Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. jan. 2025

Stofnreglugerð Reglugerð án breytinga, sjá breytingasögu.

540/2017

Reglugerð um útlendinga.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi.

Íslenskir ríkisborgarar og ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu geta einnig borið skyldur samkvæmt reglugerðinni.

2. gr. Tilgangur.

Reglugerð þessi kveður á um réttarstöðu útlendinga sem koma til landsins eða fara frá því, dveljast hér á landi eða sækja um leyfi samkvæmt lögum um útlendinga og reglugerð þessari. Reglugerðin kveður jafnframt á um eftirlit með komu fólks til landsins og för þess úr landi og eftirlit með dvöl útlendinga hér á landi.

II. KAFLI Langtímavegabréfsáritun.

3. gr. Veiting langtímavegabréfsáritunar.

Veita má útlendingi langtímavegabréfsáritun að fenginni umsókn og að uppfylltum skilyrðum laga ef jafnframt er fullnægt skilyrðum samkvæmt reglugerð þessari.

Langtímavegabréfsáritun felur í sér heimild til dvalar hér á landi í allt að 90 daga og skal útlendingur sem sækir um slíka áritun vera staddur hér á landi nema annað sé tekið fram í reglugerð þessari. Dvöl útlendings þegar sótt er um slíka áritun skal vera í samræmi við 49. gr. útlendingalaga nema annað sé tekið fram. Langtímavegabréfsáritun er einungis heimilt að gefa út einu sinni á hverju 12 mánaða tímabili.

Langtímavegabréfsáritun veitir á gildistíma rétt til ferða innan Schengen-svæðisins.

Sækja skal um langtímavegabréfsáritun á sérstöku eyðublaði sem Útlendingastofnun útbýr.

4. gr. Umsækjandi um langtímavegabréfsáritun.

Útlendingur sem sækir um langtímavegabréfsáritun skal hafa náð 18 ára aldri en útlendingur yngri en 18 ára getur fengið slíka áritun í tengslum við áritun foreldris eða forsjármanns.

Með umsókn um langtímavegabréfsáritun skal umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði útlendingalaga. Útlendingastofnun er heimilt að óska eftir gögnum um sakaferil umsækjanda vakni grunur um að umsækjandi hafi ekki greint rétt frá við umsókn. Komi í ljós að umsækjandi hafi gefið rangar upplýsingar um sakaferil er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla langtímavegabréfsáritun.

5. gr. Grundvöllur langtímavegabréfsáritunar.

Útlendingastofnun metur hvort skilyrði langtímavegabréfsáritunar eru uppfyllt en dvöl umsækjanda þarf að vera þess eðlis að hún falli ekki undir neinn dvalarleyfisflokk sem tilgreindur er í lögum um útlendinga.

Heimilt er að gefa út langtímavegabréfsáritun, m.a. í eftirfarandi tilvikum:

  1. Til aðstandenda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, sem hyggjast koma í lengri heimsókn hingað til lands. Heimilt er að víkja frá aldursskilyrði foreldra umsækjanda við útgáfu langtímavegabréfsáritunar.
  2. Til vitna eða aðila að dómsmáli sem þurfa að dveljast hér vegna reksturs málsins.
  3. Til útlendinga sem hingað koma í öðrum lögmætum tilgangi, svo sem listamanna, vísindamanna eða íþróttamanna, enda kalli dvöl þeirra ekki á útgáfu dvalar- og/eða atvinnuleyfis.

5. gr. a

Heimilt er að veita útlendingi sem er undanþeginn áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun í allt að 180 daga til að stunda hér á landi fjarvinnu sæki hann um slíka áritun áður en hann kemur til landsins. Sé útlendingur kominn til landsins þegar sótt er um langtímavegabréfsáritun í þeim tilgangi að stunda hér á landi fjarvinnu er heimilt að veita hana í allt að 90 daga.

Heimilt er að veita útlendingi sem er undanþeginn áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun til þess að dvelja með maka sínum sem dvelur hér á landi í samræmi við 1. mgr. Um það hver telst maki samkvæmt ákvæði þessu fer eftir 69. gr., sbr. 70. gr. laga um útlendinga.

Heimilt er að veita barni sem er yngra en 18 ára og er undanþegið áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun ef foreldri dvelur hér á landi á grundvelli 1. mgr. eða 2. mgr. Um skilgreiningu á því hvað er barn samkvæmt ákvæði þessu fer eftir 69. gr., sbr. 71. gr. laga um útlendinga.

Útlendingur sem sækir um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 1. mgr. skal auk almennra skilyrða sýna fram á erlendar tekjur sem samsvara kr. 1.000.000 á mánuði.

Í þeim tilvikum þegar útlendingur sækir um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 2. mgr. þarf auk almennra skilyrða að sýna fram á að sá sem fékk áritun samkvæmt 1. mgr. hafi erlendar tekjur sem samsvara kr. 1.300.000 á mánuði.

Í þeim tilvikum þegar sótt er um langtímavegabréfsáritun samkvæmt 3. mgr. þarf auk almennra skilyrða að sýna fram á staðfestingu á því að barn á skólaskyldualdri skv. íslenskum lögum fái kennslu frá skóla í heimaríki eða skóla á Íslandi sem hefur samþykkt að taka við barninu eða með heimakennslu.

Með fjarvinnu skv. 1. mgr. er átt við skipulag og framkvæmd vinnu með notkun upplýsingatækni þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi á starfsstöð erlendis er unnin utan þeirrar starfsstöðvar hér á landi. Þeim sem sinnir fjarvinnu, sbr. 1. mgr., er óheimilt að starfa í þágu innlendra aðila eða starfa á annan hátt á innlendum vinnumarkaði.

Sé fjarvinnu sinnt í þágu erlends vinnuveitanda skal viðkomandi útlendingur sýna fram á staðfestingu frá vinnuveitenda um að honum sé heimilt að inna starf sitt af hendi hér á landi.

Sé fjarvinnu sinnt af sjálfstætt starfandi einstaklingi skal hann sýna fram á að hann sé sannanlega sjálfstætt starfandi í því landi sem hann hefur fasta búsetu eða starfar alla jafna.

6. gr. Skilyrði langtímavegabréfsáritunar.

Umsækjandi um langtímavegabréfsáritun skal ásamt umsókn leggja fram öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerir kröfu um og teljast nauðsynleg við vinnslu umsóknar.

Umsækjandi skal m.a. sýna fram á:

  1. Boðsbréf frá gestgjafa eða bréf þar sem tilgangi dvalar hér á landi er lýst.
  2. Að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann dvelur hér á landi.
  3. Að hann sé sjúkra- og slysatryggður þann tíma sem hann dvelur hér á landi.
  4. Að hann eigi farmiða fyrir heimferð eða hafi fjárráð til að greiða heimför þegar dvöl hér á landi lýkur.
  5. Gögn sem staðfesta tilgang dvalar hér á landi.

7. gr. Synjunarástæður og heimild til afturköllunar.

Umsókn um langtímavegabréfsáritun skal synjað:

  1. Ef ástæða dvalar umsækjanda hér á landi er þess eðlis að honum beri að sækja um dvalar- og/eða atvinnuleyfi.
  2. Ef fyrir liggja ástæður sem varða almannaöryggi eða ef stefna stjórnvalda í utanríkis- eða innflytjendamálum mælir gegn því.
  3. Ef líklegt er talið að umsækjandi muni ekki yfirgefa landið þegar áritun rennur út.
  4. Ef dvöl samræmist með öðrum hætti ekki tilgangi dvalar á grundvelli langtímavegabréfsáritunar.
  5. Ef umsókn uppfyllir með öðrum hætti ekki skilyrði fyrir langtímavegabréfsáritun.
  6. Ef umsækjandi gefur rangar upplýsingar um sakaferil.

Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla langtímavegabréfsáritun ef útlendingur brýtur gegn skilyrðum áritunarinnar.

III. KAFLI Dvöl án dvalarleyfis.

8. gr. Dvöl án dvalarleyfis.

Útlendingur sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu má ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum er óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu má ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili.

Dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknast frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknast dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins. Skylda má útlending með dvalarleyfi í öðru Schengen-ríki til að leggja fram ferðagögn sem staðfesta hvenær hann kom til landsins.

Hafi útlendingur dvalarleyfi í öðru norrænu ríki og sé hann ríkisborgari ríkis sem undanþegið er áritunarskyldu við komu til landsins reiknast dvalartíminn frá því að hann kom til landsins. Skal þá einungis taka mið af dvöl í landinu síðustu 180 daga þegar dvalartími er reiknaður, sbr. 2. og 4. mgr. 5. gr. norræna vegabréfaeftirlitssamningsins.

Norrænum ríkisborgurum er heimilt að dveljast hér á landi án dvalarleyfis.

IV. KAFLI Dvalarleyfi.

9. gr. Umsókn um dvalarleyfi.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um veitingu og útgáfu dvalarleyfis og skulu öll nauðsynleg fylgigögn lögð fram ásamt dvalarleyfisumsókn, sbr. 1. og 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Sækja skal um dvalarleyfi á sérstöku eyðublaði sem Útlendingastofnun útbýr.

Umsækjandi skal skrifa undir umsókn með eigin hendi nema hann sé ólögráða eða geti ekki skrifað undir vegna líkamlegrar eða andlegrar hömlunar. Í öðrum tilvikum er umboðsmönnum ekki heimilt að skrifa undir dvalarleyfisumsókn.

Umsækjandi skal sanna á sér deili með því að leggja fram gilt vegabréf eða annað viðurkennt gilt kennivottorð sem gefið er út af þar til bærum yfirvöldum og er gilt ferðaskilríki. Útlendingastofnun skráir með hvaða hætti umsækjandi hefur sannað á sér deili.

10. gr. Fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi.

Til þess að sýna fram á að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt getur Útlendingastofnun krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér á landi. Þá getur stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem hún metur það nauðsynlegt.

Með umsókn um dvalarleyfi skal umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði útlendingalaga. Útlendingastofnun er heimilt að óska eftir gögnum um sakaferil umsækjanda vakni grunur um að umsækjandi hafi ekki greint rétt frá við umsókn. Komi í ljós að umsækjandi hafi gefið rangar upplýsingar um sakaferil er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi.

Umsækjandi aflar sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Útlendingastofnun er heimilt að afla upplýsinga og gagna í tengslum við umsókn telji stofnunin það nauðsynlegt. Fylgigögn skulu vera á því formi sem Útlendingastofnun gerir kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telur nauðsynlegan. Í þessum tilgangi er Útlendingastofnun m.a. heimilt að krefjast þess að gögn séu lögð fram í frumriti og að ákveðin gögn séu lögformlega staðfest með apostille vottun eða keðjustimplun. Útlendingastofnun getur ákveðið að frekari staðfestingar sé þörf á efni skjals. Stofnuninni er jafnframt heimilt að framsenda gögn til annarra stjórnvalda til staðfestingar. Umsækjanda skal tilkynnt um framsendingu gagna og afla skal samþykkis hans í þeim tilvikum sem nauðsynlegt er.

Við vinnslu umsóknar er Útlendingastofnun heimilt að krefjast þess að umsækjandi og aðstandandi hér á landi komi í viðtal hjá stofnuninni. Útlendingastofnun getur ákveðið að viðtöl fari fram í gegnum síma eða tölvu.

Útlendingastofnun getur veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjast ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæla með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki. Þá er Útlendingastofnun heimilt af sömu ástæðum að gera undanþágu frá kröfu til forms gagna, t.d. vegna mismunandi krafna til staðfestingar á skjölum vegna annars konar reglna um útgáfu þeirra í heimaríki eða ólíkrar stjórnsýslu.

11. gr. Flýtimeðferð umsókna um dvalarleyfi.

Útlendingastofnun er heimilt að taka umsóknir um eftirfarandi dvalarleyfi til flýtimeðferðar, enda greiði umsækjandi fyrir það sérstakt þjónustugjald:

  1. Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga.
  2. Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.
  3. Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk, sbr. 63. gr. laga um útlendinga.
  4. Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- og þjónustusamnings, sbr. 64. gr. laga um útlendinga.

Útlendingastofnun ákveður þjónustugjald skv. 1. mgr. sem standa skal straum af sérstökum kostnaði stofnunarinnar við flýtimeðferðina, m.a. starfsmannakostnaði, tækjakostnaði, kostnaði vegna gagnaöflunar og umfangs vinnslu við umsókn. Ákvörðun um gjaldið skal birta í Lögbirtingablaði og á heimasíðu stofnunarinnar.

12. gr. Endurútgáfa dvalarleyfisskírteinis.

Glatist dvalarleyfisskírteini er Útlendingastofnun heimilt að gefa það út að nýju, enda sé greitt fyrir það gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

V. KAFLI Sérreglur um einstök dvalarleyfi.

13. gr. Samfelld dvöl sem skilyrði fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi.

Dvöl útlendings telst samfelld hér á landi í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi hann ekki dvalist lengur erlendis en 90 daga á hverju ári á gildistíma dvalarleyfis.

Heimilt er að víkja frá skilyrði 1. mgr. við sérstakar aðstæður hafi Útlendingastofnun veitt heimild til lengri dvalar erlendis á gildistíma tímabundins dvalarleyfis. Það sama á við hafi Útlendingastofnun ekki fellt niður tímabundið dvalarleyfi vegna of langrar dvalar erlendis og aðstæður mæla með því að öðru leyti.

Dvalartími skv. 1. mgr. reiknast frá þeim degi þegar útlendingur fær útgefið dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Fyrir útlending sem veitt er alþjóðleg vernd á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga miðast upphaf dvalartíma við þann dag er umsókn var lögð fram.

14. gr. Námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi.

Umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi skal hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðshaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir. Umsækjandi skal leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði og um ástundun en tímasókn umsækjanda skal vera að lágmarki 85%.

Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. mgr. um þátttöku í námskeiði ef umsækjandi hefur náð viðhlítandi þekkingu í íslensku og leggur fram vottorð því til staðfestingar að hann hafi staðist próf í íslensku fyrir útlendinga. Vottorðið skal gefið út af þeim sem ráðuneyti hefur falið að halda próf í íslensku fyrir útlendinga sem hyggjast sækja um ótímabundið dvalarleyfi. Enn fremur er heimilt að víkja frá skilyrði um þátttöku í námskeiði ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og hefur búið hér á landi í a.m.k. sjö ár eða ef hann er af líkamlegum eða andlegum ástæðum ófær um að taka þátt í slíku námskeiði, enda sé slíkt staðfest af þar til bærum sérfræðingi. Þá er einnig heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. hafi einstaklingur lagt fram sönnur fyrir því að hann hafi lokið námi á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi á íslensku sem gefur tilefni til að ætla að viðkomandi hafi öðlast fullnægjandi færni í íslensku.

Þeim sem heldur námskeið eða próf skv. 1. og 2. mgr. er heimilt að krefja umsækjanda um gjald vegna námskeiðs, prófs og útgáfu vottorðs.

15. gr. Niðurfelling ótímabundins dvalarleyfis.

Útlendingastofnun skal fella niður ótímabundið dvalarleyfi dveljist leyfishafi erlendis samtals lengur en 18 mánuði á fjögurra ára tímabili en dvalarleyfi fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili leyfishafa, sem skráð var hér á landi, hefur verið skráð erlendis í 18 mánuði samfellt.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Útlendingastofnun heimilað að fenginni umsókn að ótímabundið dvalarleyfi haldi gildi sínu ef útlendingur þarf:

  1. Að gangast undir herskyldu eða aðra skylda þjónustu í heimalandi sínu.
  2. Að dveljast tímabundið erlendis vegna vinnu eða menntunar sinnar eða maka.
  3. Að dveljast erlendis ásamt maka, sambúðarmaka, móður eða föður sem gegnir launuðu starfi á vegum íslenska ríkisins eða sem er starfsmaður alþjóðlegrar stofnunar.
  4. Að dveljast erlendis vegna tímabundinna veikinda sinna eða náins aðstandanda, sbr. 69. gr. laga um útlendinga.

Útlendingastofnun getur krafist þess að umsækjandi, skv. 2. mgr., leggi fram gögn til staðfestingar á nauðsyn dvalar.

16. gr. Umsókn um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar.

Umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar skal vinna störf fyrir vistfjölskyldu í skiptum fyrir vistina og skulu þau gera með sér samning þess efnis á stöðluðu eyðublaði sem Útlendingastofnun útbýr. Heimilt er að fela hinum vistráðna eftirfarandi störf:

  1. Barnagæslu, þó ekki þannig að störf hins vistráðna komi í stað umönnunaraðila ef um langveikt barn er að ræða.
  2. Fylgd barna til og frá skóla og/eða í frístundastarf.
  3. Heimilisstörf, þ.e. einföld þrif heimilis, einföld matreiðsla og létt innkaup á daglegum nauðsynjum.

Vinnutími hins vistráðna skal að hámarki vera 30 klst. á viku eða 5 klst. á dag og er óheimilt að semja um lengri vinnutíma. Störf hins vistráðna skulu ekki unnin í næturvinnu og skal vinnuskylda hins vistráðna almennt ekki hefjast fyrir kl. 7 að morgni og skal almennt vera lokið fyrir kl. 20 að kvöldi.

Hinn vistráðni skal hafa minnst einn frídag í viku og minnst eina fríhelgi í mánuði. Hinn vistráðni á rétt á fríi í eina viku eftir 26 vikna vinnu hjá vistfjölskyldu. Hinum vistráðna er heimilt að dveljast annars staðar en hjá fjölskyldu þegar hann er í fríi.

Vistfjölskylda skal sjá um fæði og uppihald hins vistráðna auk þess að greiða honum vasapeninga. Þeir skulu að lágmarki vera 15.000 kr. á viku. Hærri upphæð vasapeninga veitir ekki heimild til að krefjast aukins vinnuframlags frá hinum vistráðna. Framfærslu- og uppihaldsskylda vistfjölskyldu nær jafnframt til frídaga og veikindadaga hins vistráðna. Vistfjölskylda skal kaupa sjúkratryggingu fyrir hinn vistráðna sem gildir fyrstu 6 mánuði dvalartímans.

17. gr. Riftun samnings um vistráðningu.

Samningsaðilum er heimilt að rifta vistráðningarsamningi. Riftun skal vera skrifleg og tekur gildi um leið og hún hefur verið sannanlega birt hinum aðilanum. Senda skal Útlendingastofnun afrit af tilkynningu um riftun.

Riftun samnings er heimil vegna almenns ágreinings. Í slíkum tilvikum skal vistfjölskylda veita hinum vistráðna 30 daga frest til að fara úr vistinni en hinn vistráðni skal veita vistfjölskyldu 15 daga frest vegna riftunar.

Riftun samnings er heimil án tafar í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef alvarlegar kringumstæður vistfjölskyldu eða hins vistráðna knýja á um það, t.d. veikindi.
  2. Vegna alvarlegs misferlis, annaðhvort vistfjölskyldu eða hins vistráðna, svo sem vegna brota á íslenskum lögum eða ákvæðum vistráðningarsamnings. Í vafatilvikum metur Útlendingastofnun hvort riftun er heimil á grundvelli alvarlegs misferlis.

18. gr. Greiðsla ferðakostnaðar hins vistráðna.

Vistfjölskylda og umsækjandi skulu semja um hvernig greiðslu ferðakostnaðar til og frá Íslandi er háttað. Unnt er að semja um að vistfjölskylda greiði allan ferðakostnað eða einungis hluta hans en vistfjölskylda skal þó greiða að lágmarki helming ferðakostnaðar. Vistfjölskylda skal þó greiða allan ferðakostnað í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef vistaslit verða að frumkvæði vistfjölskyldu án þess að um sé að ræða vanefndir af hálfu hins vistráðna.
  2. Ef vistaslit verða vegna þess að hinn vistráðni er ófær um að standa við vistráðningarsamning vegna veikinda eða slyss.
  3. Ef vistaslit verða vegna vanefnda eða misferlis vistfjölskyldu.

Slíti hinn vistráðni sjálfur vistinni án vanefnda vistfjölskyldu eða að hann telur sig ekki geta efnt samninginn skal hann sjálfur standa straum af ferðakostnaði. Það sama á við ef hinn vistráðni verður uppvís að alvarlegu misferli og vist er slitið af þeim sökum.

Verði dvalarleyfi hins vistráðna afturkallað af Útlendingastofnun greiðir hinn vistráðni sjálfur ferðakostnað.

19. gr. Skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi áður búið á Íslandi.

Við mat á því hvort dvalarleyfi verði veitt á grundvelli sérstakra tengsla, hafi umsækjandi áður búið hér á landi, skal áhersla lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda. Sérstaklega skal horft til eftirfarandi atriða:

  1. Lengdar lögmætrar dvalar. Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skal almennt ekki veita nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk.
  2. Hversu langt er liðið frá dvalartíma. Hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verður dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk.
  3. Brotaferils umsækjanda hér á landi. Ef umsækjandi hefur endurtekið framið brot eða á mál til meðferðar í refsivörslukerfinu hérlendis skal að jafnaði ekki veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla.
  4. Fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskyldusögu, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla er ekki ætlað að koma í stað dvalarleyfis á grundvelli VIII. kafla laga um útlendinga, t.d. ef umsækjandi uppfyllir ekki öll grunnskilyrði dvalarleyfis samkvæmt þeim kafla. Líta ber til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla.
  5. Umönnunarsjónarmiða, þ.e. hvort umsækjandi er háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður.

20. gr. Skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi.

Útlendingastofnun er heimilt að gefa út dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi. Útgáfa slíks dvalarleyfis er heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þarf að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfa að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

21. gr. Framfærsluskilyrði umsækjanda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Heimilt er að veita dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið þótt framfærsla umsækjanda hafi verið ótrygg um skamman tíma ef sanngirnisástæður mæla með því. Sýna þarf fram á að ótrygg framfærsla hafi einungis varað í skamman tíma, t.d. vegna atvinnumissis og atvinnuleitar í kjölfarið um þriggja mánaða skeið. Aðrar ríkar sanngirnisástæður geta verið veikindi umsækjanda, hann hafi slasast alvarlega, hafi þurft að vera frá vinnu vegna fæðingar barns síns eða skilnaðar.

22. gr. Skilyrði dvalarleyfis á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs.

Veita má dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs til þess tíma er hinn lögmæti og sérstaki tilgangur varir, þó ekki lengur en til eins árs í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfið haldist tilgangur dvalar óbreyttur.

Eftirfarandi tilvik koma m.a. til greina sem grundvöllur slíks dvalarleyfis:

  1. Útlendingur slasast eða veikist hér á landi og þarf að framlengja dvöl sína þess vegna ef langtímavegabréfsáritun skv. 21. gr. á ekki við um aðstæður hans.
  2. Útlendingur er aðstandandi einstaklings sem slasast hér á landi eða veikist. Aðstandendur í skilningi þessa ákvæðis eru makar, sambúðarmakar og foreldrar. Útlendingastofnun getur veitt öðrum aðstandendum dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins ef aðstæður mæla sérstaklega með því.
  3. Útlendingur á von á barni sem á rétt á íslenskum ríkisborgararétti. Leggja þarf fram staðfestingu á þungun frá ljósmóður þar sem lýsts föður er getið auk samþykkis þess sem hún hefur lýst föður.
  4. Útlendingur er aðili dómsmáls fyrir íslenskum dómstólum og dvöl hans hér á landi er nauðsynleg vegna reksturs málsins.

VI. KAFLI Alþjóðleg vernd, málsmeðferð og réttindi umsækjanda.

23. gr. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Vinnumálastofnun eða sveitarfélög og aðrir þeir aðilar sem Vinnumálastofnun hefur samið sérstaklega við um að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu eru þjónustuaðilar umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Þjónusta fellur niður eigi síðar en átta vikum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingi vernd. Þrátt fyrir 1. málsl. fellur þjónusta niður þremur dögum eftir að einstaklingi, sem veitt hefur verið vernd, býðst annað húsnæði á vegum opinbers aðila.

Þjónusta fellur niður þremur dögum eftir að umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur dregið umsókn sína til baka eða á þeim degi þegar ákvörðun um að umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli yfirgefa landið kemur til framkvæmda, sbr. 35. gr. laga um útlendinga.

Vinnumálastofnun getur ákveðið að fresta skuli brottfalli þjónustu við einstakling, samkvæmt ákvæðinu, sem samþykkt hefur annað húsnæði, sbr. 2. mgr., eða sem sótt hefur um aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar skv. 104. gr. útlendingalaga. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að fresta brottfalli þjónustu við einstakling vegna atvika sem ekki eru á hans ábyrgð. Einstaklingur sem ber mál sitt undir dómstóla getur átt rétt á þjónustu þar til máli hans er lokið fyrir dómstólum.

Þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og í þeim tilvikum þegar umsókn um alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus er Vinnumálastofnun heimilt að fella niður þjónustu þegar framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun liggur fyrir.

24. gr. Greiningar- og móttökumiðstöðvar.

Vinnumálastofnun starfrækir miðstöð sem skal vera fyrsta greiningar- og móttökuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í greiningar- og móttökumiðstöð skal starfa fólk með sérþekkingu á málaflokknum sem leitast við að mæta þörfum einstaklinga og tryggja lágmarksþjónustu umsækjenda um vernd. Þá skal sérstaklega leitast við að tryggja réttindi barna og fatlaðra einstaklinga. Í greiningar- og móttökumiðstöð skal jafnframt fara fram mat á því hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sem og mat á því hvaða þjónustu viðkomandi þarf, svo sem læknisskoðun, sálfræðiþjónustu eða aðra nauðsynlega þjónustu. Í greiningar- og móttökumiðstöð skal einnig fara fram mat á því hvort umsækjandi um vernd sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Greiningar- og móttökumiðstöð skal bjóða upp á barnvænlegt umhverfi og aðstöðu sem hentar hagsmunum og þörfum barna.

Vinnumálastofnun starfrækir almenn þjónustuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Vinnumálastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga við sveitarfélög og aðra aðila um þjónustu á grundvelli þessa kafla.

Móttökumiðstöð má samnýta fyrir sambærilega starfsemi, svo sem vegna útlendinga sem eru hér á landi í ólögmætri dvöl, útlendinga í neyð eða hugsanlegra fórnarlamba mansals á grundvelli samninga við Vinnumálastofnun.

25. gr. Fæði og húsnæði.

Í þeim tilvikum sem umsækjandi um alþjóðlega vernd getur ekki sjálfur séð sér farborða skal Vinnumálastofnun, eða eftir atvikum sveitarfélög sem Vinnumálastofnun hefur samið sérstaklega við, sjá viðkomandi fyrir fæði eða fæðispeningum og húsnæði.

Einstaklingar á framfæri annarra stofnana, svo sem vegna fangelsis- og sjúkrahúsvistunar eiga ekki rétt á fæðispeningum frá Vinnumálastofnun. Einstaklingar í húsnæði með fullu fæði eiga ekki rétt á fæðispeningum. Einstaklingar eiga ekki rétt á öðru húsnæði en því sem Vinnumálastofnun úthlutar þeim.

Þeir sem stunda atvinnu án heimildar missa rétt sinn til fæðispeninga. Skilyrði fyrir greiðslu fæðispeninga eru m.a. að viðkomandi búi ekki í húsnæði sem fylgir fullt fæði, geri grein fyrir sér hjá Vinnumálastofnun, mæti í viðtöl og birtingar sem hann hefur sannanlega verið boðaður til og gangist undir að fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda í búsetuúrræði viðkomandi. Séu skilyrði fyrir greiðslu fæðispeninga ekki uppfyllt skal Vinnumálastofnun sjá viðkomandi fyrir fæði.

Fæðispeningar einstaklinga í húsnæði án fæðis og einstaklinga í eigin húsnæði skulu vera sem hér segir, en þó aldrei hærri en sem nemur 28.000 kr. fyrir hverja fjölskyldu á viku:

Einstaklingar 8.000 kr. á viku
Hjón eða sambúðarfólk 13.000 kr. á viku
Barn 5.000 kr. á viku

Heimilt er að greiða fæðispeninga skv. 4. mgr. að hluta og skulu þeir nema 30% vegna morgunverða, 30% vegna hádegisverða og 40% vegna kvöldverða.

26. gr. Heilbrigðisþjónusta.

Einstaklingar í umsjá Vinnumálastofnunar skulu við komu til landsins gangast undir læknisskoðun, byggða á viðmiðunarreglum sóttvarnarlæknis.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þeim lyfjum sem þeim eru nauðsynleg skv. læknisráði og að höfðu samráði við trúnaðarlækni Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun stendur straum af slíkum kostnaði geti umsækjandi ekki staðið undir honum sjálfur. Börn yngri en 18 ára njóta aðgangs að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, meðan þau dveljast hér á landi. Barnshafandi konur skulu hafa aðgang að mæðravernd og börn að ung- og smábarnavernd. Umsækjendum um alþjóðlega vernd skal einnig standa til boða að leita til félagsráðgjafa og samkvæmt mati Vinnumálastofnunar til geðlæknis og sálfræðings.

Önnur læknisþjónusta, svo sem tannlækningar eða læknisaðgerðir sem ekki er brýn þörf fyrir, sem og lyfseðilsskyld lyf sem ekki teljast nauðsynleg standa utan þeirrar þjónustu sem umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á og skal ekki veitt nema að undangengnu mati trúnaðarlæknis Vinnumálastofnunar. Heilbrigðiskostnaður vegna bráðaþjónustu greiðist af fjárlagalið 06-399, "Hælisleitendur", í samræmi við reglugerð um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir. Umsækjendur um alþjóðlega vernd skulu sjálfir bera annan heilbrigðis- og lyfjakostnað.

27. gr. Menntun barna.

Börnum fram að 18 ára aldri skal tryggð menntun. Vinnumálastofnun skal tryggja að barn sé að jafnaði ekki lengur en fjórar vikur í umsjá stofnunarinnar án þess að vera komið í almennan skóla eða annað úrræði til menntunar. Leitast skal við að barn sé komið í almennan skóla innan 12 vikna frá umsókn um alþjóðlega vernd.

Leitast skal við að koma til móts við þarfir fjölskyldna í þjónustu sveitarfélaga með daggæslu, leikskóla, framhaldsskóla eða öðrum menntaúrræðum, eftir því sem við á.

28. gr. Samgöngur.

Vinnumálastofnun, eða eftir atvikum sveitarfélag sem Vinnumálastofnun hefur samið sérstaklega við, skal tryggja umsækjanda um alþjóðlega vend gjaldfrjálsar almenningssamgöngur vegna erinda sem hann kann að eiga vegna umsóknar sinnar.

29. gr. Framfærslufé.

Umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á vikulegu framfærslufé eftir fjögurra vikna dvöl á vegum Vinnumálastofnunar. Fullorðinn einstaklingur á rétt á 2.700 kr. í framfærslufé á viku og barn 1.000 kr. Vinnumálastofnun skal skilyrða greiðslu framfærslufjár þannig að umsækjandi þurfi að gera grein fyrir sér hjá stofnuninni, mæta í viðtöl og birtingar hjá Útlendingastofnun sem hann hefur sannanlega verið boðaður til og gangast undir að fylgja þeim húsreglum sem gilda í því húsnæði sem hann dvelur í. Vinnumálastofnun skal draga af framfærslufé einstaklinga útlagðan kostnað vegna skemmda á húsnæði eða innanstokksmunum eða annarra útgjalda sem stofnunin þarf að standa undir og ekki eru tilkomin vegna eðlilegrar notkunar einstaklingsins. Útlendingur sem stundar vinnu án atvinnuleyfis á ekki rétt á framfærslufé. Útlendingur sem veitir ekki atbeina sinn við að upplýsa hver hann er á ekki rétt á framfærslufé.

Útlendingur á ekki rétt á framfærslufé eftir að hann dregur umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka eða þegar framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun liggur fyrir.

30. gr. Aukin þjónusta.

Vinnumálastofnun er heimilt með samþykki ráðherra að setja almennar reglur um aukna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Aðrar ákvarðanir Vinnumálastofnunar um aukna þjónustu umfram þá, er í reglugerð þessari greinir, skulu ekki teknar nema að undangengnu samþykki forstjóra, staðgengils forstjóra eða fjármálastjóra Vinnumálastofnunar.

31. gr. Réttaráhrif alþjóðlegrar verndar.

Öllum einstaklingum sem koma til landsins í boði íslenskra stjórnvalda skv. 43. gr. laga um útlendinga, sem og þeim er hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli 73. og 74. gr. sömu laga, skal standa til boða að fá fræðslu og ráðgjöf um réttindi og skyldur og helstu upplýsingar um íslenskt samfélag, þar á meðal upplýsingar um atvinnutækifæri, húsnæðismál, íslenskukennslu og menntun almennt. Þessum einstaklingum skal standa til boða aðstoð við að tengjast því sveitarfélagi sem þeir hyggjast setjast að í.

Velferðarráðuneytið gefur út og birtir viðmiðunarreglur um velferðarþjónustu við einstaklinga sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli 43., 73. og 74. gr. laga um útlendinga.

32. gr. Sérstakar ástæður og sérstök tengsl, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við það mat stjórnvalda sem rúmast innan c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 ber að leggja megináherslu á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins. Sjónarmið um skilvirkni umsóknarferlisins endurspeglast m.a. í 47. gr. reglugerðar þessarar.

Við mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefurslík sérstök tengslvið landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða efsérstakar ástæðurmæla annars með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ber að taka mið af viðmiðunarreglum 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar þessarar.

32. gr. a Sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Almenn viðmið.

Með sérstökum ástæðum er átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort taka megi umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi, á grundvelli sérstakra ástæðna, skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eru eftirfarandi viðmið nefnd í dæmaskyni:

ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki,
ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Meðferð telst, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en viðkomandi muni ekki standa hún til boða, eða
ef umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki.

Að öðru leyti en talið er upp hér að framan hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi við mat á því hvort umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi nema ástæðan sé talin það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið. Efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna.

Óheimilt er með öllu að líta til athafna umsækjanda eða afleiðinga þeirra athafna sem hafa þann tilgang að setja þrýsting á stjórnvöld við ákvarðanatöku. Sem dæmi um framangreint má nefna athafnir umsækjanda sem eru til þess fallnar að grafa undan eigin heilsufari, og afleiðingum þeirra athafna, s.s. hungurverkfall o.fl.

Sérviðmið er varða börn og ungmenni.

Við mat á því hvort Útlendingastofnun er heimilt að taka mál barns til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skulu hagsmunir barns hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Þá eiga þau almennu viðmið sem koma fram í 1., 3., 4., 5., 6. og 7. mgr. þessa reglugerðarákvæðis jafnframt við um börn, auk þeirra sérsjónarmiða sem hér eru rakin.

Sé barn fylgdarlaust ber að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun er heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, samrýmist það hagsmunum þess og afstöðu. Hagsmuni fylgdarlauss barns ber m.a. að meta með hliðsjón af möguleikum barns til fjölskyldusameiningar, sbr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sem birt er sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 1/2014 í C-deild Stjórnartíðinda.

Við mat á sérstökum ástæðum er heimilt að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en sannanlega verið fylgdarlaust barn við komu til landsins.

Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra eða annars fjölskyldumeðlims sem hefur það á framfæri sínu skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman. Við það mat ber meðal annars að líta til þess hvort flutningur úr landi til viðtökulands hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.

32. gr. b Tengsl umsækjanda við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort heimilt sé að taka mál til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, er Útlendingastofnun m.a. heimilt að líta til tengsla á grundvelli fyrri dvalar umsækjanda. Heimilt er að taka tillit til framangreinds hafi umsækjandi áður verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur.

Hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verður umsókn ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

Þau tengsl sem umsækjandi myndar við Ísland eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd teljast ekki til sérstakra tengsla.

Umsækjandi telst ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Við mat á sérstökum tengslum skal m.a. líta til þess hvort umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi, hvort umsækjandi og aðstandandi hans hafi deilt eða alist upp á sama heimili eða hafi á einhverjum tímapunkti haft uppeldisskyldu eða framfærsluskyldu sín á milli. Stjórnvöldum er heimilt að krefja umsækjanda um að sýna fram á umrædd tengsl, t.d. með framlagningu skilríkja eða vottorða. Þá er stjórnvöldum heimilt að óska eftir því að aðstandandi umsækjanda staðfesti umrædd tengsl.

Við mat á sérstökum tengslum ber þó ávallt að hafa til hliðsjónar þau tengsl sem viðkomandi hefur í því ríki þar sem hann hefur heimild til dvalar í, m.a. lengd dvalar í ríkinu, fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl sem umsækjandi hefur myndað við ríkið. Þá skal jafnframt hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi eigi rétt á fjölskyldusameiningu skv. VIII. kafla laga um útlendinga.

32. gr. c

Útlendingastofnun er heimilt, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki, séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs.

32. gr. d

Þrátt fyrir 4. mgr. 23. gr. laga um útlendinga skal umsóknum barna skv. 37. og 39. gr. laganna svarað innan 16 mánaða.

Þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita barni, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því að það sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að uppfylltum öðrum skilyrðum.

VII. KAFLI Vegabréf.

33. gr. Vegabréfaskylda.

Útlendingur, sem kemur til landsins eða fer þaðan, skal hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki. Kennivottorð sem talin eru upp í viðauka 3 við reglugerð um för yfir landamæri eru viðurkennd sem ferðaskilríki við komu til landsins eða brottför þaðan. Ef útlendingur afhendir lögreglu eða öðru stjórnvaldi hér á landi vegabréf sitt eða annað kennivottorð skal hann fá í hendur kvittun lögreglu eða stjórnvalds fyrir móttöku skilríkisins.

Vegabréfaskyldan nær ekki til danskra, finnskra, norskra og sænskra ríkisborgara sem koma hingað til lands beint frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð eða fara beint þangað héðan.

Útlendingur, eldri en 18 ára, sem ekki er norrænn ríkisborgari, skal ávallt við dvöl hér á landi bera vegabréf, annað kennivottorð eða kvittun stjórnvalds fyrir móttöku ferðaskilríkis, sbr. 1. mgr., eða skilríki gefið út til hans af íslenskum stjórnvöldum, svo sem dvalarleyfisskírteini.

34. gr. Skilyrði fyrir því að vegabréf teljist gilt ferðaskilríki.

Vegabréf skal gefið út af þar til bæru yfirvaldi í því ríki sem handhafinn er ríkisborgari og vera gilt til ferðar hingað til lands. Það skal enn fremur vera gilt til ferðar til baka til útgáfuríkisins eða þriðja ríkis.

Vegabréfið skal gefið út á nafn eins einstaklings, sbr. þó ákvæði 34. og 35. gr.

Í vegabréf skal skráð fullt nafn vegabréfshafa, kyn, fæðingardagur, fæðingarstaður og ríkisfang hans, svo og til hvaða tíma vegabréfið gildir. Vegabréfið skal bera sýnishorn undirskriftar vegabréfshafa.

Í vegabréf skal fest nýleg og góð ljósmynd af vegabréfshafa. Í vegabréfi skal vera embættisstimpill eða innsigli þess yfirvalds sem gefur það út. Í meginmáli þess mega ekki vera leiðréttingar, nema gerðar séu af þar til bæru yfirvaldi.

Vegabréf skal vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, ensku, frönsku, ítölsku, spænsku eða þýsku eða hafa að geyma þýðingu á eitthvert þessara mála.

Gildistími vegabréfs, eða annars kennivottorðs sem viðurkennt er sem ferðaskilríki, skal vera a.m.k. 90 dagar fram yfir áætlaða dvöl hér á landi.

35. gr. Sameiginlegt vegabréf hjóna og undanþága frá vegabréfaskyldu fyrir börn.

Heimilt er hjónum, hvort sem þau ferðast saman eða hvort í sínu lagi, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Í vegabréfinu skal vera lýsing á hjónunum, myndir af þeim og sýnishorn af undirritun beggja. Vegabréfið skal að öðru leyti vera eins og vegabréf einstaklinga.

Erlent barn, yngra en 18 ára, sem ferðast með nánum ættingja eða forsjármanni, má koma til landsins og fara þaðan án þess að hafa eigið vegabréf ef nafn þess, kyn og aldur er skráð í vegabréf ættingjans eða forráðamannsins.

36. gr. Sameiginlegt vegabréf (hópferðavegabréf).

Heimila má útlendingum, sem koma hingað til lands í hópferð og ætla einungis að dveljast hér í stuttan tíma, að nota vegabréf, sem gefið hefur verið út handa þeim sameiginlega. Hópferðavegabréf skal gefið út af þar til bæru yfirvaldi, stimplað með embættisstimpli þess eða innsigli og vera gilt til ferðar til Íslands. Í því mega eingöngu vera nöfn ríkisborgara í ríki þar sem það er gefið út. Hópferðavegabréf skal vera gilt til ferðar hópsins til baka til útgáfuríkisins.

Hópferðavegabréf skal gefið út fyrir a.m.k. fimm manns, en mest fimmtíu manns. Í vegabréfinu skal kveðið á um gildistíma þess og tilgreint fullt nafn hvers þátttakanda í hópferðinni, fæðingardagur, fæðingarstaður, ríkisfang og lögheimili. Hver þátttakandi skal auk þess hafa kennivottorð, útgefið af yfirvaldi í heimalandi. Fararstjóri skal hafa venjulegt vegabréf, en nafn hans, svo og númer og útgáfudagur vegabréfsins, skal skráð á hið sameiginlega vegabréf.

Hópferðavegabréf skal gefið út í þremur eintökum. Skal eitt þeirra afhent eftirlitsmanni vegabréfa við komu til Íslands og annað við brottför.

Ef sameiginlegt vegabréf er gefið út í samræmi við Evrópusamning um ferðalög æskufólks á sameiginlegum vegabréfum frá 16. desember 1961 má í sameiginlega vegabréfinu, auk þeirra sem eru ríkisborgarar í útgáfuríkinu, skrá ríkisfangslausa og flóttamenn yngri en 21 árs sem dvelja löglega í útgáfuríkinu.

37. gr. Heimild til að undanþiggja útlending vegabréfaskyldu.

Útlendingastofnun getur, ef sérstaklega stendur á, undanþegið útlending þeirri skyldu að hafa vegabréf eða önnur viðurkennd skilríki.

VIII. KAFLI Rannsóknarúrræði.

38. gr. Skylda útlendings til að sanna á sér deili.

Við komu útlendings til landsins er honum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er. Í þessu skyni má krefjast þess af viðkomandi að hann:

  1. Veiti upplýsingar um atriði sem varða hann sjálfan, svo sem um nafn, ríkisfang, fæðingardag, fæðingarstað, heimilisfang eða dvalarstað í heimalandi, hjúskaparstöðu, fjölskylduhagi, persónuskilríki og ferðaleið til Íslands.
  2. Leggi fram ferðaskilríki eða sambærileg gögn sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum til staðfestingar á því hver hann er. Þá má gera útlendingi, sem ekki hefur slík gögn undir höndum, skylt að afla þeirra. Einnig má leggja fyrir útlending að hann veiti atbeina sinn til að slík skilríki verði gefin út, með því m.a. að gefa sig fram við sendistofnun hlutaðeigandi ríkis og veita þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að fá útgefin ferðaskilríki.
  3. Leggi fram önnur þau gögn sem sýnt geta fram á hver hann er. Leggja má fyrir hann að afla slíkra gagna ef hann hefur þau ekki undir höndum eða veita atbeina sinn til þess að þeirra verði aflað.
  4. Leggi fram farmiða, farangurskvittanir og önnur slík gögn.
  5. Taki þátt í tungumála- og/eða staðháttaprófi.
  6. Veiti rithandarsýnishorn til samanburðarrannsókna.

Ekki má skylda útlending sem sækir um alþjóðlega vernd til að hafa samband við yfirvöld í heimaríki sínu eða til að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er á annan þann hátt sem brýtur í bága við þörf hans fyrir vernd. Þetta gildir þó ekki um umsækjanda um alþjóðlega vernd sem hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd með skyldu til að yfirgefa landið eða umsækjanda um alþjóðlega vernd sem hefur verið veitt dvalarleyfi á öðrum grundvelli en þeim að hann sé verndar þurfi.

Leiki vafi á um rétt deili á skráðum útlendingi hér á landi er honum skylt að veita atbeina sinn til að upplýsa hver hann er. Beita má ákvæðum 1. mgr. í slíkum tilvikum en áður skal upplýsa útlendinginn um ástæður þess að efast sé um deili á honum og veita honum tækifæri til að tjá afstöðu sína til þeirra.

Þegar beitt er ákvæði 1. mgr. skal viðkomandi útlendingi gerð grein fyrir skyldum hans samkvæmt því og enn fremur skal hann upplýstur um viðurlög við því að sinna ekki þessari skyldu eða veita rangar eða villandi upplýsingar, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 116. gr. laga um útlendinga.

39. gr. Rannsókn á erfðaefni.

Rannsókn á erfðaefni verður ekki framkvæmd nema með skriflegu samþykki aðila.

Ef umsækjandi er staddur á Íslandi þegar umsókn er lögð fram fer rannsókn á erfðaefni fram hér á landi. Útlendingastofnun gerir samning við þar til bæra aðila sem annast rannsóknirnar.

Ef umsækjandi er ekki staddur á Íslandi þegar umsókn er lögð fram þarf niðurstaða úr rannsókn á erfðaefni að liggja fyrir áður en dvalarleyfi er veitt. Rannsókn á erfðaefni skal fara fram á vegum sendiráðs sem íslenska ríkið hefur samið um að sjái um framkvæmd ákvæðisins fyrir hönd Íslands.

Neiti aðili að gangast undir rannsókn á erfðaefni skal upplýsa hann um að það geti haft áhrif á umsókn hans um alþjóðlega vernd.

Leggja skal fram skýringar á því hvers vegna neitað er að gangast undir rannsóknina. Útlendingastofnun metur hvort skýringar séu fullnægjandi. Sé um læknisfræðilegar ástæður að ræða skal leita álits læknis á skýringu umsækjanda. Menningarlegar og trúarlegar ástæður teljast ekki fullnægjandi ástæður í skilningi ákvæðisins.

Sé niðurstaða rannsóknar á erfðaefni ekki í samræmi við upplýsingar frá umsækjanda skal umsækjanda veitt tækifæri á að leggja fram andmæli og útskýringar áður en ákvörðun er tekin á grundvelli niðurstöðunnar. Kynna skal umsækjanda hvaða afleiðingar röng upplýsingagjöf getur haft, m.a. með tilliti til hugsanlegrar brottvísunar skv. XII. kafla laga um útlendinga.

Útlendingastofnun tilkynnir lögreglu um niðurstöðuna ef ljóst er að íslenskum stjórnvöldum hafi verið veittar rangar upplýsingar.

Beri aðili máls fyrir sig að hann hafi ekki haft vitneskju um að blóðtengsl væru í raun ekki til staðar þarf Útlendingastofnun að meta trúverðugleika frásagnar út frá heildarmati gagna.

Útlendingastofnun greiðir kostnað af rannsókn á erfðaefni ef umsækjandi sækir um alþjóðlega vernd eða er staddur á Íslandi og stofnunin hefur farið fram á rannsóknina.

Umsækjandi greiðir kostnað af rannsókn á erfðaefni sé hann staddur erlendis.

Útlendingastofnun krefur umsækjanda um endurgreiðslu kostnaðar ef niðurstaða rannsóknar á erfðaefni leiðir í ljós að viðkomandi hafi gefið rangar upplýsingar.

40. gr. Aldursgreining.

Við ákvörðun á aldri skal fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar hans af ævi sinni en auk þess má beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Leiki grunur á að umsækjandi segi rangt til um aldur skal framkvæma líkamsrannsókn til aldursgreiningar.

Við líkamsrannsókn skal beita viðurkenndum aðferðum við mat á aldri og skal hún framkvæmd af þar til bærum sérfræðingum. Þá skal tryggt að sú aðferð sem valin er til greiningar á aldri sé mannúðleg og að gætt sé að réttindum og reisn þess einstaklings sem undir hana gengst. Í þeim tilvikum sem um fylgdarlaus börn er að ræða skal fulltrúi barnaverndarnefndar vera viðstaddur.

Neiti einstaklingur að gangast undir líkamsrannsókn til aldursgreiningar skal Útlendingastofnun meta mál einstaklingsins á grundvelli trúverðugleika og gagna málsins.

40. gr. a Sérákvæði um VIS-upplýsingakerfið.

Stjórnvöldum er heimilt að leita í VIS-upplýsingakerfinu á grundvelli fingrafara sem tekin eru samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um útlendinga. Sé leit á grundvelli fingrafara ómöguleg eða skili hún ekki árangri er stjórnvöldum heimilt að leita á grundvelli annarra fyrirliggjandi gagna og upplýsinga.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort leit skuli fara fram og á hvaða grundvelli. Lögregla annast töku fingrafaranna og sendir gögn þar um til ríkislögreglustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um ástæður þess að fingraförin voru tekin. Ríkislögreglustjóri annast samskipti við miðlægan gagnagrunn VIS-upplýsingakerfisins og upplýsir Útlendingastofnun um niðurstöðu leitar.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin til leitar í VIS-upplýsingakerfinu, veita útlendingi upplýsingar um ástæður leitarinnar og að ekki sé um skráningu að ræða.

Ríkislögreglustjóri getur sett verklagsreglur um meðferð fingrafaraupplýsinga og samskipti lögreglu, Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra vegna leitar í VIS-upplýsingakerfinu.

41. gr. Sérákvæði um Eurodac.

Í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Íslands, Noregs og Evrópubandalagsins um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja samningsins má taka fingraför af útlendingi sem:

  1. sækir um alþjóðlega vernd hér á landi,
  2. er handtekinn í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri Schengen-svæðisins og er ekki vísað frá,
  3. dvelur ólöglega hér á landi.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um sendingu fingrafaraupplýsinga úr landi á grundvelli Eurodac-reglna. Lögregla annast töku fingrafaranna og sendir gögn þar um til ríkislögreglustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum, þar á meðal upplýsingum um ástæður þess að fingraförin voru tekin. Ríkislögreglustjóri annast samskipti við miðlægan gagnagrunn Eurodac.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin til færslu í Eurodac-kerfið, veita umsækjanda um vernd eða útlendingi sem handtekinn er í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri og er ekki vísað frá upplýsingar um:

  1. hver ber ábyrgð á skráningunni,
  2. tilganginn með vinnslu upplýsinganna í Eurodac-kerfinu,
  3. hvert upplýsingunum er miðlað,
  4. að skylda er að taka fingraför hans og
  5. rétt hans til að fá aðgang að og leiðréttingu á upplýsingum sem varða hann.

Útlendingi, sem dvelur ólöglega hér á landi og fingraför hafa verið tekin af til sendingar til Eurodac, skal veita upplýsingar skv. a-, b-, c- og e-lið 3. mgr. eigi síðar en þegar upplýsingar um hann eru sendar í miðlægan gagnagrunn Eurodac. Þessi skylda á þó ekki við ef í ljós kemur að ekki er unnt að veita honum þessar upplýsingar.

Ríkislögreglustjóra ber að senda fingraför ásamt nauðsynlegum upplýsingum um útlending til miðlægs gagnagrunns Eurodac og fyrirspurnir vegna þeirra eftir beiðni Útlendingastofnunar og veita henni upplýsingar um niðurstöðu leitar í Eurodac-gagnagrunninum.

Ríkislögreglustjóra ber að senda miðeiningu Eurodac tilmæli um að læsa upplýsingum um umsækjanda um alþjóðlega vernd sem hefur verið skráður samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra ef sá maður er viðurkenndur flóttamaður og hefur fengið að koma sem flóttamaður inn í aðildarríki. Ríkislögreglustjóra ber að senda Eurodac upplýsingar, sem honum kunna að berast áður en tíu ár eru liðin frá skráningu, um að umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem skráður er samkvæmt upplýsingum frá Íslandi, hafi fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna.

Ríkislögreglustjóri skal, ef hann hefur sent Eurodac upplýsingar til skráningar um þann sem handtekinn hefur verið í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri, tilkynna Eurodac ef hann verður þess var áður en tvö ár eru liðin frá skráningu að útlendingurinn:

  1. hefur fengið dvalarleyfi,
  2. er farinn af yfirráðasvæði aðildarríkjanna eða
  3. hefur fengið ríkisborgararétt í einhverju aðildarríkjanna.

Ríkislögreglustjóri getur sett verklagsreglur um meðferð fingrafaraupplýsinga og samskipti lögreglu, Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjóra vegna Eurodac-gagnagrunnsins.

IX. KAFLI Önnur ákvæði.

42. gr. Réttaraðstoð.

Útlendingastofnun skipar útlendingi talsmann úr hópi lögmanna skv. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Skal þóknun talsmanns skv. grein þessari nema kr. 16.500 fyrir hverja byrjaða klukkustund. Miða skal við að eðlilegt umfang á þjónustu talsmannsins sé sjö klukkustundir.

Útlendingastofnun skipar umsækjanda um alþjóðlega vernd talsmann á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga. Hlutverk talsmanns er að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Talsmaður umsækjanda, skv. þessari málsgrein, skal hafa lokið embættisprófi eða grunn- og framhaldsprófi í lögfræði eða hafa öðlast lögmannsréttindi.

Ráðuneytinu er heimilt að semja við tiltekinn eða tiltekna aðila um að veita réttaraðstoð skv. 2. mgr., enda sé þess gætt að þjónustan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar í lögum.

Kostnaður vegna réttaraðstoðar við útlendinga skv. 1. og 2. mgr. greiðist úr ríkissjóði. Einvörðungu talsmenn sem Útlendingastofnun hefur skipað til starfans fá greitt úr ríkissjóði. Kjósi útlendingur að velja sér annan talsmann en honum er skipaður skal hann sjálfur greiða kostnað vegna starfa hans.

Heimilt er að krefja útlending um endurgreiðslu kostnaðar vegna starfa talsmanns, skv. 1. og 2. mgr., ef talið verður að það verði gert án þess að skerða með því möguleika hans til eðlilegrar framfærslu.

43. gr. Meðferð máls vegna umsóknar um alþjóðlega vernd.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli umsóknar samkvæmt ákvæðum 37. og 39. gr. útlendingalaga.

Verði umsókn um alþjóðlega vernd samþykkt skal umsækjanda gerð grein fyrir þeim réttaráhrifum sem fylgja veitingu alþjóðlegrar verndar og að heimilt sé að afturkalla slíka veitingu eftir ákvæðum 48. gr. laganna.

Verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi hér á landi tekur Útlendingastofnun ákvörðun um hvort frávísa eða brottvísa eigi umsækjanda eftir ákvæðum útlendingalaga. Útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd telst hafa áform um að dveljast á landinu í meira en 90 daga.

Við vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd skulu stjórnvöld leitast við að forgangsraða meðferð umsókna með tilliti til lögbundinna tímafresta 2. mgr. 74. gr. laganna þannig að mál sem eru nálægt því að uppfylla tímamörk ákvæðisins njóti forgangs.

43. gr. a. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort veita skuli dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skal taka mið af eftirtöldu:

Heilbrigðisástæður.
Með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum er m.a. átt við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð sé aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi, svo sem ef viðkomandi á ekki rétt á meðferðinni eða er með einhverjum hætti útilokaður frá henni, svo sem vegna alvarlegrar mismununar. Meðferð telst ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana.

Jafnframt geta átt hér undir mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni verði einstaklingi gert að snúa aftur til heimaríkis.

Ef um langvinnan sjúkdóm er að ræða eru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt er í slíkum tilvikum heimilt að líta til þess hvort meðferð er hafin hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa þá meðferð.

Þegar stjórnvöld taka ákvörðun um veitingu og útgáfu dvalarleyfis á þessum forsendum skal taka mið af fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal læknisvottorðum og öðrum læknisfræðilegum gögnum. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á að afla slíkra gagna og leggja fram við meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Erfiðar félagslegar aðstæður.
Með erfiðum félagslegum aðstæðum er vísað til þess að útlendingur þarfnist verndar vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Má þar sem dæmi nefna aðstæður kvenna sem sætt hafa kynferðisofbeldi og sýnt er fram á að það geti leitt til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Mat á verndarþörf einstaklinga sem tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi fer að öðru leyti eftir aðstæðum í hverju og einu máli.

Erfiðar almennar aðstæður.
Með erfiðum almennum aðstæðum er vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki sem ekki eru staðbundin, svo sem vegna langvarandi stríðsátaka.

Erfiðar almennar aðstæður taka að jafnaði ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða náttúruhamfara, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Á það m.a. við þegar í heimaríki viðkomandi ríkir óðaverðbólga, atvinnuleysi í ríkinu er mikið eða lágmarkslaun duga ekki fyrir framfærslu. Einstaklingsbundnir þættir eins og tungumálaörðugleikar og erfiðleikar við að bera sig eftir þeirri þjónustu sem er til staðar í heimaríki teljast ekki til erfiðra almennara aðstæðna.

43. gr. b. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við mat á því hvort veita skuli dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga skal taka mið af eftirtöldu:

Ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er.
Við mat á því hvort auðkenni viðkomandi teljist sannað skal líta til þess hvort hann hafi lagt fram trúverðug gögn sem sanna auðkenni hans, svo sem frumrit vegabréfs, auðkenniskort með lífkennum, fæðingarvottorð með lífkennum eða önnur gögn sem sannanlega er unnt að tengja við viðkomandi.

Útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins.
Við mat á því hvort viðkomandi hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn málsins skal m.a. líta til þess hvort frásögn hans hafi verið metin trúverðug, svo sem með framvísun sannreynanlegra gagna til stuðnings frásögn.

Útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skal m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi framvísað fölsuðum skjölum við málsmeðferð umsóknar eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti vanrækt eða ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar við málsmeðferðina.

44. gr. Frávísun og brottvísun.

Heimilt er að frávísa eða brottvísa útlendingi úr landi þegar skilyrðum XII. kafla útlendingalaga er fullnægt og ákvörðunin brýtur ekki í bága við 42. gr. laganna.

Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar, sbr. 2. mgr. 101. gr. útlendingalaga.

Endurkomubann hefst þann dag sem útlendingur er færður úr landi eða útlendingur fer af sjálfsdáðum af landi brott.

Lögreglan birtir útlendingi ákvörðun um brottvísun eða frávísun. Henni ber að leiðbeina útlendingi um réttarstöðu hans á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið, sbr. 11. gr. útlendingalaga. Njóti útlendingur aðstoðar löglærðs talsmanns er Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála heimilt að birta ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um útlendinga með rafrænum hætti.

Fari útlendingur ekki af sjálfsdáðum úr landi, eða honum er það óheimilt, framkvæmir lögregla flutning.

Hafi umsókn um alþjóðlega vernd verið synjað á öðrum grundvelli en vísað er til í X. kafla reglugerðarinnar, skal veita útlendingi skamman frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Samhliða skal tekin afstaða til þess í ákvörðun hvort skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt fari útlendingur ekki af landi brott eða óski aðstoðar til sjálfviljugrar heimfarar innan veitts frests. Séu skilyrði fyrir brottvísun uppfyllt tekur ákvörðunin um brottvísun gildi, fari útlendingur ekki af landi brott eða óski aðstoðar til sjálfviljugrar heimfarar innan veitts frests. Sama gildir dragi útlendingur umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka áður en ákvörðun um hvort veita eigi honum alþjóðlega vernd er tekin.

Dragi útlendingur, sem kemur frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, umsókn sína um alþjóðlega vernd til baka skal honum veittur 7 daga frestur til sjálfviljugrar heimfarar en honum skal almennt ekki veitt aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar. Útlendingum frá öðrum ríkjum en þeim sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki skal veittur frestur í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og skal standa til boða aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.

Leggi útlendingur sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd fram beiðni um endurupptöku máls frestar slík beiðni ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

45. gr. Vinnsla persónuupplýsinga.

Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, Þjóðskrá Íslands og lögreglu er heimilt að halda skrá yfir þau erindi sem stofnununum berast á grundvelli laga um útlendinga.

Útlendingastofnun heldur heildarskrá um þau erindi sem stofnuninni berast á grundvelli laga um útlendinga. Skráin skal m.a. geyma upplýsingar um þá sem sækja um dvalarleyfi, þá sem sækja um alþjóðlega vernd, þá sem er brottvísað eða frávísað og þá sem sækja um vegabréfsáritun. Í skrána skulu m.a. færðar og geymdar upplýsingar um:

  1. Nafn, fæðingardag, kennitölu og kyn.
  2. Ríkisfang, fæðingarstað og fæðingarland.
  3. Ljósmynd af viðkomandi.
  4. Hjúskaparstöðu og fjölskyldu.
  5. Heimild til dvalar á landinu.
  6. Vegabréf.
  7. Vinnustað.

Hinn skráði á rétt á að fá vitneskju um þær upplýsingar sem um hann eru skráðar í skrá Útlendingastofnunar. Hann á einnig rétt á að fá upplýsingar um hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um hann, nema slíkar upplýsingar eigi að fara leynt vegna lögreglustarfa.

Ef skráðar hafa verið persónuupplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar eða persónuupplýsingar hafa verið skráðar án tilskilinnar heimildar, skal Útlendingastofnun sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða.

Heimilt er að veita lögreglu aðgang að upplýsingum sem Útlendingastofnun heldur í skrá sinni um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er vegna lögreglustarfa.

Útlendingastofnun ber ábyrgð á öryggi við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt þessari grein. Persónuupplýsingum skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf.

X. KAFLI Sérstök málsmeðferð.

46. gr. Bersýnilega tilhæfulausar umsóknir.

Umsókn telst bersýnilega tilhæfulaus óháð því hvort útlendingur komi frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki þegar umsókn byggist á:

  1. öðrum málsástæðum en þeim sem átt geta undir 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, t.d. atvinnuleysi, húsnæðisskorti, örbirgð eða öðrum efnahagslegum ástæðum eða
  2. málsástæðum sem byggjast á fjarstæðukenndri frásögn.

Komi útlendingur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki telst umsókn jafnframt bersýnilega tilhæfulaus þegar hún byggir á:

  1. því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar,
  2. einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar,
  3. því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt eða
  4. öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki.

47. gr. Efnismeðferð þegar annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins ber ábyrgð.

Þegar útlendingur kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, umsókn hans um vernd hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus og flutningur viðkomandi úr landi til heimaríkis er ekki erfiðleikum bundinn er Útlendingastofnun heimilt að taka umsóknina til efnismeðferðar þrátt fyrir að ljóst sé að annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins beri ábyrgð á henni, skv. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þrátt fyrir að umsókn hafi verið tekin til efnismeðferðar skal máli framhaldið á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins komi í ljós við frekari vinnslu málsins að umsóknin uppfylli ekki lengur framangreind skilyrði 1. mgr.

48. gr. Viðtal og andmælaréttur.

Útlendingastofnun ber að kynna umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæður þess að umsókn hans sæti forgangsmeðferð og leiðbeina um þau réttaráhrif sem bersýnilega tilhæfulaus umsókn hefur sbr. XII. kafla laga um útlendinga og 49. gr. reglugerðar þessarar.

Í viðtali Útlendingastofnunar við umsækjanda um alþjóðlega vernd skal talsmaður vera viðstaddur. Markmið viðtalsins skal vera að fá fram sjónarmið umsækjanda og ástæður umsóknar, sbr. 28. gr. laga um útlendinga, auk þess að varpa ljósi á hvort aðstæður umsækjanda séu þess eðlis að tilefni sé til að víkja frá ákvæðum þessa kafla.

Svo tryggja megi hraða málsmeðferð og að markmiðum forgangsmeðferðar verði náð skulu andmæli umsækjanda og talsmanns hans almennt bókuð í lok viðtals. Telji talsmaður þörf á skal honum gefið tækifæri til að ráðfæra sig einslega við skjólstæðing sinn í lok viðtals áður en andmæli eru bókuð.

Þegar sérstaklega stendur á er Útlendingastofnun heimilt að veita hæfilegan frest til framlagningar gagna og athugasemda vegna þeirra.

49. gr. Ákvörðun Útlendingastofnunar.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum er sæta forgangsmeðferð má taka án samhliða rökstuðnings.

Við birtingu ákvörðunar án samhliða rökstuðnings skal Útlendingastofnun leiðbeina útlendingi um heimild til að fá ákvörðun rökstudda, kæruheimild, kærufresti og hvert skuli beina kæru, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún berst, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

50. gr. Um réttaráhrif synjunar bersýnilega tilhæfulausrar umsóknar.

Hafi umsókn verið synjað á þeim grundvelli að hún sé bersýnilega tilhæfulaus skal útlendingi almennt brottvísað og ákvarðað endurkomubann án þess að veittur sé frestur til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. og b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Útlendingastofnun heimilt í undantekningartilvikum að veita útlendingum sem falla undir þetta ákvæði frest til sjálfviljugrar heimfarar og aðstoð, t.d. þegar um er að ræða fylgdarlaus ungmenni.

51. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í ákvæðum laga nr. 80/2016 um útlendinga, með síðari breytingum, og öðlast hún þegar gildi.

Jafnframt fellur brott reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga.

Ákvæði til bráðabirgða.

Útlendingi sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. útlendingalaga en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. ágúst 2020.

Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

Ákvæði til bráðabirgða.

Útlendingi sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. september 2020.

Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.

Ákvæði til bráðabirgða.

Útlendingi sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er að lokinni skráningu hjá Útlendingastofnun, heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til 10. nóvember 2020. Skráning skal hafa farið fram fyrir 10. september 2020 og með beiðni um skráningu þarf að leggja fram afrit af vegabréfi og vegabréfsáritun þegar það á við.

Ákvæði 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.