Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Þjónustuaðili:
Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.
Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
17. mars – 11. apríl 2025
Gert er ráð fyrir að próffyrirlögnin í heild sinni rúmist innan tveggja 40 mínútna kennslustunda en sjálf prófúrlausnin mun þó taka langflesta nemendur mun skemmri tíma. Virkur próftími í prófakerfinu eru 80 mínútur og er sá tími sem nemandinn hefur til að ljúka prófi. Að þeim tíma loknum lokast prófakerfið sjálfkrafa og skilar inn úrlausnum hafi nemandi ekki þegar lokið prófinu og skilað því inn. Gott er að hafa í huga að innskráning í prófið getur tekið dálítinn tíma og gera má ráð fyrir að nemendur í yngri bekkjum þurfi meiri aðstoð við innskráninguna en þeir eldri. Hægt er að hefja próffyrirlögn frá kl. 8:30 til 13:30 alla virka daga innan prófaglugga.
Hjálpargögn í stærðfræðiprófi
Rissblöð og skriffæri: Nauðsynlegt er fyrir nemendur að hafa hjá sér rissblað og skriffæri til útreikninga. Mikilvægt er að rissblöðum sé eytt með öruggum hætti eftir hverja próffyrirlögn.
Reiknivélar á unglingastigi: Reiknivélar eru leyfðar í 8., 9. og 10. bekk. Nota má eigin reiknivél eða reiknivél á skjá inni í viðmóti prófakerfis.
Engar reiknivélar á yngsta og miðstigi: Reiknivélar á þessum stigum eru ekki leyfðar svo hægt sé að tryggja réttmæti prófanna við að meta talnaleikni í þessum árgöngum.
Google Translate (GT): Nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og sem verið hafa skemur en fjögur ár í íslensku málumhverfi, stendur til boða að nota GT í stærðfræðiprófi í öðru tæki. Þetta á líka við um nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem eru búnir að vera lengur en fjögur ár í íslensku málumhverfi og hafa vanist því að nota GT í stærðfræðinámi sínu. Heppilegast er að nota Ipad þar sem auðvelt er að læsa vefsíðunni. Sækja þarf smáforritið Google Translate í Ipad og ræsa það með „guided access“. Ef „guided access“ hefur ekki verið sett upp þarf að vera búið að ganga frá því í tíma. Athugið að samkvæmt athugunum hjá MMS þýðast 15-20% stærðfræðihugtaka ekki nákvæmlega eða rétt.
Upplestur á stærðfræðiprófi: Kennari má lesa upp texta á prófi fyrir nemanda en ekki útskýra hugtök eða fyrirbæri sem könnuð eru á prófinu til að hafa ekki áhrif á niðurstöður nemanda.
Hjálpargögn í lesskilningsprófi
Eins og hefur fram hefur komið er ekki boðið upp á upplestur í lesskilningsprófi þar sem verið er að kanna að hvaða marki nemendur geta nýtt lestrarfærni sína til að tileinka sér efni texta. Prófakerfið býður upp á nokkra möguleika sem geta gert lesturinn aðgengilegri eða þægilegri. Þessi verkfæri eru:
Lestrarstika eða lestrargluggi: Lestrarstikuna er hægt að stækka og minnka. Hún getur t.d. hjálpað nemendum að fara ekki línuvillt á skjá.
Áherslupennar: Í prófakerfinu er boðið upp á áherslupenna í mörgum litum. Notkun þeirra getur t.d. hjálpað nemendum að finna atriði í texta sem skipta máli.
Bakgrunnslitur á skjá: Hægt er að breyta bakgrunnslit í viðmóti en þessi möguleiki getur t.d. nýst nemendum sem eru vanir að lesa af skjá með dökkum bakgrunni.
Stækkun á letri: Hægt er að stækka letur en það getur komið sér vel þar sem tæki og skjáir geta verið mismunandi.
Athugið að mikilvægt er að nemendur fái þjálfun í að velja sér verkfæri sem henta þeim og venjast því að nota þau ÁÐUR en að próftöku kemur með því að fara eins oft og þarf í gegnum sýnisprófið.
Kennari les eftirfarandi leiðbeiningar upp áður en nemendur hefja próftöku. Mikilvægt er að nemendur skrái sig ekki inn í prófið fyrr en leiðbeiningarnar hafa verið lesnar svo upplesturinn taki ekki próftíma af nemendum.
NAFNAKALL
Nú er að hefjast próf í lesskilningi/stærðfræði. Þetta er stöðu- og framvindupróf sem mun gefa ykkur upplýsingar um hvernig þið standið í lesskilningi/stærðfræði og eins hvernig þið standið miðað við jafnaldra.
Hver nemandi er með sína eigin klukku sem birtist efst á skjánum í prófakerfinu. Klukkan í prófinu byrjar að telja þegar þið eruð búin að skrá ykkur inn og þá hefst prófið. Klukkan er stillt á 80 mínútur. Flestir ættu að ná að klára prófið á 40 – 60 mínútum þannig að þið hafið nægan tíma.
Farið vel yfir hvort þið eruð búin að svara öllum spurningum í prófinu. Mikilvægt er að nýta tímann vel en ekki flýta sér of mikið.
Sumar spurningar á prófinu eru léttar en aðrar erfiðar. Ef þið eruð ekki viss um rétt svar skulið þið velja það sem ykkur finnst líklegast til að vera rétt.
Gangi ykkur vel! Nú megið þið skrá ykkur inn í prófið.
Á Google-svæði skóla verða upplýsingar vegna innskráningar nemenda í prófakerfið. Skólastjórnandi fær aðgang inn á svæði síns skóla og nálgast upplýsingarnar þar eftir bekkjum. Hver nemandi fær úthlutað notandanafni og lykilorði.
Í upphafi prófs eru lesnar leiðbeiningar. Að þeim loknum er rétt að skapa góðan vinnufrið.
Kennari getur gengið um og athugað hvort nemandi sé ekki að svara prófatriðum (spurningum) með því að skoða vinnustiku nemenda sem birtist neðst á skjánum.
Vakni spurningar á prófdegi um hvort víkja þurfi frá leiðbeiningum um fyrirlögn prófanna skal ávallt hafa samband við MMS og fá samþykki fyrir því.
Óheimilt er að lesa upp tilkynningar eða gera athugasemdir varðandi prófin meðan á prófi stendur nema að beiðni eða með samþykki MMS.
Þegar próftími er rúmlega hálfnaður er gott að minna nemendur á að athuga hvað próftímanum líður í sínu tæki.
Nemendur eiga ekki að fá hjálp við að leysa verkefni í prófunum eða fá vísbendingar um hvert rétt svar sé. Besta leiðin til að svara spurningum nemenda sem óska eftir aðstoð við lausn verkefna er til dæmis:
„Ég má ekki hjálpa þér við að leysa þetta verkefni/dæmi.” „Gerðu eins vel og þú getur.” „Merktu við svarið sem þú telur að sé réttast.“
Gott er að hafa í huga að sumir nemendur þurfa meiri hvatningu og athygli vegna próftökunnar en aðrir.
Í ljósi þessi hve prófagluggi er rúmur er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af veikindum nemenda á fyrirhuguðum prófadögum en gott að hefja fyrirlögn snemma í prófaglugga til að hann nýtist sem best. Það eykur líkurnar á að það takist að leggja prófin fyrir alla nemendur.
Verði nemandi veikur meðan á próftöku stendur og hann ekki fær um að ljúka prófi, er hægt að hafa samband við MMS. Starfsfólk MMS getur þá gert ráðstafanir sem gera nemandanum kleift að taka prófið annan dag í samráði við skóla.
Nemendur eiga að sitja í sætum sínum meðan á próftöku stendur. Þurfi nemendur að fara á salerni skal sjá til þess að þeir geti ekki átt samskipti við aðra nemendur.
Rissblöð (A4 eða A5) eru nauðsynleg í stærðfræðiprófi en skóli ber ábyrgð á að þeim sé eytt með tryggilegum hætti að loknu prófi.
Mikilvægt er að ákveðin ró og góður vinnufriður séu til staðar á prófstað og við próftöku. Á sama tíma verður að sýna aðstæðum og þörfum nemenda skilning og bregðast við í samræmi við velferð barna.
Farsímar eru bannaðir meðan á prófi stendur. Hafi nemendur farsíma með sér er nauðsynlegt að slökkt sé á þeim og þeim komið í vörslu þess sem situr yfir.
Nemendum er óheimilt að hlusta á tónlist meðan á próftöku stendur.
Ef spurningar vakna á meðan fyrirlögn stendur yfir, þar sem mögulega þarf að víkja frá leiðbeiningum um fyrirlögn prófanna, skal ávallt hafa samband við MMS og fá samþykki fyrir því. Sama á við ef upp koma óvænt tilvik við fyrirlögn sem bregðast þarf við. Í öllum tilvikum á að tilkynna MMS um þessi tilvik. Senda má póst á matsferill@mms.is. Gott er að tilgreina málavexti skýrt í erindinu, nafn þess sem hefur samband og símanúmer viðkomandi.
Þegar nemandi lýkur prófi þarf hann að skrá sig út úr prófakerfinu með því að ýta á hnappinn „Ljúka prófi“.
Það er lagt í hendur skólastjóra að ákveða hvort nemendur sitji út próftímann eða ekki. Ef talið er að vinna aukaverkefna eða lesefnis sé þörf til að nemendur hafi eitthvað að gera að loknu prófi, þarf að huga að því í tíma. Eina skilyrðið er að verkefnið tengist EKKI þeirri námsgrein sem prófað er í hverju sinni. Nemandi verður að hafa skráð sig úr prófi áður en hann fær eitthvað annað að fást við.