Já. Þú átt rétt á því að fá afrit af sjúkraskrá þinni.
Í lögunum er einnig tekið fram að neita megi sjúklingi um afrit af sjúkraskrá ef það er ekki talið þjóna hagsmunum hans.
Ef heilbrigðisstofnun neitar að afhenda sjúkraskrárgögn er hægt að bera synjunina undir embætti landlæknis.
Þú sendir beiðni til þeirrar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna þar sem þjónustan fór fram og tilgreinir hvaða tímabili af sjúkraskrá þinni þú óskar eftir.
Ef brýnar ástæður mæla með því er heimilt að afhenda nánum aðstandanda afrit af sjúkraskrá látins einstaklings.
Hafa þarf í huga að sjúkraskrár innihalda oft afar viðkvæmar persónuupplýsingar. Mjög miklir hagsmunir þurfa því að vera til staðar fyrir þann sem óskar upplýsinga úr sjúkraskrá látins einstaklings þannig að hægt sé að líta svo á að brýnar ástæður séu fyrir því að afhenda slík gögn.
Þú sendir beiðni til þeirrar heilbrigðisstofnunar eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns þar sem þjónustan fór fram og tilgreinir hvaða tímabili af sjúkraskrá hins látna þú óskar eftir.
Þegar óskað er eftir upplýsingum úr sjúkraskrá látins einstaklings er mikilvægt að taka fram:
Hvernig þú tengist hinum látna.
Hvaða ríku hagsmuni þú hefur af því að fá umbeðnar upplýsingar afhentar.
Já þú átt rétt á því. Þú sendir beiðni til þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem þjónustan fór fram.
Ef þú hefur leitað til heilbrigðisstofnunar er gott að hafa í huga að sjúkraskrár eru nauðsynlegt vinnutæki heilbrigðisstarfsfólks. Það er því eðlilegt að hverri heimsókn á heilbrigðisstofnun fylgi fjölmargar opnanir í sjúkraskrá, enda er heilbrigðisstarfsfólki skylt að skrá allt sem viðkemur veitingu heilbrigðisþjónustu. Það er ekki eingöngu heilbrigðisstarfsmaðurinn sem á í beinum samskiptum við þig sem þarf að opna sjúkraskrá þína heldur getur fjölmargt annað heilbrigðisstarfsfólk komið að þjónustunni án þess að þú hittir það. Þar má til dæmis nefna sérfræðinga sem lesa úr niðurstöðum rannsókna, sérfræðinga sem veita álit vegna sjúkdómsgreininga og heilbrigðisgagnafræðinga sem skrá upplýsingar um heimsókn þína.
Sjúkraskrá er safn upplýsinga sem til verða þegar sjúklingur leitar heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnun, t.d. sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili og heilsugæslustöð eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns, til dæmis læknastofu, tannlæknastofu og sálfræðistofu. Þetta á við um allar stofnanir og einkastofur þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, með eða án greiðsluþátttöku ríkisins, og heilbrigðisstarfsmenn vinna.
Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að skrá sjúkraskrárupplýsingar í sjúkraskrá sjúklings.
Sjúkraskrár eru fyrst og fremst nauðsynlegt vinnutæki heilbrigðisstarfsfólks vegna heilbrigðisþjónustu og til að miðla upplýsingum til annars heilbrigðisstarfsfólks sem þarf á þeim að halda vegna meðferðar sjúklings.
Mikilvægt er að safna upplýsingum vegna meðferðar sjúklings saman á einn stað til að tryggja samfellu í þjónustu svo hún verði markviss og örugg. Nákvæm sjúkraskrá og aðgengilegar sjúkraskrárupplýsingar tryggja eins og unnt er að réttar ákvarðanir séu teknar um meðferð sjúklings.
Skráning í sjúkraskrá er nauðsynleg til að hægt sé að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu, halda heilbrigðisskrár og vinna að gæðaþróun og gæðaeftirliti innan stofnana, starfsstofa og heilbrigðiskerfisins í heild.
Helstu heimildir til að opna sjúkraskrár eru:
Aðgangur sjúklings að eigin sjúkraskrá. Sjá umfjöllun í liðum 1 og 2.
Aðgangur heilbrigðisstarfsfólks. Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að skrá upplýsingar um veitta þjónustu í sjúkraskrána þína. Heilbrigðisstarfsfólk verður því að opna hana. Þá má heilbrigðisstarfsfólk einnig skoða hvað stendur í sjúkraskrá þinni ef upplýsingar þar eru nauðsynlegar vegna þeirrar þjónustu sem veita á.
Aðgangur að sjúkraskrá látins einstaklings. Sjá umfjöllun í liðum 3 og 4.
Aðgangur heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöldum sem lögum samkvæmt fá til umfjöllunar kvörtun eða kæru sjúklings eða rannsaka atvik í heilbrigðisþjónustu er heimill les- og afritunaraðgangur að rafrænum sjúkraskrám sjúklings sem kvörtun, kæra eða rannsókn á atviki varðar, að því marki sem nauðsyn krefur.
Aðgangur vegna vísindarannsókna. Lög um vísindarannsóknir gilda um slíkar rannsóknir. Sjúklingur getur bannað að sjúkraskrárupplýsingar hans séu notaðar vegna vísindarannsókna. Ef þú vilt banna aðgang skal beina beiðni til heilbrigðisstofnunar sem skráir það í sjúkraskrá þína.
Sjúkraskrá er geymd hjá þeirri heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsfólks þar sem þjónusta var veitt og sjúkraskrárupplýsingar skráðar.
Í lögunum eru heilbrigðisstofnanirnar eða starfsstofur kallaðar ábyrgðaraðilar sjúkraskráa. Ábyrgðaraðilar bera ábyrgð á þeim gögnum sem eru sjúkraskrárkerfum.
Það er sá aðili sem ber ábyrgð á að hafa eftirlit með því að meðferð sjúkraskrárupplýsinga í tilteknu sjúkraskrárkerfi sé í samræmi við lög um sjúkraskrár.
Sú ábyrgð nær m.a. til skráningar sjúkraskrárupplýsinga, vinnslu persónuupplýsinga, aðgangs að sjúkraskrárkerfum, afhendingu sjúkraskrárgagna og eftirliti með uppflettingum í sjúkraskrár.
Umsjónaraðili er tilnefndur af ábyrgðaraðila sjúkraskrár.
Sjúklingur á rétt á því að takmarka aðgang heilbrigðisstarfsfólks að tilteknum upplýsingum í sjúkraskrá. Þá getur sjúklingur einnig bannað að tiltekið heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að sjúkraskrá sinni.
Ef aðgangur heilbrigðisstarfsfólks að sjúkraskrárupplýsingum er takmarkaður er mikilvægt fyrir sjúkling að hafa í huga að slík takmörkun getur jafngilt því að meðferð sé hafnað, með meðfylgjandi ógn við öryggi sjúklings, enda takmarkast þá aðgengi heilbrigðisstarfsfólks að þeirra helsta vinnutæki, sem er sjúkraskrá sjúklings.
Ef þú vilt takmarka aðgang heilbrigðisstarfsfólks að sjúkraskrárupplýsingum skal beina slíkri beiðni til viðkomandi heilbrigðisstofnunar.
Ef þú telur að upplýsingar í sjúkraskrá séu rangar eða villandi, þá getur þú óskað eftir því að athugasemd þess efnis sé skráð í sjúkraskrá þína. Ef augljóst er að upplýsingar í sjúkraskrá eru rangar eða villandi getur verið heimilt að leiðrétta þær, að því gefnu að engar nauðsynlegar upplýsingar glatist. Óheimilt er að eyða upplýsingum í sjúkraskrá án samþykkis landlæknis.
Til þess að til álita komi að leiðrétta, breyta eða eyða upplýsingum í sjúkraskrám þarf að sýna fram á að upplýsingarnar séu bersýnilega rangar eða villandi. Þessi heimild er túlkuð þröngt sem þýðir að óyggjandi sannanir þurfa að liggja fyrir svo til greina komi að leiðrétta eða breyta færslum í sjúkraskrá. Hið sama á við um eyðingu úr sjúkraskrá og ljóst að nokkuð mikið þarf að koma til svo færslum í sjúkraskrá sé eytt.
Ef þú hefur athugasemd við upplýsingar í sjúkraskrá skal beina slíkri athugasemd til viðkomandi heilbrigðisstofnunar.
Þú getur skotið synjun heilbrigðisstofnunar um leiðréttingu í sjúkraskrá og/eða neitun um afhendingu gagna, til embættis landlæknis.
Heilbrigðisstofnanir bera ábyrgð á því að viðhaft sé innra eftirlit með skráningu og meðferð sjúkraskrárupplýsinga og hefur rétt til aðgangs að sjúkraskrám að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsins.
Landlæknir hefur eftirlit með því að ákvæði laga um sjúkraskrár séu virt í samræmi við ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007.
Persónuvernd hefur eftirlit með öryggi og vinnslu persónuupplýsinga í sjúkraskrám samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, að gættum ákvæðum laga um sjúkraskrár.
Brot gegn ákvæðum laga um sjúkraskrár og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Landlækni er heimilt að kæra brot á lögum um sjúkraskrár til lögreglu. Meiri háttar brotum ber embættinu að vísa til lögreglu.
Ef grunur leikur á því að ákvæði laga um sjúkraskrá hafi verið brotin er hægt að beina kvörtunum til heilbrigðisstofnunar þar sem meint brot átti sér stað, til embættis landlæknis, Persónuverndar eða til lögreglu.
Krufningarskýrslur eru annað hvort vegna sjúkrahúskrufningar eða réttarkrufningar. Ef um sjúkrahúskrufningu er að ræða þá er krufningarskýrslan hluti af sjúkraskrá hins látna. Lögregla hefur forræði yfir réttarkrufningum og eru slíkar skýrslur í vörslu lögreglu.
Beiðni um afhendingu sjúkrahúskrufningarskýrslu skal beint til þeirrar stofnunar þar sem andlát átti sér stað.
Beiðni um afhendingu réttarkrufningarskýrslu skal beina til lögreglu.
Allt heilbrigðisstarfsfólk sem rekur eigin starfsstofu skal varðveita sjúkraskrár með sama hætti og heilbrigðisstofnanir. Þegar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk lætur af störfum ber þeim að afhenda sjúkraskrár til embættis landlæknis eða Þjóðskjalasafns og er hægt að óska eftir aðgangi að þeim þar.
Ef grunur leikur á því að sjúkraskrá þín hafi verið opnuð í leyfisleysi getur þú beint kvörtun til þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem opnun sjúkraskrár átti sér stað.
Nauðsynlegt er að hafa í huga að eðlilegt er að hverri heimsókn á heilbrigðisstofnun fylgi fjölmargar opnanir í sjúkraskrá, enda er sjúkraskrá nauðsynlegt vinnutæki heilbrigðisstarfsfólks og er þeim skylt að skrá allt sem viðkemur veitingu heilbrigðisþjónustu.
Það er ekki eingöngu heilbrigðisstarfsmaðurinn sem á í beinum samskiptum við þig sem þarf að opna sjúkraskrá þína heldur getur fjölmargt annað heilbrigðisstarfsfólk komið að þjónustunni án þess að þú hittir það. Þar má til dæmis nefna sérfræðinga sem lesa úr niðurstöðum rannsókna, sérfræðinga sem veita álit vegna sjúkdómsgreininga og heilbrigðisgagnafræðinga sem skrá upplýsingar um heimsókn þína.
Nei, embætti landlæknis annast ekki milligöngu um afhendingu gagna. Beiðnum um afhendingu gagna skal beina beint til þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem sjúkraskráin var færð.
Embætti landlæknis afhendir eingöngu þau gögn sem varðveitt eru hjá embættinu sjálfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um sjúkraskrár.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis