Líkanið sem prófin eru byggð á skilgreinir bæði efnislegt inntak (inntaksflokkar) og hvers konar færni nemandi þarf að sýna (færniþættir). Matsrammar fyrir stöðluð próf í stærðfræði byggja margir hverjir á slíku líkani.
Inntaksflokkar eru þeir sömu og í aðalnámskrá: Tölur og reikningur, algebra, tölfræði og líkindi svo og rúmfræði og mælingar. Þessi skipting er mjög sambærileg við aðra matsramma. Í matsramma TIMSS eru til dæmis skilgreindir alveg sambærilegir fjórir flokkar. Blæbrigðamunur er við ramma UNESCO og hinna bandarísku NAEP prófa þar sem rúmfræði og mælingar eru tveir aðgreindir flokkar.
Færniþættir eru þrír, í styttri lýsingu:
Kunnátta – að kunna merkingu stærðfræðilegra fyrirbæra og geta framkvæmt reikniaðgerðir.
Beiting – að geta ákvarðað hvað skal gera og beitt hugtökum eða aðferðum.
Rök og greining – að geta greint, túlkað og rökstutt til að komast að niðurstöðu.
Skilgreining færniþátta byggir á sama líkani og ýmsir erlendir matsrammar í stærðfræði. Gjarnan eru á bilinu þrír til fimm þættir sem reyna á hugsmíðar á borð við kunnáttu og þekkingu, beitingu og skilning, túlkun, tjáskipti og stærðfræðilega framsetningu eða stærðfræðilegan rökstuðning. Í Noregi byggir samræmt námsmat til að mynda á þremur færniþáttum: Þekkja og lýsa, beita og setja fram, ígrunda og meta. Í námskrá er fjórði færniþátturinn sem reynir á fjölbreytt tjáskipti um stærðfræði (Utdanningsdirektoratet, e.d.). Sams konar skipting í þrjá færniþætti má finna í matsrömmum TIMSS og ramma NAEP (Mullis, Martin og von Davier, 2021; National Assessment Governing Board, 2021).
Rétt er að árétta að þessir færniþættir segja ekki beint til um þyngdarstig prófatriða. Þyngdarstuðull prófatriða getur verið ýmist hár eða lágur innan ólíkra færniþátta. Til dæmis getur verið til staðar prófatriði sem reynir á kunnáttu sem minnihluti nemenda getur svarað. Jafnframt getur verið til staðar prófatriði sem reynir á rökstuðning sem meirihluti nemenda getur svarað á fullnægjandi hátt.
Hér að neðan eru dæmi um prófatriði úr hverjum færniþætti: