Talsmenn
Talsmaður er sá sem talar máli útlendings eða þess sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi og gætir hagsmuna hans við meðferð máls gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans er til meðferðar.
Réttur til þjónustu talsmanns
Útlendingar eiga rétt á að fá skipaðan talsmann
við meðferð umsóknar um vernd á stjórnsýslustigi og
við kærumeðferð máls sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun dvalarleyfis.
Kröfur til talsmanna
Útlendingastofnun skipar útlendingi talsmann.
Í málum sem varða umsókn um alþjóðlega vernd skal talsmaður hafa lokið embættisprófi eða grunn- og framhaldsprófi í lögfræði eða hafa öðlast lögmannsréttindi. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Í málum sem varða kærumeðferð frávísunar, brottvísunar eða afturköllunar leyfis skal talsmaður vera lögmaður. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Brottvísun og endurkomubann til Íslands - Talsmannaþjónusta.
Þegar um er að ræða fylgdarlaust barn skal talsmaðurinn hafa sérþekkingu á málefnum barna.
Kostnaður við talsmannaþjónustu
Kostnaður vegna þjónustu talsmanna greiðist úr ríkissjóði. Eingöngu talsmenn sem Útlendingastofnun hefur skipað til starfans fá greitt úr ríkissjóði. Kjósi útlendingur að velja sér annan talsmann en honum er skipaður skal hann sjálfur greiða kostnað vegna starfa hans.
Lög og reglur
Talsmenn eru skipaðir á grundvelli 3. mgr. 13. greinar og 1. mgr. 30. greinar laga um útlendinga númer 80/2016. Sjá einnig 42. grein reglugerðar um útlendinga númer 540/2017.