Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Afturköllun dvalarleyfis

Á þessari síðu

Í ákveðnum tilvikum er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi.

Algengast er að afturköllun dvalarleyfis komi til þegar útlendingur uppfyllir ekki lengur skilyrði dvalarleyfis, til dæmis vegna skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar.

Það skiptir máli fyrir réttarstöðu viðkomandi í framhaldi af ákvörðun um afturköllun á hvaða grundvelli afturköllunin er tekin. 

Helstu ástæður afturköllunar

Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi í eftirfarandi tilvikum:

  • Útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna

  • Útlendingur uppfyllir ekki lengur skilyrði dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis.

  • Það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

Ferill afturköllunar

Útlendingastofnun tilkynnir útlendingi um afturköllun dvalarleyfis. Í þeim tilvikum þar sem öruggt er að skilyrðum dvalarleyfis er ekki lengur fullnægt, til dæmis við lögskilnað, fær viðkomandi tilkynningu um að leyfi hans hafi verið afturkallað.

Í öðrum tilvikum getur verið nauðsynlegt að útlendingur fái tækifæri til að tjá sig um hugsanlega afturköllun áður en ákvörðun er tekin. Viðkomandi er þá send tilkynning um hugsanlega afturköllun og honum veitt færi á að tjá sig um efni máls eða sækja um nýtt dvalarleyfi innan tilskilins frests, sem yfirleitt er 15 dagar.

Að teknu tilliti til athugasemda útlendings , ákveði hann að tjá sig um mál, er ákvörðun tekin. 

Afleiðingar afturköllunar

Afturköllun hefur þau áhrif að dvalarleyfi útlendings sem þegar hefur verið veitt er dregið til baka og hefur viðkomandi þá ekki lengur heimild til dvalar á Íslandi.

Í þeim tilvikum þar sem afturköllun byggir á breyttum aðstæðum útlendings er honum veittur frestur, yfirleitt 15 dagar, til þess að sækja um dvalarleyfi á nýjum grundvelli. Hafi viðkomandi hvorki sótt um dvalarleyfi að fresti liðnum né kært ákvörðunina telst dvöl hans hér á landi ólögmæt nema hann hafi heimild til dvalar hér á landi á grundvelli áritunarfrelsis. Í slíkum tilvikum hefur viðkomandi heimild til dvalar þann tíma sem áritunarfrelsi gildir.

Eftir afturköllun leyfis á þeim grundvelli að rangar upplýsingar hafi verið gefnar eða atvikum leynt sem höfðu verulega þýðingu við útgáfu þess leyfis, skal staða útlendings vera líkt og hann hafi aldrei fengið það leyfi útgefið og önnur leyfi byggð á sömu forsendum. Það þýðir að sæki viðkomandi aftur um dvalarleyfi er staða hans eins og um fyrsta dvalarleyfi sé að ræða. Viðkomandi gæti því þurft að yfirgefa landið, leggja fram öll gögn við nýja umsókn eins og krafist er við fyrstu umsókn um dvalarleyfi. Kæri útlendingur ekki ákvörðunina telst dvöl hans hér á landi ólögmæt nema hann hafi heimild til dvalar hér á landi á grundvelli áritunarfrelsis.

Kæra og frestun réttaráhrifa

Ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis er kæranleg til kærunefndar útlendingamála. Kærufrestur er 15 dagar og frestar kæra réttaráhrifum ákvörðunar. Það þýðir að ef ákvörðun um afturköllun dvalarleyfis er kærð verður réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar ekki framfylgt á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefndinni. Staða viðkomandi verður þá eins og ákvörðun um afturköllun hafi ekki verið tekin og heldur hann þeirri stöðu þar til úrskurðað hefur verið í kærumálinu.

Útlendingur á rétt á að fá skipaðan talsmann við kærumeðferð máls sem varðar afturköllun dvalarleyfis.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun