Unnið er að lausn fyrir þá einstaklinga sem ekki geta sjálfir notast við rafræn skilríki.
Einkum er um tvo hópa að ræða:
16-18 ára ungmenni með skerðingar, það er að segja ungmenni sem geta ekki notast við hefðbundin rafræn skilríki. Foreldrar barna hafa aðeins aðgang að Heilsuveru barna sinna til 16 ára aldurs, en við 16 ára aldur verða börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins og aðgangur foreldra því ekki lengur virkur.
Fullorðna einstaklinga sem misst hafa getu til að notast við rafræn skilríki, til dæmis vegna aldurstengdra sjúkdóma.
Starfshópur um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vinnur að lausn. Upplýsingar um stöðu mála verða uppfærðar á vef embættisins um leið og þær liggja fyrir.
Á meðan beðið er framtíðarlausnar þá er viðkomandi aðilum bent á að leita til heilsugæslunnar sinnar sem ætti í flestum tilfellum að geta aðstoðað. Embætti landlæknis hefur því miður ekki heimild til að skrá inn umboð eða veita þriðja aðila aðgang að Heilsuveru einstaklings sem er orðinn 16 ára.