Sjúkraskrá er safn sjúkraskrárupplýsinga um sjúkling sem skráðar eru í tengslum við meðferð, eða fengnar annars staðar frá vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun, t.d. sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, t.d. læknastofu, tannlæknastofu og sálfræðistofu. Þetta á við um allar stofnanir og einkastofur þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, með eða án greiðsluþátttöku ríkisins, og heilbrigðisstarfsmenn vinna. Sjúkraskrárupplýsingar geta verið lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgenmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar um heilsufar sjúklings og meðferð hans og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.
Við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skal mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga virtur. Þess skal gætt að í sjúkraskrám eru viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar eru trúnaðarmál.
Reglur um færslu sjúkraskráa, varðveislu, aðgang og eftirlit eru að finna í lögum um sjúkraskrár og reglugerð um sjúkraskrár.
Sjúkraskrá er geymd hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun eða starfstofu heilbrigðisstarfsmanna þar sem hún er færð. Þessir aðilar eru ábyrgðaraðilar sjúkraskráa og bera ábyrgð á því að varðveisla sjúkraskráa sé í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrár. Ábyrgðaraðilar sjúkraskráa skulu varðveita sjúkraskrár þar til þær eru afhentar embætti landlæknis eða Þjóðskjalasafni sbr. lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014., sjá einnig upplýsingar um afhendingu sjúkraskráa á vef Þjóðskjalasafns.
Umsjónaraðili sjúkraskrár er læknir, eða annar heilbrigðisstarfsmaður, sé lækni ekki til að dreifa, sem ábyrgðaraðili hefur falið að hafa eftirlit með og sjá um að skráning og meðferð sjúkraskrárupplýsinga séu í samræmi við lög um sjúkraskrár. Heilbrigðisstarfsmaður sem starfar einn á stofu telst umsjónaraðili þeirra sjúkraskráa sem hann færir. Um ábyrgðaraðila sjúkraskrár sjá svar við spurningu 2.
Þú eða umboðsmaður þinn getur ákveðið, þegar þú færð meðferð, að sjúkraskrárupplýsingar vegna hennar verði ekki aðgengilegar öðrum en þeim sem skráir og umsjónaraðila sjúkraskrárinnar og eftir atvikum, öðrum tilteknum heilbrigðisstarfsmönnum. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta þó fengið aðgang að sjúkraskrá ef það telst nauðsynlegt vegna meðferðar þinnar og þarf þá að upplýsa þig um það og um að synjun um að heimila nauðsynlegan aðgang að sjúkraskránni geti jafngilt því, eftir atvikum, að meðferð hafi verið hafnað, samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.
Þú eða umboðsmaður þinn getur látið skrá athugasemd í sjúkraskrá ef þú telur að upplýsingar þar séu rangar eða villandi. Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimilt með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá þinni enda sé þess gætt að ekki glatist upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna réttarágreinings.
Neiti umsjónaraðili að leiðrétta sjúkraskrárupplýsingar sem þú telur bersýnilega rangar eða villandi getur þú skotið þeirri synjun til landlæknis með kæru. Óheimilt er að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá þinni nema með samþykki landlæknis. Ákvarðanir landlæknis um leiðréttingu sjúkraskrárupplýsinga eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.
Óheimilt er að eyða upplýsingum í sjúkraskrám nema með samþykki landlæknis. Sýna þarf fram á að upplýsingarnar séu bersýnilega rangar eða villandi til að það komi til greina að þeim sé eytt. Þessi heimild er túlkuð þröngt sem þýðir að nokkuð mikið þarf að koma til svo færslum sé eytt.
Beiðni um að upplýsingum í sjúkraskrá sé eytt skal beina til umsjónaraðila sjúkraskrár og gera þarf skýra og rökstudda grein fyrir beiðninni. Um umsjónaraðila sjúkraskrár sjá svar við spurningu 3.
Fallist umsjónaraðili á beiðnina sendir hann landlækni erindi um það ásamt nauðsynlegum fylgigögnum sem útskýra málið, áður en upplýsingunum er eytt. Fallist umsjónaraðili ekki á að eyða upplýsingunum á hann að svara skriflega og benda á að heimilt sé að kæra synjunina til landlæknis. Ákvarðanir landlæknis um eyðingu sjúkraskrárupplýsinga eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.
Þú eða umboðsmaður þinn eigið rétt á aðgangi að sjúkraskrá þinni í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. Beiðni þar að lútandi skal beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar.
Sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en þér sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar þér. Ef sá sem þannig hefur veitt upplýsingar um þig er látinn eða horfinn eða neitar á óréttmætum grundvelli að veita samþykki sitt getur landlæknir ákveðið að þér eða umboðsmanni þínum skuli veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, í heild eða að hluta.
Fáir þú synjun um aðgang að sjúkraskrá getur þú borið hana undir landlækni. Ákvarðanir landlæknis um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.
Þú átt rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá þinni, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi. Um umsjónaraðila sjúkraskrár sjá svar við spurningu 3.
Heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að sjúkraskrá þinni með ákveðnum lögbundnum takmörkunum. Umsjónaraðili sjúkraskráa getur veitt öðrum starfsmönnum og nemum í starfsnámi í heilbrigðisvísindum, sem undirgengist hafa sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn og koma að meðferð þinni, heimild til aðgangs að sjúkraskrá þinni að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfa þeirra í þína þágu.
Aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum, þ.e. sjúkraskrárupplýsingum sem þú sjálfur telur að flokka beri sem slíkar, skal takmarkaður við heilbrigðisstarfsmenn sem nauðsynlega þurfa upplýsingarnar vegna meðferðar þinnar. Aðgangur að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum skal að jafnaði takmarkaður við þá heilbrigðisstarfsmenn sem starfa innan þeirrar einingar eða deildar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem meðferð er veitt. Aðgangur annarra heilbrigðisstarfsmanna að sérstaklega viðkvæmum sjúkraskrárupplýsingum er óheimill nema með þínu samþykki. Heimilt er að víkja frá framangreindum aðgangstakmörkunum ef það telst nauðsynlegt vegna öryggis heilbrigðisstarfsmanna.
Þú eða umboðsmaður þinn getur lagt bann við því að tiltekinn starfsmaður eða starfsmenn, þ.m.t. nemar í starfsnámi, hafi aðgang að sjúkraskrá þinni. Ef það er nauðsynlegt vegna meðferðar þinnar að hinir tilteknu starfsmenn eða nemar hafi aðgang að sjúkraskrá sjúklings skal upplýsa þig um það og jafnframt að synjun um að heimila nauðsynlegan aðgang að sjúkraskránni geti jafngilt því, eftir atvikum, að þú hafnir meðferð, sbr. lög um réttindi sjúklinga.
Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu um persónulegar upplýsingar sem þeir komast að í starfi sínu, þ.m.t. sjúkraskrárupplýsingar.
Meginreglan er sú að aðgangur að sjúkraskrám er óheimill, nema sérstök lagaheimild segi annað.
Umsjónarmaður sjúkraskrár getur veitt nánum aðstandendum látins einstaklings svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hans sé þess óskað ef brýnar ástæður mæla með því. Um er að ræða þrönga heimild og við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann. Ósk um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal beina til umsjónaraðila sjúkraskrár á þeirri stofnun eða stofnunum sem um ræðir. Þegar um Landspítala er að ræða er hægt að óska eftir aðgangi á Beiðni um afrit úr sjúkraskrá aðstandenda - Landspítali (landspitali.is). Vera má að sjúkraskrá hafi verið afhent Þjóðskjalasafni og þá þarf að leita þangað. Mikilvægt er að rökstyðja beiðnina vel. Um umsjónaraðila sjúkraskrár sjá svar við spurningu 3.
Synji umsjónaraðili sjúkraskrár um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir landlækni. Ákvarðanir landlæknis um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til ráðherra.
Heilbrigðisyfirvöld, sem lögum samkvæmt fá til umfjöllunar kvörtun eða kæru sjúklings eða umboðsmanns hans vegna meðferðar sjúklingsins, eiga rétt til aðgangs að sjúkraskrá viðkomandi með sama hætti og sjúklingurinn sjálfur.
Um aðgang að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna fer samkvæmt lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Sjúklingur eða umboðsmaður hans getur lagt bann við því að sjúkraskrárupplýsingar hans séu varðveittar persónugreinanlegar í safni heilbrigðisupplýsinga til notkunar í vísindarannsóknum og skal það þá skráð í sjúkraskrá hans.
Ábyrgðar- og umsjónaraðilar sjúkraskráa skulu hafa virkt eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga um sjúkraskrár. Umsjónaraðili sjúkraskráa hefur rétt til aðgangs að sjúkraskrám að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsins. Um ábyrgðar- og umsjónaraðila sjúkraskráa sjá svar við spurningum 2 og 3.
Landlæknir hefur, eftir því sem við á, eftirlit með því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt. Telji sjúklingur t.d. að heilbrigðisstarfsmaður hafi skoðað sjúkraskrá hans án heimildar eða brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu getur hann sent embætti landlæknis kvörtun þar að lútandi.
Persónuvernd hefur eftirlit með öryggi og vinnslu persónuupplýsinga í sjúkraskrám í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd getur úrskurðað um ágreining um aðgang að sjúkraskrá á grundvelli þeirra laga.
Leiði eftirlit í ljós að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn persónuverndarhagsmunum sjúklings skal brot kært til lögreglu.
Krufningarskýrslur eru annað hvort vegna sjúkrahúskrufningar eða réttarkrufningar. Ef um sjúkrahúskrufningu er að ræða þá er krufningarskýrslan hluti af sjúkraskrá hins látna. Réttarkrufning fer fram að ákvörðun lögreglu og er réttarkrufningarskýrslan í vörslu lögreglunnar.
Sjúkraskrár, þar með talið skýrslur vegna sjúkrahúskrufninga, eru varðveittar þar sem sjúkraskráin verður til og þangað þarf að leita eftir aðgangi að þeim. Sjá svar við spurningu 2.
Um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings er fjallað í svari við spurningu 10.
Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem reka eigin starfstofu ber að varðveita sjúkraskrár með sama hætti og heilbrigðisstofnanir, sjá svar við spurningu 2. Þegar þessir aðilar hætta rekstri starfstofu ber þeim að afhenda sjúkraskrárnar til embættis landlæknis eða Þjóðskjalasafns, sbr. lög um opinber skjalasöfn, og er hægt að óska eftir aðgangi að þeim þar.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis