Sjúkratryggingar vegna fyrirfram ákveðinnar læknismeðferðar erlendis
Bið eftir meðferð á Íslandi
Sérfræðihópur Sjúkratrygginga metur hvort skilyrði um læknismeðferð erlendis séu uppfyllt samanber 8.gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008.
Nefndin fundar einu sinni í mánuði. Umsókn ásamt nauðsynlegum upplýsingum þarf að liggja fyrir svo að nefndin geti tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að samþykkja hana. Einstaklingar geta sótt sjálfir um en þá þurfa ítarleg læknisfræðileg gögn að fylgja umsókn, sjá að neðan en mælt er með því að meðferðarlæknir fylli út umsókn.
Ef nauðsynleg heilbrigðisþjónusta er ekki veitt á Íslandi innan tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega ef mið er tekið af núverandi heilsufarsástandi hins sjúkratryggða og líklegri framvindu sjúkdómsins sbr. 20. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004, sbr. 20. gr. innlendrar reglugerðar nr. 442/2012, sem er í gildi á Íslandi frá maí 2012, þarf að staðfesta bið og nauðsyn miðað við líklega framvindu sjúkdóms.
Þessar reglur eiga við um opinber kerfi landa innan EES, Bretlands og Sviss.
Athugið að alltaf verður að sækja um fyrirfram samþykki til Sjúkratrygginga sem verður að liggja fyrir áður en meðferð fer fram. Ef umsókn er samþykkt er heildarkostnaður læknismeðferðar greiddur að fullu ásamt ferða- og uppihaldskostnaði.
Þegar mál hefur verið samþykkt er haft samband við Icelandair sem sér um bókun flugs og er flug þá greitt af Sjúkratryggingum. Hægt er að sækja um dagpeninga vegna uppihaldskostnaðar en engin gögn þurfa almennt að fylgja umsókn um dagpeninga en óskað verður eftir frekari gögnun ef nauðsyn þykir.
Landlæknir hefur sett viðmiðunarmörk um biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Samkvæmt því gilda eftirfarandi viðmið:
Samband við heilsugæslustöð samdægurs.
Viðtal við heilsugæslulækni innan 5 daga.
Skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga.
Aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu.
Í öllum tilvikum er átt við þann tíma sem líður frá því að sjúklingur hefur samband við heilbrigðisþjónustu út af einkennum eða frá því að þörf fyrir viðkomandi þjónustu er greind. Þessi tímamörk eiga ekki við þegar um bráðaþjónustu er að ræða eða um greiningu og meðferð illkynja sjúkdóma.
Það þarf að tryggja að eftirfarandi liggi fyrir:
Nákvæmar upplýsingar um bið eftir aðgerð/meðferð á þeim stofnunum eða stofum hér á landi, sem framkvæma umræddar aðgerðir eða veita umræddar meðferðir.
Vottorð sérfræðilæknis, sem einnig fylgir sjúklingnum eftir að lokinni meðferð erlendis, með ítarlegum rökstuðningi fyrir því að ekki sé ráðlegt, að umsækjandi bíði lengur en í skilgreindan tíma, vegna hugsanlegra skaðlegra áhrifa, sem dráttur á meðferð kynni að hafa á ástand hans og getu til að sinna daglegu lífi og starfi. Í vottorðinu verði reynt að leggja mat á þá vanlíðan, sem sjúklingurinn þarf að búa við eða aðra þætti, sem kunna að skerða lífsgæði hans, dragist meðferð umfram það sem fram kemur í vottorðinu. Votta þarf á skýran hátt að biðtími hér á landi eftir meðferðinni sé ekki réttlætanlegur læknisfræðilega.
Liggja þarf fyrir að sjúkrahúsið sem veitir meðferðina sé viðurkennd stofnun og að meðferðin sé gagnreynd. Í því felst að umsóknarlæknir þarf að ábyrgjast og helst að sýna fram á með gögnum (öðrum en tilvísun í heimasíður eða því um líkt) að um viðurkennda heilbrigðisstofnun sé að ræða. Meðferðin sem sótt er um þarf að vera meðferð sem almannatryggingar í því landi (“dvalarlandi”)sem um er að ræða greiða fyrir.
Ef umsókn um læknismeðferð erlendis hefur verið samþykkt er bent á eftirfarandi:
Meðferðarkostnaður er greiddur.
Ferðakostnaður, uppihaldskostnaður og mögulegur fylgdarmannskostnaður er greiddur.
Ef umsókn um læknismeðferð erlendis hefur verið samþykkt er bent á eftirfarandi:
Sjúkratryggingar greiða fargjald sjúklings frá Íslandi og til þess staðar sem meðferð er fyrirhuguð og til baka aftur. Einnig er endurgreitt fargjald innanlands samkvæmt sérstökum reglum um ferðakostnað innanlands.
Ef sjúklingur er yngri en 18 ára er heimilt að greiða ferðastyrk fyrir báða foreldra eða tvo nánustu aðstandendur eftir því sem við á.
Sjúkratryggingar greiða dagpeninga vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar sjúklings utan sjúkrastofnunar svo og uppihaldskostnaðar fylgdarmanns eða fylgdarmanna. Ef um börn er að ræða greiða Sjúkratryggingar dagpeninga að fullu til annars foreldris en að hálfu til hins. Börn yngri en fjögurra ára fá fjórðung af dagpeningum en þau sem eru á aldrinum fjögurra til ellefu ára fá hálfa dagpeninga.
Sjúkratryggingar greiða eingöngu uppihaldsdagpeninga þá daga sem er læknisfræðilega nauðsynlegt að dvelja erlendis, ekki er heimild til að greiða umframdaga eða þegar einstaklingur velur að vera lengur til að fá þjónustu sem hægt er fá á Íslandi.
Heimilt er að taka þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgunar para ef ekki er hægt að veita fullnægjandi meðferð hér á landi. Pör taka þátt í kostnaði við meðferð á sama hátt og ef tæknifrjóvgun hefði farið fram á Íslandi. Greiddir eru fullir dagpeningar fyrir annan makann en hálfir fyrir hinn meðan dvalið er utan sjúkrahúss.
Ef valin er meðferð á öðrum og dýrari stað en siglinganefnd hefur samþykkt greiða Sjúkratryggingar eingöngu þann kostnað sem henni hefði borið að greiða fyrir sambærilega þjónustu á ódýrari staðnum.
Ef aðstæður eru þannig að heilbrigðisstarfsmaður þarf að fylgja sjúklingi greiða Sjúkratryggingar Íslands ferðastyrk til hans.
Hvernig er hægt að senda til okkar umsóknir og nauðsynleg gögn?
Senda umsóknir ásamt gögn með öruggum gagnaskilum í gegnum Gagnaskil einstaklinga eða Gagnagátt meðferðarlæknis
Koma með umsókn og gögn í Þjónustuver okkar að Vínlandsleið 16. Hægt er að fá þar aðstoð við útfyllingar á umsóknum
Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar