Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Hvaða nemendur taka þátt í stöðlun prófanna?

    Þegar próf eru stöðluð er mikilvægt að sem flestir nemendur sem lenda í stöðlunarúrtaki þreyti prófin. Annars er hætta á að upplýsingarnar um þyngd atriða verði ekki réttar og að aldursbundnu viðmiðin sem búin verða til á grunni þeirra gefi ranga mynd. Við mælumst því til að allir nemendur í 4.-10. bekk, sem fylgja sínum árgangi í námi, og geta þar með uppfyllt aldursbundin hæfniviðmið aðalnámskrár, taki prófin. Það á þó ekki við um nemendur með einstaklingsnámskrá, í stærðfræði og/eða íslensku, þar sem vikið er frá ákvæðum aðalnámskrár. Þeir ættu að vera undanþegnir því að þreyta prófin.

    Ekki þarf að sækja sérstaklega um undanþágu núna þar sem um stöðlun er að ræða en óskað verður eftir almennum, ópersónugreinanlegum upplýsingum um þá nemendur sem ekki taka þátt í stöðluninni. Hér er skjal sem skólar eru beðnir um að hlaða niður og fylla út vegna nemenda sem taka ekki prófin og senda MMS (matsferill@mms.is) þegar þeir hafa lokið öllum fyrirlögnum.

    Til viðmiðunar ætti hlutfall nemenda sem eru undanþegnir þátttöku, ekki að vera hærra en 10-11% prósent hjá öllum árgöngum. Hér er stuðst við meðaltalsþátttökutölur á samræmdum könnunarprófum á árabilinu 2018-2021 og almenn viðmið um hlutfall nemenda með námsvanda.