvörtun vegna látins einstaklings
Formlegar kvartanir aðstandenda vegna heilbrigðisþjónustu er varða látinn einstakling, eru teknar til rannsóknar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Embætti landlæknis ber að meta í hverju tilviki fyrir sig réttmæta aðild að kvartanamálum, þ.e. hverjum er heimilt að vera aðili málsmeðferðar kvartanamála vegna látinna einstaklinga.
Til nánari útskýringar:
Kveðið er á um upplýsingarétt aðila máls í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 16. og 17. gr. laganna er kveðið á um hvaða gögn geti talist undanþegin upplýsingarétti og takmörkun á þeim rétti. Í 17. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi í ákveðnum tilvikum heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Einkahagsmunir í þessu samhengi varða lögbundna vernd á friðhelgi einkalífs hins látna.
Í 15. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 er fjallað um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings. Þar segir m.a. að mæli ríkar ástæður með því er umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.
Ítarlegar heilsufarsupplýsingar sjúklings og sjúkraskrárupplýsingar koma fram í rannsókn kvörtunarmála og í áliti landlæknis, upplýsingar sem falla undir viðkvæmar persónuupplýsingar. Í samræmi við framangreint og lög um sjúkraskrár verður að meta það í hvert og eitt sinn hvort að aðstandendur, skuli fá aðgang án takmörkunar að sjúkraskrárupplýsingum, upplýsingum sem almennt er álitið að leynt skuli fara, undir rannsókn slíkra mála. Hið sama á við um aðgang þessara aðila að áliti landlæknis án takmörkunar.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis