Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Þjónustuaðili:
Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.
Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
17. mars – 11. apríl 2025
Fyrirlögn stöðu- og framvinduprófanna í lesskilningi og stærðfræði fer fram dagana 17. mars til 11. apríl 2025. Skólarnir hafa því töluvert svigrúm til að skipuleggja fyrirlögnina eftir því hvað þeim hentar best. T.d. er sá möguleiki fyrir hendi að skipta árgangi í tvennt og láta nemendur taka prófið sinn hvorn daginn og eins er hægt að leggja prófin fyrir í minni hópum, t.d. fyrir nemendur sem þurfa meiri hvatningu og stuðning við próftökuna.
Það er mikilvægt að nemendur fái upplýsingar vegna þátttöku sinnar í stöðlun prófanna. Skilaboðin geta verið á þessa leið en skólum er frjálst að bæta inn öðrum upplýsingum sem varðar fyrirkomulag framkvæmdar í skólanum sjálfum:
Kæru nemendur,
Vikurnar 17. mars til 11. apríl ætlar skólinn okkar að aðstoða Miðstöð menntunar og skólaþjónustu við að útbúa próf í lesskilningi og stærðfræði. Skólinn okkar er einn af 26 skólum sem tekur þátt í þessu mikilvæga verkefni. Aðstoðin er fólgin í því að allir nemendur í 4.-10. bekk taka prófin í þessum greinum en þau munu gefa ykkur upplýsingar um það hvar þið standið í lesskilningi og stærðfræði, líka í samanburði við jafnaldra. Þess vegna er það mjög mikilvægt að þið leggið ykkur fram og gerið ykkar allra besta. Niðurstöður úr öllum 26 skólunum verða síðan notaðar til að útbúa viðmið fyrir sambærileg próf sem verða lögð fyrir öll grunnskólabörn í 4.-10. bekk vorið 2026. Þátttaka í þessu verkefni krefst ekki sérstaks undirbúnings, svo ekkert stress.
Búið er að gera drög að upplýsingabréfi til foreldra vegna stöðlunarinnar sem skólar geta notað til að senda heim í aðdraganda prófanna. Bréfið inniheldur allar helstu upplýsingar um stöðlunina en skólum er frjálst að gera bréfið að sínu með því að bæta við efni sem lýtur að fyrirkomulagi framkvæmdar í skólanum sjálfum. Drögin að upplýsingabréfinu má nálgast hér.
TAO prófakerfið styður próftöku í tölvum með Windows stýrikerfi, (útgáfu 10 og 11), Chromebooks og iPad. Önnur tæki verður ekki hægt að nota. Yfirfara þarf öll tæki og kanna virkni þeirra tímanlega fyrir fyrirlagnir ásamt því að uppfæra stýrikerfi. Tengiliður vegna tæknimála í hverjum þátttökuskóla hefur umsjón með yfirferð tækja og uppfærslu stýrikerfa.
Æskilegt er að nettengingar séu góðar. Hægt er að athuga tengingu skólans á slóðinni https://schoolreadiness-qa.pisa.acer.org/
Tengiliður vegna tæknimála hefur umsjón með að kanna nettengingar í skólanum.
Setja þarf upp öruggan vafra á þeim tækjum sem notuð er við fyrirlögn prófanna. Þessi hugbúnaður er hannaður sérstaklega til að tryggja öryggi við próftöku og koma í veg fyrir að nemendur geti nálgast annað efni en prófið sjálft á meðan á því stendur.
Hér má finna leiðbeiningar fyrir kerfisstjóra grunnskóla vegna uppsetningar á veflás fyrir öll tæki sem leyfð eru vegna fyrirlagnarinnar.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu mun sjá um skráningu nemenda í próf sem byggð er á upplýsingum úr Skólagátt. Allir nemendur í 4. – 10. bekk sem eru skráðir á svæði þátttökuskóla í Skólagátt eru sjálfkrafa skráðir til prófs.
Prófin verða lögð fyrir í stafrænu prófakerfi og til að undirbúa nemendur fyrir próftöku hefur sérstakt sýnispróf verið útbúið. Sýnisprófið verður opið og aðgengilegt öllum en hægt verður að fara í gegnum það eins oft og hver vill eða þarf.
Sýnisprófinu er ekki ætlað að þjálfa nemendur í efnistökum prófanna heldur að kynna og þjálfa próftöku í stafrænu umhverfi. Þar er hægt sjá uppsetningu prófatriða eins og lestexta með fjölvalsspurningum eða stærðfræðidæmi með opnum svörum þar sem próftaki skráir svar í svarglugga. Þar má einnig finna stafræn verkfæri eins og vasareikni, lestrarstiku og áherslupenna. Hægt verður að velja bakgrunnslit og stækka og minnka letur. Lögð er áhersla á að próftaki fái tækifæri til að prófa öll þessi hjálpartæki sem eru í boði innan prófakerfisins, átta sig á því hvar þau eru staðsett og læra hvernig þau nýtast við próftöku, áður en til hennar kemur.
Hér verður hægt að finna hlekk á sýnisprófið síðar.
Mikilvægt er að skólar undirbúi fyrirlögn prófanna vel. MMS hefur tekið saman stuttan gátlista vegna undirbúnings undir fyrirlögnina og má finna hann hér.
Spurningar í prófum og matstækjum í Matsferli verða notaðar í nokkur ár. Stefnt er að því að notkunartími þeirra verði um fimm til sjö ár. Þó er viðbúið að fyrstu prófútgáfur verði gerðar opinberar eftir tveggja til þriggja ára notkun. Ástæða þessa er annars vegar að mikil krafa er gerð um gæði þessara prófa og hins vegar að mikil vinna felst í því að þróa viðmið um námsframvindu og einkunnakvarða sem endurspegla það sem nemendur kunna og geta. Því er mikilvægt að þó svo kennarar geti séð einstakar spurningar eða prófverkefni að þeir haldi þeirri vitneskju fyrir sig eða fjalli um það út frá mati á gæðum prófanna en dreifi ekki upplýsingum um prófatriðin.
Öll verkefni í stöðu- og framvinduprófum eru eign Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og er óheimilt að afrita þau með nokkrum hætti. Textar í lesskilningsprófi eru birtir með leyfi höfunda/rétthafa. MMS hefur fengið heimild til að nýta þá við mat á stöðu nemenda en hefur ekki rétt til að dreifa þeim með öðrum hætti.