Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Feðrun barns

Ef barn fæðist í hjónabandi eða skráðri sambúð þá er eiginmaður eða sambúðarmaður sjálfkrafa skráður faðir barnsins á fæðingarvottorði þess.

Réttindi barns og föður

Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína og að þekkja uppruna sinn.

Feðrun hefur meðal annars í för með sér að:

  • faðir getur farið með forsjá barns

  • faðir og barn eiga gagnkvæman umgengnisrétt

  • faðir er framfærsluskyldur gagnvart barni

  • faðir og barn taka arf eftir hvort annað

  • barn má bera nafn föður sem kenninafn

Ferli feðrunar

Ef móðir er hvorki í hjónabandi né sambúð við fæðingu barns verður að feðra barnið eigi síðar en sex mánuðum eftir fæðingu.

Ef enginn ágreiningur

Ef enginn ágreiningur er um faðerni eða meðlag skal feðrun tilkynnt beint til Þjóðskrár.

Móðir og lýstur faðir þurfa bæði að undirrita yfirlýsinguna áður en hún er send. Ef hjúskaparstaða móður er óupplýst hjá Þjóðskrá þá þarf hjúskaparstöðuvottorð að fylgja yfirlýsingunni.

Meðlagsákvörðun samhliða feðrun

Ef ákveða á meðlag með barni samhliða feðrun, þarf að feðra barnið hjá sýslumanni í því umdæmi sem barnið hefur búsetu.

Móðir leggur fram yfirlýsingu um hvern hún telur vera föður barnsins. Í kjölfarið er lýstur faðir boðaður í viðtal og óskað eftir viðurkenningu hans. Ef lýstur faðir viðurkennir feðrun og meðlagsgreiðslur undirritar hann yfirlýsingu í viðurvist sýslumanns. Sýslumanns embættið sér svo um að koma tilkynningu um feðrun til Þjóðskrá og málinu því lokið.

Ágreiningsmál

Ef lýstur faðir neitar að samþykkja að hann sé faðir barnsins þá getur hann farið fram á blóðrannsókn (DNA rannsókn) til að fá úr því skorið hvort hann sé faðir barnsins. Kostnaður fyrir slíkar rannsóknir greiðist af lýstum föður reynist hann faðir barnsins.

  • Ef niðurstaðan er að lýstur faðir útilokast frá faðerni barnsins, fellur greiðsluskylda hans niður og málinu er vísað frá.

  • Er niðurstaðan er að viðkomandi er faðir barnsins þá þarf hann að mæta til viðtals hjá sýslumanni og gangast við faðerni.

Ef ekki næst í lýstan föður, hann neitar að mæta til viðtals eða neitar því að vera faðir barnsins, er málinu vísað frá og móðir leiðbeint að höfða dómsmál.

Hafi farið fram blóðrannsókn og lýstur faðir neitar að gangast við úrskurði rannsóknarinnar er móður einnig leiðbeint að höfða dómsmál.

Hverjir geta höfðað faðernismál?

Þeir sem geta höfðað faðernismál fyrir dómstólum ef barn er ófeðrað eru

  • barnið sjálft 

  • móðir barnsins 

  • maður sem telur sig vera föður barnsins

Ef barnið sjálft höfðar mál þá þarf lögráðamaður þess að gera það fyrir hönd barnsins. Ef barnið sjálft höfðar mál er kostnaður, sem ákveðinn er af dómara, greiddur úr ríkissjóði. Ef móðir eða maður sem telur sig vera föður barns höfða mál þá gilda almennar reglur um málskostnað, þar á meðal um gjafsókn.

Faðernismálum getur lokið með, afturköllun, sátt eða með dómi. Þegar dómur eða sátt liggur fyrir sendir dómari upplýsingar um feðrun barnsins til Þjóðskrá. Málinu telst þá lokið.

Sýslumenn

Sýslu­menn