Notendur heilbrigðisþjónustu geta sent erindi eða kvörtun til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu. Sérfræðingar á sviði eftirlits og gæða fara yfir innsend erindi eða kvartanir og meta með tilliti til málsmeðferðar. Erindi og kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu eru skilgreind með eftirfarandi hætti, sjá nánar liði A og B.
Athugasemdir vegna þjónustu og/eða framkomu heilbrigðisstarfsfólks á heilbrigðisstofnun skal senda beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar eða starfstofu heilbrigðisstarfsmanns, sjá nánar lið C.
Eyðublað fyrir erindi vegna heilbrigðisþjónustu
Embætti landlæknis er skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim um málefni heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
Dæmi um erindi sem beina skal til annarra stofnana. Listi er ekki tæmandi
Bætur fyrir líkamlegt eða geðrænt heilsutjón sem verður vegna meðferða, slysa eða rannsókna skal beint til Sjúkratrygginga / sjúklingatrygging.
Tilkynning um aukaverkanir lyfja skal beint til Lyfjastofnunar.
Tilkynning um skort á lyfjum skal beint til Lyfjastofnunar.
Hegningarlagabrot, þar með talið kynferðisbrot skal beint til lögreglu.
Eyðublað fyrir kvörtun vegna heilbrigðisþjónustu
Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu samkvæmt 12. gr. laga um kvörtun til landlæknis.
Embætti landlæknis ákveður hvort kvörtun gefi nægar ástæður til rannsóknar og hvort líklegt sé að niðurstöður rannsóknar geti leitt til aukinna gæða og aukins öryggis heilbrigðisþjónustu.
Mikilvægt er að rökstyðja í hverju mistök og/eða vanræksla felst með viðeigandi sjúkraskrárgögnum.
Kvörtun skal senda til embættis landlæknis án ástæðulauss dráttar. Séu meira en fjögur ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að kvörtun sé tekin til meðferðar.
Embætti landlæknis upplýsir um framvindu og niðurstöður máls innan hæfilegs tíma.
Embætti landlæknis styðst við eftirfarandi skilgreiningar á mistökum og/eða vanrækslu við rannsókn kvartana
Mistök í samhengi 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu taka að jafnaði til rangrar athafnar eða verulegs fráviks í framkvæmd heilbrigðisþjónustu, sem þar af leiðandi fer úrskeiðis miðað við það sem almennt er viðurkennt sem rétt framkvæmd innan viðkomandi heilbrigðisgreinar eða viðtekið í samræmi við tiltekinn staðal, t.d. klínískar leiðbeiningar. Eða þá eitthvað það sem hefði verið mögulegt að framkvæma eða leiðrétta með öðrum hætti til að forðast meint mistök. Til að kveða upp úr um mistök í greiningu eða meðferð þarf að sýna fram á að slík atvik eða frávik í greiningu og meðferð, hafi farið úrskeiðis, með sannanlegum hætti á grundvelli líklegs orsakasambands, enda hafi aðrar nærtækari og líklegri skýringar ekki komið fram.
Vanræksla í samhengi 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu tekur að jafnaði til ámælisverðs athafnaleysis, hirðuleysis eða fráviks sem varð þegar einhver athöfn sem óumdeilanlega bar að gera samkvæmt góðri læknisvenju í tæka tíð eða samkvæmt faglegu viðmiði, en var ekki hirt um eða það látið hjá líða af ómálefnalegum ástæðum. Til að kveða upp úr um vanrækslu í starfi þarf að sýna fram á slík frávik í veitingu í heilbrigðisþjónustu, sem talin eru hafa farið úrskeiðis vegna vanrækslu, með sannanlegum hætti á grundvelli líklegs orsakasambands, enda hafi aðrar nærtækari og líklegri skýringar ekki komið fram.
Notendur heilbrigðisþjónustu hafa rétt til þess að gera athugasemdir vegna þjónustu eða framkomu heilbrigðisstarfsfólks á heilbrigðisstofnun, starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Slík erindi á að senda til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar eða starfsstofu sem er skylt að svara skriflega sem fyrst.
Berist embætti landlæknis athugasemdir við þjónustu mun erindið vera sent til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar eða starfstofu til meðferðar og afgreiðslu.
Dæmi um athugasemdir við þjónustu sem beina skal til viðkomandi heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu. Listi er ekki tæmandi
Athugasemd vegna lyfjaendurnýjunar fyrir ólögráða barn sem getur ekki sinnt samskiptum sjálft.
Langur biðtími eftir meðferð, þjónustu, aðgerð, rannsókn.
Óánægja með framkomu heilbrigðisstarfsfólks.
Þjónusta á heilbrigðisstofnun er ófullnægjandi til dæmis hvað varðar mönnun heilbrigðisstarfsfólks, aðbúnað, umönnun eða félagslega þætti.