Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi

    Lesskilningur er mikilvæg undirstöðufærni í námi. Góður lesskilningur er forsenda þess að hægt sé að skilja og tileinka sér efni texta á meðan slakur lesskilningur getur haft víðtæk áhrif á framvindu og frammistöðu í námi. Góður lesskilningur felst í skilningi einstakra orða, setninga og málsgreina, svo og skilningi stærri heilda eins og efnisgreina eða kafla sem síðan þarf að fella saman við eigin hugmyndir, þekkingu og sjónarmið. Góður lesskilningur er byggður á góðum málskilningi sem aftur hvílir t.d. á góðum hugtakaskilningi og fjölbreytilegum orðaforða sem þarf að fá að vaxa og dafna í takt við hækkandi aldur nemenda og síauknar kröfur í námi. Góður lesskilningur er einnig háður góðri lestrar- eða umskráningarfærni og því mikilvægt að hugað sé að báðum þáttum læsis í lestrarkennslu.

    Með því að leggja stöðu- og framvinduprófin reglulega fyrir fást upplýsingar um stöðu og þróun lesskilnings nemenda. Niðurstöður þeirra gefa vísbendingar um það að hve miklu leyti nemandinn er fær um að nýta sér lestur og málskilning sinn til að tileinka sér almennt innihald texta námsefnis og að njóta ávinningsins af lestri í fjölbreyttum tilgangi.