Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem skráðar eru í tengslum við meðferð eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun, til dæmis sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð, eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, til dæmis læknastofu, tannlæknastofu og sálfræðistofu. Þetta á við um allar heilbrigðisstofnanir og einkastofur þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, með eða án greiðsluþátttöku ríkisins, og heilbrigðisstarfsmenn vinna.
Undir sjúkraskrárupplýsingar falla lýsing, túlkun eða aðrar upplýsingar, hvort sem um er að ræða pappírsgögn eða stafrænar upplýsingar, þar með talið myndgreiningar, rannsóknarniðurstöður og hvers konar myndefni, hljóð- og myndupptökur eða gögn úr rannsóknum, er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.
Sjúkraskrá er geymd hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun eða starfstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem hún er færð en þessir aðilar eru ábyrgðaraðilar sjúkraskráa. Umsjónaraðili sjúkraskráa er læknir, eða annar heilbrigðisstarfsmaður, sé lækni ekki til að dreifa, sem ábyrgðaraðili hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga séu í samræmi við lög um sjúkraskrár. Heilbrigðisstarfsmaður sem starfar einn á stofu telst umsjónaraðili þeirra sjúkraskráa sem hann færir.
Sjúklingur, eða umboðsmaður hans, á rétt á að fá afhent afrit af eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta.
Beiðni um afrit af eigin sjúkraskrá skal send til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar þar sem hún var færð og er geymd. Umsjónaraðila sjúkraskrár ber að verða við beiðnum sjúklinga um afrit af eigin sjúkraskrá án ástæðulauss dráttar.
Sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar, sem eru hafðar eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum, skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar sjúklingnum. Ef sá sem þannig hefur veitt upplýsingar um sjúkling er látinn eða horfinn eða neitar á óréttmætum grundvelli að veita samþykki sitt getur landlæknir ákveðið að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, í heild eða að hluta. (Breyting verður gerð á þessu ákvæði 1. desember 2026)
Sjúklingur á rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafa aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi.
Breytingar á lögum um sjúkraskrár voru samþykktar á Alþingi 19. nóvember 2025. Breytingarnar fela í sér eftirfarandi nýmæli:
umsjónaraðila sjúkraskrár er heimilt að fela öðrum að sjá um afritun sjúkraskrárgagna
sjúklingur greiðir kostnað sem hlýst af afritun skjalanna
ráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir vinnu við yfirferð sjúkraskrár fyrir afhendingu og afritun sjúkraskrárgagna sem afhent eru samkvæmt lögum um sjúkraskrár
ef fyrirsjáanlegt er að kostnaður við yfirferð sjúkraskráa og afritun, þ.m.t. afritun stafrænna gagna, verði meiri en 10.000 kr. er heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu.
Umsjónaraðili sjúkraskrár hefur heimild til að veita nánum aðstandanda, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, afrit af sjúkraskrá hins látna ef brýnar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veita skuli afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal hafa hagsmuni aðstandanda sem óskar eftir slíku afriti til hliðsjónar en einnig vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.
Beiðni um afrit af sjúkraskrá látins sjúklings þarf að beina til umsjónaraðila sjúkraskrár þar sem hinn látni hefur fengið heilbrigðisþjónustu.
Aðeins heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að sjúkraskrá sjúklingsins með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum laga um sjúkraskrár.
Sjúkraskrár hafa geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og eru trúnaðarmál. Öllum heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að halda trúnað um öll þau atriði sem þar koma fram, einnig eftir andlát sjúklings, og þó starfsmaður láti af störfum.
Ef sjúklingi er synjað um afrit af sjúkraskrá í heild eða hluta á hann rétt á að bera synjun um afrit undir embætti landlæknis.
Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda afrit af sjúkraskrá látins einstaklings. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.
Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og ekki er hægt að skjóta þeim til ráðherra.