Í Áætlun um gæðaþróun felast leiðbeiningar um verklag við veitingu heilbrigðisþjónustu. Áætluninni er ætlað að vera leiðsögn til þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra og hvernig þau geta uppfyllt þær kröfur. Þar kemur fram hvernig heilbrigðisstofnanir geta stöðugt fylgst með gæðum og öryggi þjónustunnar og brugðist við með umbótastarfi þegar þess gerist þörf.
Markmið áætlunarinnar er að notendur heilbrigðisþjónustu fái þjónustu sem:
Eykur líkur á betri heilsu og auknum lífsgæðum
Er samfelld og samhæfð.
Er örugg, rétt tímasett, skilvirk, byggð á jafnræði, notendamiðuð og árangursrík
Áætlunin miðar að því að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að framþróun hennar. Embætti landlæknis leggur fram áætlunina, sem staðfest er af ráðherra. Áætlun um gæðaþróun er höfð til hliðsjónar við úttektir á heilbrigðisþjónustu.
Áætlunin byggir á eftirfarandi fjórum lykilþáttum um verklag.
Veitendur heilbrigðisþjónustu vinna að umbótum á markvissan og kerfisbundinn hátt, sbr. gæðahring Demings. Markmiðið með gæðahringnum er að vinna að stöðugum umbótum. Hringurinn byggir á fjórum eftirfarandi þáttum:
Áætlanagerð: Greina tækifæri, setja markmið og skipuleggja breytingar.
Framkvæmd: Framkvæma breytingar.
Athugun: Fara yfir það sem gert var, greina niðurstöður (markmiðum náð eða ekki).
Markviss lagfæring: Lagfæra umbótaferli ef þörf krefur, finna lausnir, læra af mistökum.
Fyrir hendi er stjórnskipulag sem er í samræmi við stærð, umfang og þá áhættu sem starfseminni er samfara og getur uppfyllt þær kröfur sem fram koma í áætluninni. Ábyrgð og hlutverk starfsfólks er skilgreint. Verklagsreglur og vinnulýsingar sem unnið er eftir eru skráðar og öllum kunnar og aðgengilegar.
Veitendur heilbrigðisþjónustu fylgjast með gæðum starfseminnar með skráningu og birtingu gæðavísa. Notaðir eru:
Landsgæðavísar; gæðavísar sem ákvarðaðir eru fyrir allt landið af embætti landlæknis og gefa kost á samanburði milli sams konar heilbrigðisstofnana eða heilbrigðisþjónustu.
Valgæðavísar; veitendur heilbrigðisþjónustu velja gæðavísa sem lýsa gæðum þjónustunnar frá sjónarhóli notenda, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnenda.
Í lögum um landlækni og lýðheilsu segir “Heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu halda skrá um óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki." Atvikaskráningakerfið Datix, sem er í innleiðingu verður notað á landsvísu við skráningu og úrvinnslu atvika til að bæta þjónustuna enn frekar og gera hana öruggari.
Atvikaskráningakerfi inniheldur öll þau úrvinnslutæki sem nauðsynleg eru til að vinna úr skráningum svo hægt sé að bregðast við. Í kerfinu er fylgst með umfangi, tíðni og og úrvinnslu atvika sem eiga sér stað á viðkomandi stofnun.
Reynsla notenda af heilbrigðisþjónustunni er verðmæt uppspretta upplýsinga sem nýtist í umbótastarfi.
Embætti landlæknis telur mikilvægt að veitendur heilbrigðisþjónustu afli með reglubundnum hætti upplýsinga frá notendum þjónustunnar um upplifun þeirra á veittri þjónustu t.d. með þjónustukönnunum. Einnig vill embættið hvetja til þess að notendur taki virkan þátt í eigin meðferð eftir því sem unnt er enda sýna rannsóknir að þeim sem það gera farnast betur.
Reglubundnar þjónustukannanir eru gerðar meðal notenda þjónustunnar og tekið mið af niðurstöðum við umbætur á skipulagi hennar.
Gæðauppgjör
Heilbrigðisstofnanir og starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna skila árlega gæðauppgjöri til embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands eftir atvikum, sem byggir á ofangreindum lykilþáttum og er ætlað að sýna árangur hvað snertir gæði og öryggi þjónustunnar. Þar sem við á er hægt að sameinast um að senda gæðauppgjör, svo sem hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, sem reka saman stofur.