Tilkynning sjúklings eða aðstandanda um óvænt alvarlegt atvik
Hafi sjúklingur eða aðstandandi hans athugasemdir við veitta heilbrigðisþjónustu er æskilegt að hafa fyrst samband við viðkomandi heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmann til frekari upplýsinga og úrlausnar mála.
Ef ekki er hægt að leysa málið á þann hátt kann að eiga við að leggja fram formlega kvörtun eða tilkynna um alvarlegt atvik til embættis landlæknis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Mikilvægt er að kynna sér eftirfarandi áður en tilkynning um alvarlegt atvik er fyllt út og send.
Sjúklingur eða nánasti aðstandandi hans getur tilkynnt embætti landlæknis um óvænt alvarlegt atvik, hafi það átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu, leitt til andláts eða varanlegs skaða (örkumla) og átt sér stað eftir 31. ágúst 2024.
Hafi atvikið átti sér stað fyrir 1. september 2024 eða ef það hefur ekki leitt til andláts eða varanlegs skaða (örkumla) skal hafa samband við viðkomandi heilbrigðisstofnun.
Sjúklingur eða nánasti aðstandandi hans getur tilkynnt embætti landlæknis um óvænt alvarlegt atvik sem talið er hafa átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu.
Fylla skal út tilkynningu um óvænt alvarlegt atvik og senda hana með Signet Transfer til embættis landlæknis. Embættið er með gjaldfrjálsa móttöku á gögnum í gegnum vefgátt Signet Transfer. Til þess að skrá sig inn þarf að nota rafræn skilríki.
Ef ekki hentar að nota Signet Transfer má afhenda útfyllt eyðublað ásamt fylgiskjölum í móttöku embættis landlæknis í Katrínartúni 2, 105 Reykjavík eða senda það með ábyrgðarpósti.
Þegar tilkynningin hefur verið móttekin hjá embætti landlæknis verður staðfesting á því send í tölvupósti ásamt málsnúmeri sem vísa skal til við frekari samskipti við embættið.
Embætti landlæknis tekur til skoðunar allar tilkynningar sem berast og metur hvort hætta sé á endurtekningu og/eða að öryggi sjúklinga sé ógnað og úrbóta þörf.
Það verður haft samband við þann sem tilkynnti atvikið ef embættið þarfnast frekari upplýsinga.
Þegar málið hefur verið metið, verður tilkynnanda sent bréf með upplýsingum um niðurstöðu embættisins.
Með tilkynningu alvarlegs atviks til embættis landlæknis leyfir tilkynnandi að embætti landlæknis afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru til frekari rannsóknar á atvikinu.
Ef tilkynnt er fyrir hönd sjúklings þarf fullgilt umboð hans að liggja fyrir.
Unnið verður með upplýsingar í samræmi við persónuverndarlög og önnur lög og reglugerðir sem gilda um starfsemi embættis landlæknis.