Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Um handbókina

    Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) hefur undanfarna mánuði, í samræmi við stefnu stjórnvalda, unnið að nýju fyrirkomulagi námsmats undir heitinu Matsferill. Matsferill verður safn matstækja sem hefur það hlutverk að draga upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda reglulega yfir skólagönguna. Markviss notkun á niðurstöðum skimana og prófa mun gera skólum kleift að laga kennslu að þörfum nemenda og finna þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska.

    Fyrsta verkefnið undir hatti Matsferils er þróun stöðu- og framvinduprófa í lesskilningi og stærðfræði í 4. til 10. bekk. Markmið þeirra er að draga upp sem nákvæmasta mynd af því hvar áskoranir og styrkleikar nemenda liggja og munu kennarar leggja þau fyrir árlega að vori. Niðurstöðurnar nýtast til mats á árangri nemenda við lok skólaárs og til skipulagningar kennslu að hausti. Slík hringrás mats og kennslu er mikilvægur grunnur markvissra kennsluhátta og auðveldar kennurum að aðlaga kennslu að þörfum allra nemenda.

    Þróun nýrra matstækja getur ekki átt sér stað án aðkomu skólasamfélagsins og hefur miðstöðin fengið til liðs við sig 26 skóla sem starfa innan 14 sveitarfélaga til að aðstoða við innleiðingu á stöðu- og framvinduprófunum. Þannig hefur starfsfólk MMS verið í nánu sambandi við skólaskrifstofur og skóla sem munu aðstoða við að safna gögnum vegna stöðlunar prófanna svo hægt sé að útbúa viðmið um árangur. Þá þarf að prufukeyra nýtt stafrænt prófakerfi sem krefst prófana á tæknibúnaði og þróa þarf ítarlegar og góðar leiðbeiningar vegna undirbúnings og framkvæmdar. Loks þarf að hanna greinargóða framsetningu á niðurstöðum fyrir alla haghafa og þá skiptir miklu máli að fá endurgjöf frá þeim sem þurfa að nýta þær.

    Yfirstandandi samvinna skóla, skólaskrifstofa og MMS er fyrsti fasi innleiðingar á áætlaðri landsfyrirlögn stöðu- og framvinduprófanna vorið 2026. Meginmarkmið samstarfsins er að sníða af hnökra og auka þar með líkur á farsælli fyrirlögn þegar að landsfyrirlögn kemur. Kunnum við samstarfsaðilum okkar allra bestu þakkir fyrir hjálpina.

    Í þessum leiðbeiningum má finna allar upplýsingar um stöðu- og framvinduprófin, tilgang, undirbúning og framkvæmd. Mikilvægur liður í vel heppnaðri fyrirlögn er að notendur prófanna kynni sér þær vel en það kemur í veg fyrir óvissu og streitu þegar prófin verða lögð fyrir. Eins er mikilvægt að skólar og skólaskrifstofur verði dugleg að upplýsa starfsfólk MMS um hnökra við fyrirlögn eða ef upplýsingar skortir vegna framkvæmdarinnar. Hægt verður að ná í starfsfólk MMS í síma 514-7500 eða senda póst á matsferill@mms.is.

    Með kærri kveðju,

    Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs MMS