Líkamleg, andleg og félagsleg heilsa mótast af þáttum sem tengjast bæði einstaklingnum sjálfum og því samfélagi sem hann býr í.
Embætti landlæknis styður við heilsueflingu eldra fólks með margvíslegum hætti, meðal annars með leiðbeinandi gátlista fyrir Heilsueflandi samfélög. Slíkt verkfæri getur nýst við að skapa umhverfi og aðstæður sem styðja við heilbrigðan og virkan lífsstíl.
Aldur, heilsufarssaga eða sjúkdómar þurfa ekki að takmarka möguleikann á aukinni vellíðan. Það er aldrei of seint að efla heilsu, aukafærni og bæta lífsgæði. Nægur svefn, fjölbreytt og hollt mataræði, reglubundin hreyfing, minni kyrrseta og sterk félagsleg tengsl hefur allt jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan á efri árum.
Með reglulegri hreyfingu á efri árum má bæta hugræna getu, jafnvægi og almenna færni og viðhalda getunni til að lifa lengur sjálfstæðu lífi.
-Í hverri viku ætti að hreyfa sig rösklega í minnst 150 mínútur. -Á efri árum er sérstaklega mikilvægt að huga að styrktar- og jafnvægisþjálfun, minnst 2-3 daga vikunnar.
Takmarka ætti kyrrsetu. Það hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan að skipta út tíma í kyrrsetu fyrir hreyfingu af hvaða ákefð sem er, þar með talið lítilli ákefð.
Eldra fólk, sem er við góða heilsu, getur haft gagn af almennum ráðleggingum um mataræði en þó með aðeins öðrum áherslum. Orkuþörfin minnkar með aldrinum, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Þörfin fyrir vítamín og steinefni minnkar hins vegar ekki með aldrinum og þörfin fyrir prótein eykst.
Fyrir eldra fólk, sem hefur minni matarlyst, er sérstaklega mikilvægt að minni matarskammtar gefi meira magn af próteini en um leið sama magn af vítamínum og steinefnum.
Hér má finna ráðleggingar um næringu eldra fólks, fyrir fólk við góða heilsu, hrumt eða veikt eldra fólk, næringarmeðferð einstaklinga með sykursýki af tegund 2 auk upplýsinga um einkenni vannæringar hjá eldra fólki og ráð.
Svefn er mikilvægur fyrir heilsu og vellíðan á öllum aldursskeiðum, einnig á efri árum. Góður svefn hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfi og minni. Í svefni fær líkaminn hvíld og líkaminn framleiðir vaxtarhormón sem meðal annars stýra vexti barna og hraðar endurnýjun fruma fullorðins fólks.
Algengast er að fólk 65 ára og eldra þurfi um 7-8 klukkustundasvefn. Svefnþörf getur þó verið mismunandi og þurfa sumir aðeins meira og sumir minna. Hér má sjá æskilegan svefntíma eftir aldri.
Að vakna úthvíld að morgni er besti mælikvarðinn á það hvort við fáum nægan svefn.
Ráð sem styðja við góðan svefn:
Sofna og vakna á svipuðum tíma alla daga, líka um helgar
Ef við leggjum okkur yfir daginn ætti að passa að það sé í frekar stuttan tíma og síður seinnipart dagsins
Líkamleg hreyfing yfir daginn getur bætt svefninn
Gott er að draga úr notkun skjátækja tveimur klukkutímum fyrir svefn
Mikil neysla koffíns frá kaffi, tei, orkudrykkjum og gosdrykkjum getur valdið svefnvandamálum, sérstaklega ef þeirra er neytt seinni hluta dagsins
Áfengisdrykkja hefur einnig truflandi áhrif á svefn
Með hækkandi aldri er andleg heilsa ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa. Hugræn og félagsleg virkni er mikilvæg og getur hægt á öldrun og heilabilun. Einn mikilvægasti þáttur hamingju og vellíðanar er að tengjast öðrum og eiga í góðum samskiptum við fólkið í kringum okkur. Styrkjum tengsl okkar við fjölskyldu, vini og nágranna.
Áfengi hefur mikil áhrif á heilsu og er einn af fjórum algengustu áhættuþáttum langvinnra sjúkdóma. Áfengisnotkun eykur m.a. áhættuna á ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, heilablóðfalli og skorpulifur.
Áfengisdrykkja getur haft áhrif á virkni lyfja og hefur einnig truflandi áhrif á svefn. Mælt er með að forðast áfengisdrykkju þar sem engin heilsubót eru af neyslu áfengis og ekki eru til nein þekkt viðmið um skaðlausa notkun þess.
Tóbaksnotkun, af hvaða tegund sem er, er einn helstu áhættuþáttur fjölmargra alvarlegra sjúkdóma.
Tóbak inniheldur nikótín sem er taugaeitur og hefur skaðleg áhrif á hjarta- og æðakerfi og taugakerfi, m.a. heilann. Nikótín er mjög ávanabindandi og hefur neikvæð áhrif á líðan.