Starfsemi embættis landlæknis á sviði tóbaksvarna lýtur að forvörnum og heilsueflingu og felur meðal annars í sér gerð fræðsluefnis, ráðgjöf, rannsóknir og stefnumótun.
Megináherslur í starfinu eru að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu tóbaks og annarra nikótínvara og að styðja við aðstoð til þeirra sem vilja hætta notkun þess.
Nikki Púðason er sleipur náungi sem lítur á sjálfan sig sem frábæran vin. En þegar betur er að gáð gerir hann eiginlega ekki annað en að þvælast fyrir. Og fyrir þá sem ekki tekst að losa sig er hann ekki bara truflandi - hann er algjörlega óþolandi.
Auglýsingarnar um Nikka Púðason eru hluti af verkefni sem miðar að því að vekja athygli á neikvæðum hliðum þess að nota nikótín og hversu ávanabindandi notkunin getur orðið. Persónan Nikki er ávaninn holdi klæddur - hann er alltaf til staðar, alveg eins og ávaninn verður plássfrekur og þreytandi fyrir þann sem er orðinn háður nikótíni.
Verkefninu fylgir síðan www.otholandi.is, en á henni er efni fyrir bæði fullorðna og ungmenni. Nokkrum algengum mýtum um nikótín er svarað og bent á staðreyndir um nikótínnotkun á Íslandi. Einnig er leiðbeint um hvernig sækja megi sér aðstoð við að hætta nikótínnotkun á heilsuvera.is.
Einn af mikilvægustu þáttum tóbaksvarna er að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja og verði háð tóbaki eða öðrum nikótínvörum. Ungmenni sem byrja að fikta við rafrettur, nikótínpúða eða aðrar nikótínvörur ætla sér auðvitað ekki að verða háð nikótíni. Staðreyndin er hins vegar sú að nikótín er mjög ávanabindandi efni. Það tekur stuttan tíma að verða háður því og mörgum reynist erfitt að losna undan þessum ávana.
Nikótínnotkun barna og ungmenna getur haft neikvæð áhrif á heilaþroska, einkum á þau svæði heilans sem stýra einbeitingu, skapi og hvatastjórnun. Það er því til mikils að vinna að byrja ekki að nota nikótínvörur á unga aldri. Þá er það í meira lagi óábyrgt að hafa á boðstólum nikótínvörur sem eru með bragðefni og útlit sem höfðar sérstaklega til barna og ungmenna.
Starfsfólk embættisins á sviði tóbaksvarna veitir stjórnvöldum faglega ráðgjöf um allt sem lýtur að tóbaksvörnum, stefnumótun um tóbaksvarnir og nýjar áherslur í tóbaksvörnum.
Ráðgjöf, fræðsla, heilsueflingarverkefni og rannsóknir á sviði tóbaksvarna
Markmið með lögum um tóbaksvarnir er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks og virða rétt hvers manns til að geta andað að sér lofti sem er ekki mengað tóbaksreyk af völdum annarra.
Á vegum embættis landlæknis eru reglulega unnar kannanir á umfangi á neyslu tóbaks og annarra nikótínvara svo sem rafrettum og nikótínpúðum. Einnig er öðrum tölfræðilegum upplýsingum safnað sem gefa vísbendingar um stöðu þessara mála í landinu og skaðlegar afleiðingar tóbaksneyslu til að miðla til almennings, fagfólks og yfirvalda heilbrigðismála.