Fara beint í efnið

Aðgangur að sjúkraskrá

Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem skráðar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun, t.d. sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð, eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, t.d. læknastofu, tannlæknastofu og sálfræðistofu. Þetta á við um allar heilbrigðisstofnanir og einkastofur þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, með eða án greiðsluþátttöku ríkisins, og heilbrigðisstarfsmenn vinna.

Undir sjúkraskrárupplýsingar falla lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.

Sjúkraskrá er geymd hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun eða starfstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem hún er færð en þessir aðilar eru ábyrgðaraðilar sjúkraskráa. Umsjónaraðili sjúkraskráa er læknir, eða annar heilbrigðisstarfsmaður, sé lækni ekki til að dreifa, sem ábyrgðaraðili hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga séu í samræmi við lög um sjúkraskrár. Heilbrigðisstarfsmaður sem starfar einn á stofu telst umsjónaraðili þeirra sjúkraskráa sem hann færir. Reglur um færslu sjúkraskráa, varðveislu, aðgang og eftirlit eru að finna í lögum um sjúkraskrár og reglugerð um sjúkraskrár.

Tengt efni

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis