Fara beint í efnið

Þegar ákvörðun sem varðar frávísun, brottvísun eða afturköllun dvalarleyfis er kærð, skal stjórnvald skipa útlendingi talsmann úr hópi lögmanna til að gæta hagsmuna hans.

Hafi útlendingur ekki lögmann eða tilnefnir ekki lögmann mun Útlendingastofnun skipa lögmann úr lista lögmannafélagsins.

Þetta gildir þó ekki þegar um er að ræða kæru vegna ákvörðunar um alþjóðlega vernd samkvæmt III. kafla eða brottvísun samkvæmt 2. og 3. mgr. 95. gr., c- og d-lið 1. mgr. 98. gr., b- og c-lið 1. mgr. 99. gr. og a-lið 1. mgr. 100. gr. útlendingalaga.

Greiðslur

Kostnaður vegna starfsins greiðist úr ríkissjóði, kr. 16.500 fyrir hverja byrjaða klukkustund, að viðbættum virðisaukaskatti, að hámarki sjö klukkustundir.

Eingöngu talsmenn sem Útlendingastofnun hefur skipað til starfsins fá greitt úr ríkissjóði. Kjósi útlendingur að velja sér annan talsmann en honum er skipaður skal hann sjálfur greiða kostnað vegna starfa hans.

Reikningar

Reikning talsmanns fyrir veitta þjónustu skal senda Útlendingastofnun rafrænt með tilvísun í málsnúmer stofnunarinnar ásamt sundurliðaðri tímaskýrslu og skipunarbréfi.

Aðeins er tekið við einum reikningi fyrir þjónustu við hvern einstakling við lok máls eða þegar heimilum tímafjölda er náð. Ef fleiri en einn reikningur er sendur fyrir málsmeðferð sama málsins verður síðari reikningnum hafnað.

Ekki er greitt fyrir vinnu talsmanns sem fram fer eftir endanlega niðurstöðu stjórnsýslumáls svo sem vinnu við beiðnir um frestun réttaráhrifa eða endurupptöku máls.

Ekki er greitt sérstaklega fyrir akstur talsmanns.

Rafrænir reikningar

Útlendingastofnun tekur eingöngu við rafrænum reikningum. Reikningar skulu vera á XML formi og miðlað í gegnum skeytamiðlara.

Greiðslufrestur skal aldrei vera styttri en 25 dagar.

Fyrir þá sem ekki eru með rafræna reikninga er Skúffan lausn sem Fjársýsla ríkisins bíður upp á fyrir notendur til að senda reikninga á rafrænu formi til ríkisstofnana.

Frekari leiðbeiningar um útgáfu rafrænna reikninga má nálgast hjá Fjársýslu ríkisins.

Lög

Fjallað er um réttaraðstoð og talsmenn í 13. grein laga um útlendinga 42. grein reglugerðar um útlendinga.

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun