Notendur heilbrigðisþjónustu geta sent formlega kvörtun, athugasemd eða almenn erindi til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu.
Sérfræðingar hjá embætti landlæknis fara yfir erindi sem berast og meta í hvaða málsfarveg þau fara. Kvartanir, athugasemdir og almenn erindi vegna heilbrigðisþjónustu eru flokkuð með eftirfarandi hætti:
Eyðublað fyrir kvartanir og athugasemdir til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu
Notendur heilbrigðisþjónustu geta sent formlega kvörtun til embættis landlæknis ef þeir telja að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað þegar heilbrigðisþjónusta var veitt.
Mikilvægt er að rökstyðja í hverju mistök og/eða vanræksla felst með viðeigandi sjúkragögnum.
Dæmi - mistök eða vanræksla
Röng meðferð beinbrots (hugsanleg mistök)
Niðurstöðu rannsóknar ekki fylgt eftir (hugsanleg vanræksla)
Eyðublað fyrir kvartanir og athugasemdir til embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu
Notendur heilbrigðisþjónustu hafa samkvæmt lögum rétt til þess að gera athugasemdir við þjónustu heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisstarfsfólks. Lögin segja að slíkum erindum skuli beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar / starfstofu sem er skylt samkvæmt lögunum að svara skriflega án ónauðsynlegra tafa.
Berist embætti landlæknis erindi, sem ekki falla undir lið A hér að ofan en geta talist athugasemd við þjónustu, eru þau framsend til yfirstjórnar / yfirmanns viðkomandi stofnunar / starfstofu til meðferðar og afgreiðslu.
Dæmi - athugasemdir við þjónustu sem beina skal til viðkomandi heilbrigðisstofnunar / starfsstofu
Athugasemdir eða beiðnir um sjúkraskrár. Afhending sjúkraskrár eða beiðni um leiðréttingu á skráningu í sjúkraskrá skal beina til viðkomandi þjónustuaðila þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Nánari leiðbeiningar varðandi sjúkraskrármál.
Athugasemdir við ónóga mönnun faglærðs heilbrigðisstarfsfólks.
Athugasemd vegna lyfjaendurnýjunar fyrir ólögráða barn sem getur ekki sinnt samskiptum sjálft.
Fyrirspurnir vegna biðtíma til læknis, biðtíma eftir aðgerð.
Langur biðtími eftir aðgerð, meðferð, þjónustu.
Óánægja með viðmót starfsfólks.
Þjónusta á öldrunarstofnun er skert eða slæm hvað varðar aðbúnað, umönnun eða félagslega þætti.
Embætti landlæknis er skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu. Þá ber embætti landlæknis að leiðbeina þeim sem leita til embættisins um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Slíkum erindum er svarað í samræmi við efni þeirra svo fljótt sem auðið er.
Dæmi um erindi sem beina skal til annarra stofnana
Bætur fyrir líkamlegt eða geðrænt heilsutjón sem verður vegna meðferðar eða rannsóknar - Slys og sjúklingatrygging