Sjúkratryggingar við flutning frá Íslandi
Námsmenn erlendis
Með námsmanni er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem stundar nám eða starfsþjálfun sem lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem er viðurkennd af yfirvöldum.
Taki námsmaður upp fasta búsetu eða launavinnu í námslandinu ber honum að tilkynna slíkt til Þjóðskrár og fellur hann þá ekki lengur undir íslenska tryggingavernd.
Frekari fyrirspurnum er svarað á netfanginu international@sjukra.is
Upplýsingar til námsmanna á Norðurlöndum
Einstaklingar sem fara í nám til Norðurlandanna þurfa yfirleitt að taka upp búsetu þar og falla því undir almannatryggingareglur viðkomandi lands.
Heilbrigðisþjónusta er veitt samkvæmt reglum í viðkomandi landi og getur greiðsluþátttaka verið ólík milli landa.
Námsmenn á Norðurlöndunum sem koma til Íslands á meðan á námstíma varir eiga rétt á því að vera tímabundið sjúkratryggðir á meðan þeir dvelja á Íslandi.
Senda þarf inn umsókn um tímabundna sjúkratryggingu tveimur vikum fyrir komu til landsins
Henni þarf að fylgja staðfesting á námi
Gögnin skulu send í gegnum Gagnaskil einstaklinga
Nám í EES löndum, Bretlandi og Sviss
Námsmenn erlendis, utan Norðurlandanna, geta haldið lögheimili sínu á Íslandi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Námsmenn þurfa þó að kynna sér vel reglur þess lands sem farið er til. Námsmenn og fjölskyldur þeirra eiga rétt á heilbrigðisþjónustu þar ef þörf krefur innan opinbera heilbrigðiskerfis viðkomandi lands í samræmi við EES reglur um almannatryggingar.
Framvísa þarf evrópska sjúkratryggingakortinu við komu á heilbrigðisstofnun.
Ef upp koma vandamál hjá námsmönnum varðandi evrópska sjúkratryggingakortið er unnt að senda fyrirspurn á international@sjukra.is.
Ef námsmaður erlendis og/eða aðstandendur hans hafa þurft að greiða að fullu sjúkrakostnað erlendis þá geta þeir átt rétt á endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar að hluta frá Sjúkratryggingum
Við flutning til Bretlands skal sérstaklega kynna sér reglur og gjöld um almannatryggingar námsmanna
Nám utan EES landa og Sviss
Námsmenn utan EES landa geta sótt um tryggingaryfirlýsingu fyrir sig og fjölskyldu sína. Það er í raun staðfesting um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í þeim sjúkrakostnaði sem námsmaður kann að verða fyrir á meðan á námi erlendis stendur.
Sjúkratryggingar taka þá þátt í heilbrigðiskostnaði eins og um innlendan kostnað væri að ræða en að auki greiða Sjúkratryggingar ákveðið hlutfall af umframkostnaði.
Tryggingaryfirlýsingar námsmanna geta eftir atvikum lækkað þann hluta skólagjalda sem annars færi í að sjúkratryggja viðkomandi nemanda. Einstaklingar sjálfir þurfa að kanna hvort að tryggingaryfirlýsing Sjúkratrygginga sé fullnægjandi eða ekki.
Skila þarf inn námsstaðfestingu í umsóknarferlinu. Við það myndast tryggingayfirlýsing í Stafræna pósthólfinu sem hægt er að prenta út og taka með.
Vakin er athygli á því að það er ekki nægileg staðfesting að sýna fram á að námsmaður hafi verið samþykktur til þess að hefja ákveðið nám heldur þarf að koma fram hvenær áætlað er að námsmaður hefji nám og hvenær því lýkur.
Nám í Bandaríkjunum
Námsmenn í Bandaríkjunum geta ef þess er þörf haft samband við tengilið Sjúkratrygginga í Bandaríkjunum, GMMI Global, ef um er að ræða háa læknareikninga. Hægt er að hafa samband við GMMI Global í gegnum tollfrjálst númer 1-800-682-6065 eða á netfangið customerservice@gmmi.com.
Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar