Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum

Réttindi og skyldur

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er að hámarki veitt til eins árs.

Dveljist handhafi leyfisins lengur en þrjá mánuði samfellt erlendis getur dvalarleyfið verið fellt niður. Dvalarleyfi útlendings fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili hans, sem skráð var hér á landi, hefur verið skráð erlendis í þrjá mánuði.

Þrátt fyrir að dvalarleyfi hafi fallið niður er hægt að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi, ef það er gert innan gildistíma fyrra dvalarleyfis og sanngirnisástæður mæla með því.

Réttur til að vinna

Dvalarleyfinu fylgir heimild til að vinna án atvinnuleyfis.

Réttur til endurnýjunar leyfis

Þú þarft að sækja um endurnýjun dvalarleyfis áður en leyfið þitt rennur út.

Aðeins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli mannúðarleyfis, ef upphaflegar forsendur fyrir veitingu leyfisins hafa ekki breyst. Þetta þýðir að við afgreiðslu umsóknar um endurnýjun verður Útlendingastofnun að leggja nýtt mat á forsendur þess að þú fékkst veitt mannúðarleyfi.

Ef skilyrði mannúðarleyfisins eru áfram uppfyllt verður leyfi þitt endurnýjað. Sé það mat stofnunarinnar að skilyrðin séu ekki lengur uppfyllt, færð þú boð í viðtal þar sem þér verður leiðbeint um möguleika þína til að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Uppfyllir þú skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, færðu heimild til að dvelja áfram á Íslandi. Ef þú sækir ekki um annað dvalarleyfi, eða uppfyllir ekki skilyrði þess leyfis sem þú sækir um, færð þú boð í viðtal vegna hugsanlegrar afturköllunar á mannúðarleyfi þínu.

Afturköllun mannúðarleyfis þíns hefur áhrif á heimildir aðstandenda þinna til dvalar á Íslandi, ef þeir eru með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við þig.

Þú getur kært ákvörðun um afturköllun mannúðarleyfis til kærunefndar útlendingamála.

Réttur til fjölskyldusameiningar

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr en eftir að það hefur verið endurnýjað tvisvar sinnum.

Dvalarleyfi af mannúðarástæðum veitir handhafa rétt til fjölskyldusameiningar við

Undanþága frá skilyrði um endurnýjun

Ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því, vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða, má veita undanþágu frá skilyrðinu um að dvalarleyfi þitt hafi verið endurnýjað tvisvar áður en aðstandandi þinn sækir um fjölskyldusameiningu við þig.

Aðkallandi umönnunarsjónarmið geta átt við ef þú, sem rétturinn til fjölskyldusameiningar byggir á:

  • varst umönnunaraðili maka þíns áður en þú yfirgafst heimaríki þitt eða

  • þú átt barn í heimaríki sem er í bráðri hættu, sem er þar án forsjáraðila eða á við alvarleg veikindi að stríða.

Með umsókn skal leggja fram gögn til staðfestingar á því að aðkallandi umönnunarsjónarmið séu til staðar. Ef umsókn byggist á veikindum umsækjanda, dugar ekki að leggja fram læknisvottorð heldur verður einnig að liggja fyrir að umsækjanda standi ekki til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki. Það er ekki nóg að þjónustan í heimaríki sé lakari eða kosti peninga.

Við mat á því hvort aðstæður teljist aðkallandi er litið til þess hve lengi þú, sem rétturinn til fjölskyldusameiningar byggir á, hefur verið aðskilinn frá umsækjanda og hvort umsækjandi hafi haft annan umönnunaraðila á meðan.

Réttur til ótímabundins dvalarleyfis

Dvalarleyfið getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Athugið að eitt af skilyrðum ótímabundins dvalarleyfis er að hafa ekki hafa dvalist meira en 90 daga erlendis samtals á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis, talið frá útgáfudegi leyfis.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun