Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Niðurstöður

    Það skiptir miklu máli að niðurstöður séu settar fram þannig að þær séu skýrar, auðvelt að túlka þær og setja í samhengi við aðrar upplýsingar um nemandann. Upplýsingarnar þarf einnig að sníða að því hver notar þær og því þarf að hanna notendavænar upplýsingar fyrir nemandann, forsjáraðila og kennara þannig að þær birtist með auðskiljanlegum hætti.

    Einn tilgangur þessa fasa innleiðingar Matsferils er að safna gögnum svo hægt verði að útbúa aldursbundin viðmið fyrir mat á lesskilningi og stærðfræði í hverjum árgangi frá 4. til 10. bekk. Þau munu því ekki liggja fyrir fyrr en nokkrum vikum eftir að prófagluggi lokast. Gerð þeirra er forsenda þess að hægt sé að reikna út einkunn nemenda og útbúa meðal annars landsmeðaltal sem veitir upplýsingar um frammistöðu nemenda í samanburði við jafnaldra eða meðaltal stöðlunarúrtaks. Einkunnir munu því ekki berast til skólanna fyrr en þessi vinna hefur farið fram. Hægt verður að nálgast þær á Google svæði skóla og fá skólar tilkynningu þegar þær liggja fyrir.

    Stefnumótun menntayfirvalda um framtíðarfyrirkomulag samræmds námsmats (Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2020) ætlar Matsferli fjölbreytt hlutverk. Þetta endurspeglast í greinargerð með lagafrumvarpi um breytingar á lögum um grunnskóla sem lagt var fram í febrúar 2025, þingskjal 97/2025, sem leggur áherslu á að Matsferill gefi kost á að „draga upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda“. Áhersla er á að niðurstöður horfi bæði til stöðu nemenda annars vegar og framvindu í námi hins vegar. Stefnumótun stjórnvalda leggur einnig ríka áherslu á að niðurstöður Matsferils gefi samanburðarhæfar upplýsingar. Í samræmi við þetta verða þróaðar einkunnir sem hafa fjölbreytilegt hlutverk, til dæmis námsframvindukvarði sem sýnir framvindu milli ára. Stefnt er að því að tengja innihald náms eða viðfangsefni nemenda við þennan einkunnakvarða. Einnig þarf að útbúa einkunnir sem gefa kost á að bera saman stöðu einstakra nemenda í ólíkum námsgreinum. Slíkir kvarðar hafa þá eiginleika að einnig má nýta þá í samanburði við jafnaldra. Í stefnumótun menntayfirvalda má finna væntingar um að niðurstöður Matsferils nýtist á fjölbreytilegan máta. Þessu verður einungis mætt með nokkrum ólíkum tegundum einkunna sem geta komið mismunandi upplýsingum til skila. Þetta kallar einnig á að leiðir til að skila niðurstöðum til ólíkra notenda verði sveigjanlegar og styðji notendur við túlkun á niðurstöðunum.