Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Þjónustuaðili:
Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.
Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
17. mars – 11. apríl 2025
Þátttökuskólar: Úrtak vegna stöðlunar
Stöðu- og framvinduprófin í lesskilningi og stærðfræði verða stöðluð (e. standardized), en það þýðir að atriði eins og efnisinnihald, prófaðstæður, próftími, fyrirgjöf og úrvinnsla, ásamt fleiri þáttum, eru sambærileg hjá öllum próftökum. Einnig munu staðlaðir einkunnakvarðar og aldursbundin viðmið fylgja hvoru prófi svo hægt verði að túlka niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla á markvissan hátt og bera saman við niðurstöður fyrir landið í heild.
Til þess að útbúa slík viðmið þarf að leggja prófin fyrir úrtak nemenda sem endurspeglar þýði nemenda á landsvísu sem best. Til að ná því markmiði er nauðsynlegt að beita aðferðum úrtaksfræði og nota tilviljanaúrtak við gagnasöfnun (Cochran, 1977; Lohr, 2021). Í þeirri stöðlun sem á sér stað nú er um svokallað klasaúrtak að ræða þar sem 26 skólar voru valdir af handahófi út frá landshlutaskiptingu, eins og hún endurspeglast í núverandi kjördæmaskipan. Frávik voru þó gerð frá tilviljanakenndu vali í örfáum tilvikum, fyrst og fremst til þess að fá sem fjölbreytilegasta skóla í úrtakið.