Sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita og skal taka mið af ástandi hans, horfum og bestu þekkingu. Óheimilt er að mismuna sjúklingi á grundvelli kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu.
Réttindi sjúklinga
Sjúklingur á rétt á upplýsingum um eigið heilsufar, batahorfur, fyrirhugaða meðferð og önnur úrræði. Sjúklingur á rétt á að ákveða hvort hann þiggur meðferð.
Mikilvægt er að sjúklingar séu virkir þátttakendur og eftirlitsaðilar þegar kemur að eigin meðferð. Þannig stuðla þeir að öryggi sínu og þjónustan skilar betri árangri.
Sjúkraskrá hvers og eins er ýmist varðveitt á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni viðkomandi. Ef sjúklingur eða umboðsmaður hans vilja sjá sjúkraskrá eða hluta hennar er heilbrigðisstarfsmanni skylt að sýna hana.
Margt er hægt að gera til að efla eigið öryggi í heilbrigðisþjónustu, taka virkan þátt í og fylgjast vel með eigin meðferð eftir því sem ástand sjúklings leyfir og stuðla þannig að eigin öryggi og gæðum þjónustunnar.
Öryggi í heilbrigðisþjónustu
Þú ert miðdepillinn í þinni eigin heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga átt þú rétt á að leita álits annars heilbrigðisstarfsmanns um meðferð ástand og batahorfur. Einnig getur verið gott að ræða við aðra með sama heilbrigðisvanda.
Spurðu frekar of mikið en of lítið. Það er mikilvægt að þú skiljir t.d. ástæður rannsókna sem þú ferð í, niðurstöður þeirra og meðferð þína. Ekki sætta þig við svör sem þú skilur ekki. Málið snýst um heilsu þína og þú átt rétt á upplýsingum samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.
Kynntu þér það sem snýr að þér, svo sem sjúkdómsgreiningu, svör úr rannsóknarniðurstöðum og meðferðaráætlun. Aflaðu upplýsinga um heilsufarsvanda þinn, í bæklingum og á viðurkenndum vefsíðum.
Skrifaðu niður mikilvægar upplýsingar og minnisatriði og einnig spurningar sem þú kannt að hafa, svo þú gleymir ekki að spyrja þeirra.
Fylgstu með þeirri heilbrigðisþjónustu sem þú færð. Fullvissaðu þig um að þú fáir rétt lyf og rétta meðferð. Ekki gera ráð fyrir að allt gangi snurðulaust fyrir sig. Ef þú ert ekki fær um að fylgjast með lyfjagjöf fáðu þá aðstandendur í lið með þér.
Taktu eftir handþvotti heilbrigðisstarfsfólks, þar sem handþvottur er mikilvægasta leiðin til að draga úr sýkingum. Það sama á við um þá sem koma í heimsókn til þín á stofnun. Bentu fólki vinsamlega á að þvo sér um hendurnar.
Segðu frá daglegum venjum þínum og lifnaðarháttum. Mikilvægt er að láta vita hvaða lyf þú tekur, um hugsanlegt ofnæmi, mataræði þitt og hvort þú ert í annars konar meðferð, s.s. óhefðbundinni meðferð.
Gott getur verið að hafa einhvern með þér þegar þú ferð í viðtal hjá heilbrigðistarfsmanni eða vegna dvalar á heilbrigðisstofnun. Sá hinn sami getur fylgst með og spurt frekari spurninga og gætt réttar þíns.
Ef þú vilt ekki eða treystir þér ekki til að tala við heilbrigðisstarfsfólk vegna rannsókna eða niðurstaðna þeirra getur þú tilnefnt annan í þinn stað.
Aflaðu þér upplýsinga um framhaldsmeðferð þegar heim er komið og hvað þú átt sjálf/sjálfur að gera varðandi meðferð þína.
Gakktu úr skugga um að heilbrigðisstarfsfólk viti hver þú ert – skoði til dæmis auðkennisarmband þitt eða spyrji þig að nafni – áður en það gefur þér lyf.
Vertu ekki hrædd(ur) við að láta heilbrigðisstarfsfólk vita ef þú ert ekki viss um að verið sé að gefa þér rétt lyf.
Kynntu þér á hvaða tíma þú átt að fá lyfin þín. Láttu í þér heyra ef þú færð þau ekki á réttum tíma.
Láttu heilbrigðisstarfsfólk vita ef þú finnur fyrir vanlíðan eftir lyfjagjöf. Óskaðu strax eftir aðstoð ef þú telur að aukaverkanir eða ofnæmi vegna lyfja séu að koma fram.
Ef þú færð lyf í æð (innrennslislyf), kynntu þér þá hvaða lyf það er. Kynntu þér einnig hversu langan tíma lyfjagjöfin á að taka og láttu vita ef lyfið rennur of hratt eða of hægt inn.
Vertu með lista yfir öll lyf sem þú tekur og sannreyndu að þú fáir þau öll.
Ef þú ert ekki fær um að fylgjast með lyfjagjöf fáðu þá aðstandendur í lið með þér.
Trúnaðar- og þagnarskylda
Allt starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar er bundið þagnarskyldu gagnvart sjúklingi. Undantekningu má gera ef ljóst þykir að þagnarskylda valdi meiri skaða en að rjúfa hana.